17. janúar 1995 | Innlendar fréttir | 725 orð

Flekaflóð algengustu snjóflóðin

Flekaflóð algengustu snjóflóðin SNJÓFLÓÐ eru ákaflega mismunandi en auðþekkjanlegasti munurinn á þeim er hvort um er ræða svonefnd lausasnjóflóð eða flekahlaup. Flekaflóð eru algengustu snjóflóðin á Íslandi.

Flekaflóð algengustu snjóflóðin

SNJÓFLÓÐ eru ákaflega mismunandi en auðþekkjanlegasti munurinn á þeim er hvort um er ræða svonefnd lausasnjóflóð eða flekahlaup. Flekaflóð eru algengustu snjóflóðin á Íslandi. Snjóflóðið á Súðavík var þurrt flóð og hefur líklega verið sambland af flekahlaupi og kófhlaupi, samkvæmt upplýsingum snjóflóðavarna á Veðurstofu Íslands.

Ef snjór í snjóflóði er ekki mjög blautur og fer tiltölulega hratt yfir getur hent að einstaka hlutar hans þeytist í loft upp og fari niður hlíðina sem snjóský eða kóf. Er því snjóflóðum skipt í flæðihlaup og kófhlaup. Hér á landi er sjaldgæft að hrein kófhlaup falli en stundum falla flæðihlaup fyrir kletta og verða þannig kófhlaup um stund.

Halli lands og tegund snjóþekju eru samverkandi þættir sem ráða því hvort snjóflóð fellur. Miklu máli skiptir hvort snjóflóð eru þurr eða vot. Þá skiptir skriðflöturinn máli og ræður hann miklu um hraðann á flóðinu.

Á meðfylgjandi teikningum er sýndur munurinn á mismunandi tegundum snjóflóða auk þess sem þeir þættir sem hafa áhrif á gerð flóðanna eru skýrðir. Myndirnar og textinn eru fengin upp úr lokaverkefni Jóns Gunnars Egilssonar við byggingadeild Tækniskóla Íslands og birt með góðfúslegu leyfi hans.

Halli og væta verka saman

HALLI lands og tegund snjóþekju eru samverkandi þættir sem ráða því hvort snjóflóð fellur. Miklu máli skiptir hvort snjóflóð eru þurr eða vot. Þurrari flóð eru léttari í sér en þau votu og það hefur áhrif á rennsli þeirra. Þurru flóðin fara hraðar yfir og eru ekki eins næm fyrir hindrunum sem verða á vegi þeirra. Vot flóð fylgja betur landslaginu og þurfa ekki eins brattar brekkur til þess að skríða af stað. Stærstu flóðin falla í þjöppuðum snjó í tæplega 30 til rúmlega 50 gráðu halla.

Lausasnjóflóð

LAUSASNJÓFLÓÐ er það nefnt þegar samloðun snjókornanna á einhverjum einstökum stað í snjóþekjunni verður það lítil að nokkur þeirra skríða af stað. Það eykur álagið fyrir neðan þannig að meiri snjór skríður af stað. Slík keðjuverkun gengur svo niður eftir hlíðinni og flóðið breikkar smám saman. Lausasnjóflóð eru algengust í nýföllnum snjó og falla oftast af sjálfu sér þó mannaferðir hafi einnig komið slíku af stað. Lausasnjóflóð má þekkja á því hvernig þau líta út, þ.e. byrja í einum punkti og breiða síðan úr sér. Þau eru fátíð hér á landi og yfirleitt lítil og valda því sjaldan tjóni.

Flekahlaup

FLEKAHLAUP er það nefnt þegar stór hluti snjóþekjunnar skríður af stað í einu og skörp brotlína myndast. Þessi snjóflóð myndast í snjóþekju sem náð hefur að bindast saman, t.d. í foksnjó eða í snjó sem tekinn er að setjast. Hefur þá öll snjóþekjan náð að mynda eina heild sem nýtur sameiginlegs stuðnings. Þegar svo álagið verður styrknum yfirsterkara á einhverjum stað skríður öll þekjan af stað. Flekasnjóflóð verða því oftast stærri en lausasnjóflóð og að sama skapi hættulegri. Flekasnjóflóð eru auðþekkt á hinni skörpu brotlínu, þau eru algeng hér á landi, enda snjóþekjan hér oftast samanbarin.

Kófhlaup

EITT einkenni kófhlaupa er að á undan þeim niður hlíðina fer loftbylgja sem getur í sumum tilfellum orðið mjög öflug. Algengast er að snjóflóð falli sem blanda af flekahlaupi og kófhlaupi, þ.e. hluti þeirra skríði með jörðu og hluti ferðist í loftinu. Þannig var um flóðið sem féll á Seljalandsdal 5. apríl sl.

Skriðflöturinn

FLÓÐUM er skipt eftir því hvar skriðflöturinn liggur. Ef hann liggur í snjóþekjunni, þ.e. aðeins efri hluti hennar skríður fram, er talað um yfirborðshlaup. Ef hins vegar öll snjóþekjan skríður fram er það nefnt grunnhlaup og er þá jörðin sjálf skriðflöturinn. Ekki liggur neinn eðlismunur í rennsli þessara flóða, nema hvað grunnflóð sem fara eftir grófu jarðaryfirborði ná ekki eins miklum hraða og geta jafnvel stöðvast fljótlega.

Ferli snjóflóða

FERLI snjóflóða má skipta í þrennt; upptakasvæði, fallbraut og tungu. Upptakasvæði er það svæði nefnt þar sem snjórinn skríður fyrst af stað, þ.e. efsti hluti ferilsins. Gil og skálar geta verið mikilvirk upptakasvæði því þar er oft mikil snjósöfnun, sérstaklega ef vindur blæs snjónum til. Upptakasvæði geta legið hátt til fjalla og því erfitt að koma auga á þau. Það er mjög slæmt, því ástandið á upptakasvæðinu segir mest til um hvort hætta sé á snjóflóðum. Fallbraut tekur við af upptakasvæði, yfirleitt um 100 metrum frá brotlínu eða upphafspunkti. Hraði snjóflóða er mestur í fallbraut og einnig eyðileggingarmáttur þeirra. Tunga tekur við af fallbrautinni og er yfirleitt miðað við að tunga byrji þar sem halli lands er orðinn 20­25 gráður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.