Björn Sævar Ástvaldsson fæddist á Sauðárkróki 9.7. 1953. Hann lést á Landspítalanum 30.9. 2019. Foreldrar hans eru þau Svanfríður Steinsdóttir, f. 18.10. 1926, búsett á Sauðárkróki, og Ástvaldur Óskar Tómasson, f. 31.8. 1918, d. 20.1. 2007. Systkini hans eru: Steinn Gunnar, f. 7.3. 1948, Tómas Leifur, f. 23.5. 1950, Ingimar Rúnar, f. 20.12. 1959, og Ragnheiður Guðrún, f. 8.8. 1964.
Hinn 19.7. 1986 kvæntist hann Kristínu Rós Andrésdóttur, f. 22.12. 1952, foreldrar Guðrún Guðfinna Guðmundsdóttir, f. 10.3. 1919, d. 7.10. 1989, og Andrés Guðnason, f. 7.8. 1919, d. 25.4. 2008.
Sonur Björns af fyrra hjónabandi er Brynleifur Birgir, f. 2.12. 1977, móðir Helga Brynleifsdóttir, f. 4.3. 1956. Hann er kvæntur Ingibjörgu Ösp Magnúsdóttur, f. 3.5. 1979, synir þeirra eru Birkir Snær, f. 4.8. 2003, Magnús Breki, f. 10.6. 2006, og Björn Hlynur, f. 22.8. 2012.
Dætur Björns og Kristínar Rósar eru: Sandra Rós, f. 31.7. 1987, og Birna Karen, f. 22.7. 1990, sambýlismaður Bjarki Hjálmarsson, f. 28.2. 1988.
Fósturdóttir Björns, dóttir Kristínar Rósar af fyrra hjónabandi, er Dagmar, f. 20.9. 1975, faðir Þorsteinn Máni Árnason, f. 17.9. 1949. Maður hennar er Magnús Justin Magnússon, f. 7.2. 1973. Börn þeirra eru: María Rakel, f. 23.7. 1999, Magnús Aron, f. 21.3. 2014, og Daníel Máni, f. 21.3. 2014.
Björn ólst upp í Skagafirði, í Hvammi og Kelduvík á Skaga og síðar í Sólheimum í Blönduhlíð. Hann lauk sveinsprófi í bifvélavirkjun 1974 og fékk meistararéttindi 1977. Björn lauk prófi í rekstrar- og véltæknifræði frá Odense Teknikum í Danmörku 1985. Árið 1989 varð hann eigandi og framkvæmdastjóri Sólóhúsgagna þar sem hann starfaði alla tíð síðan. Björn var mikill talsmaður íslenskrar framleiðslu, hvort sem var í húsgagnasmíði eða öðrum iðnaði. Hugsjón hans var að íslensk hönnun væri framleidd hér á landi til að viðhalda þekkingunni á handverkinu og framleiðslunni.
Útför Björns fer fram frá Áskirkju í dag, 14. október 2019, klukkan 13.

Elsku Bjössi.
Mér finnst þetta allt svo óraunverulegt. Eins og þetta sé draumur ... og ekki góður draumur. Ég vil ekki trúa að þetta sé staðreynd.
Þegar við vorum á spítalanum, og ég vona að þú hafir heyrt í mér, þá sagði ég þér hversu ótrúlega ánægð ég hefði verið að fá þig inn í líf mitt þegar ég var 6 ára. Þú varst svo rólegur og í rauninni fámáll en mér leist svo vel á þig frá fyrstu kynnum. Nánast frá fyrsta degi sem þú fórst að heimsækja okkur mæðgur þá lagaðir þú allt á heimilinu. Ef ofninn var bilaður þá komst þú honum í gang, ef eitthvað var að rafmagni, pípulögnum, bílum, húsgögnum o.s.frv. þá varst þú kominn til að laga það. Enginn tók í rauninni eftir því ... allt í einu var bara búið að laga hlutina, þú bara gekkst í það í rólegheitunum. Þú varst svona maðurinn bakvið tjöldin.
Ég hef lært svo ótrúlega margt af þér í gegnum árin og það voru ófáir klukkutímarnir sem þú sast með mér yfir stærðfræði og alveg magnað hvað þú náðir að útskýra þetta á auðskiljanlegan hátt. Ég hefði örugglega aldrei farið í tæknifræðina nema vegna þín.
Ég byrjaði að vinna í Sólóhúsgögnum, sennilega uppúr fermingu, og í gegnum árin fékk ég að kynnast öllum hliðum fyrirtækisins vegna þess að þú treystir mér. Ég fékk að prófa að vinna á öllum vélum og tækjum bæði í trésmíðinni, bólstruninni og stálsmíðinni. Þú kenndir mér á vélarnar og fylgdist með mér en ég fékk að gera hlutina sjálf. Þegar maður fær uppeldi þar sem fullkomið traust ríkir á getu manns þá er ekki hægt að biðja um meira. Síðan þegar ég er um 17 ára og í Versló þá fékk ég að taka ábyrgð á bókhaldi fyrirtækisins að mestu leyti og fékk að vera með í ákvörðunum um fjárfestingar og fjármögnun. Þetta var svakalegur skóli og ég held að það sé ekki til betri grunnur til að halda áfram út í atvinnulífið.
En þó að við bæði höfum verið algjörlega drifin af vinnu þá kunnum við líka að njóta okkar. Bjössi, þú kunnir svo sannarlega að njóta þín í Kelduvík. Að fara á traktorinn, sækja rekavið í fjöruna, slá grasið og laga húsið. Þú varst ekki einn af þeim geta legið á ströndinni á Spáni í 3 vikur. Þú hefðir dáið úr leiðindum. Þú þurftir alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni ... vera að brasa eitthvað.
Ég man þegar ég var 17 ára og þú hjálpaðir mér að kaupa rauðu Honduna. Það þurfti aðeins að laga hana til að koma henni á götuna. Við vorum nokkur kvöld og helgar inni í bílskúr í því brasi þar sem gírkassinn var tekinn upp og lagaður, beygla rétt og sprautuð, skipt um bremsur og fleira.

Já, það er svo margt sem ég er þakklát fyrir og ég vildi að ég hefði sagt þér það oftar. Ég er þakklát fyrir að hafa eignast stjúpbróður þegar ég var 6 ára og hann 4 ára. Ég viðurkenni að ég var oft pirruð á látunum í honum þegar við vorum krakkar en hann er yndislegur í alla staði og forréttindi að vera hluti af hans lífi og hans fjölskyldu.
Þegar ég var 12 ára fæddist fallegasta barn sem ég hafði séð. Það var hún Sandra. Ég var svo spennt að eignast litla systur. Eins erfið og hún gat stundum verið gat hún alltaf unnið mann með fallega brosinu sínu og smitandi hlátri. Síðan 3 árum seinna kom Birna. Ótrúlega ljúf, falleg og þægileg í alla staði og er enn í dag. Allt í einu var ég orðin hluti af 6 manna fjölskyldu á innan við 10 árum þar sem áður höfðu bara verið við mamma.
Bjössi minn, ég skil ekki af hverju lífið þarf að vera svona ótrúlega ósanngjarnt. Við eigum eftir að ræða svo margt, gera svo margt, byggja, breyta og bæta. Mig vantar að hafa þig til ráðleggingar. Ég er alls ekki tilbúin að kveðja en þessu ræð ég víst ekki.
Ég vona að þú getir fylgst með okkur hvar sem þú ert.
Takk fyrir allt.

Dagmar.