Rannveig Ísfjörð fæddist á Útskálum á Kópaskeri 29. september 1935. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 27. október 2019.
Foreldrar hennar voru Kristín Gunnþóra Haraldsdóttir, f. 20. október 1913, d. 23. nóvember 2004, og Dósóþeus Tímótheusson, f. 9. september 1910, d. 13. mars 2003. Uppeldisfaðir Rannveigar var Hallur Þorsteinsson, f. 15. mars 1911, d. 30. janúar 1998.
Systkini Rannveigar eru: Þorsteinn, f. 1941, d. 14. febrúar 2016, Kristbjörg, f. 1943, Sylvía, f. 1944, tvíburadrengir fæddir andvana 1946, Jóna, f. 1949, Ólöf, f. 1951, Lóa, f. 1953, d. 17. febrúar 2010, og Ásta, f. 1954.
Rannveig giftist Jóni Jónssyni en þau slitu samvistir.
Börn Rannveigar eru: 1) Gunnþóra Hólmfríður, f. 1955, maki Þorkell Ingimarsson, þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn, eitt þeirra er látið. 2) Edda Björk, f. 1958, hún á tvo syni og sex barnabörn. 3) Hallur Ægir, f. 1959, hann á fjögur börn og fimm barnabörn. 4) Kristveig Ósk, f. 1961, maki Oddur Haraldsson, þau eiga eina dóttur. 5) Kristín Rut, f. 1963, maki Agnar Þorláksson, þau eiga tvö börn. 6) Íris, f. 1964, maki Guðmundur Sigurðsson, þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn. 7) Einar Magni, f. 1965, maki Magnea Svava Guðmundsdóttir, þau eiga tvö börn.
Rannveig fluttist með móður sinni og fósturföður að Skinnalóni á Melrakkasléttu árið 1938. Haustið 1947 fluttist fjölskyldan til Raufarhafnar. Rannveig lauk hefðbundinni skólagöngu á Raufarhöfn. Eftir það fór hún í Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal, þar sem hún lauk landsprófi. Síðan lá leið hennar í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Að skólagöngu lokinni gegndi hún ýmsum störfum á Raufarhöfn, meðal annars hjá Kaupfélagi Norður-Þingeyinga, símstöðinni á Raufarhöfn og við síldarsöltun. Árið 1961 fluttist hún til Víkur í Mýrdal með fjölskyldu sína og bjó þar til ársins 1976. Eftir það settist hún að í Reykjavík. Um árabil starfaði hún hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar og síðar hjá Happdrætti SÍBS þar sem hún starfaði allt til ársins 2002 þegar hún fór á eftirlaun. Árið 2007 fluttist Rannveig á Selfoss og bjó þar til dánardags.
Útför Rannveigar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 11. nóvember 2019, klukkan 13.

Elsku amma Lilla, gullkonan í lífinu mínu. Það er ennþá svo óraunverulegt að þú sért ekki með okkur lengur en að missa þig er það erfiðasta sem ég hef þurft að upplifa. Þú varst besta vinkona mín. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á þér að halda og sérstaklega fyrr á árinu þegar ég gekk í gegnum erfitt tímabil þá varst það þú sem stóðst mér næst. Það varst þú sem hjálpaðir mér í gegnum þetta tímabil og ég verð ævinlega þakklát fyrir það. Ég og þú gátum talað saman um allt, þú varst þannig amma. Þú varst svo mikill töffari og ég elskaði það við þig. Þegar ég var yngri fannst mér svo gaman að koma og gista hjá þér. Þegar þú vissir að ég var að koma til þín áttirðu alltaf til kjötbollur í brúnni sósu og kartöflur handa mér en það var uppáhaldsmaturinn minn sem þú gerðir. Þegar ég var hjá þér spiluðum við alltaf mjög mikið og það var svo skemmtilegt. Okkur fannst alltaf svo notalegt að leggjast í rúmið þitt eftir að við borðuðum kvöldmat saman og spjalla um lífið og tilveruna og mögulega bara leggja okkur í smástund en þú sagðir alltaf eigum við ekki bara að leggja okkur aðeins og ég elskaði bara að vera í kósí með ömmu Lillu. Í hvert skipti sem maður kom til þín í heimsókn tókstu alltaf á móti manni með hlýjum örmum, knúsum og kossum. Þú áttir það alltaf til að róta í skápunum þínum og finna eitthvað sem ég gæti mögulega notað og spurðir hvort ég vildi ekki eiga eitthvað frá þér. Þú gafst mér ljósa vestið þitt sem ég elska og nota ótrúlega mikið og mér þykir svo vænt um það. Við Dagmar vorum duglegar að kíkja til þín bara tvær og eyða heilum degi með þér en það voru klárlega með bestu stundum sem ég upplifði með þér. Við keyrðum til þín á Selfoss og keyptum í matinn og elduðum saman heima hjá þér á meðan þú hafðir það notalegt. Í júlí komum við svo aftur og þá borðuðum við saman og höfðum það ótrúlega næs bara við þrjár. Ég man að það var kónguló í loftinu inni í stofu og þú varst algjör hetja og náðir bara í kúst og fjarlægðir hana eins og þér einni var lagið, þú þurftir engan karlmann í það verk. Seinustu skiptin okkar saman eru mér virkilega dýrmæt en annað þeirra var á frænkukvöldinu og svo afmælisdagurinn þinn í september. Ég, mamma og pabbi fórum í Smáralindina áður en við lögðum af stað til þín og ég valdi hálsmen handa þér sem mér fannst vera svo mikið þú og þú varst svo ánægð með það. Við eyddum heilum degi með þér á afmælisdaginn þinn, elduðum kvöldmat handa þér og borðuðum öll saman og höfðum það næs. Þetta er dagur sem ég mun aldrei gleyma. Við kvöddumst svo um kvöldið þegar við vorum að fara og ég kyssti þig, knúsaði og sagðist elska þig. Á þessum tímapunkti hefði mér aldrei dottið það í hug að þetta yrði í síðasta skiptið sem ég væri að knúsa þig amma mín. Ef ég hefði vitað það hefði ég sagt þér milljón sinnum hvað þú skiptir mig miklu máli og hversu mikið ég elskaði þig. Að halda áfram án þín er mér einstaklega erfitt en það er verkefni sem ég þarf að tækla og ég ætla að gera það fyrir þig. Fyrstu jólin án þín verða erfið og öðruvísi. Að koma ekki á Selfoss til þín rétt fyrir jól með jólapakka handa þér og eyða með þér heilum degi eins og ég, mamma og pabbi vorum vön að gera verður skrítið og einmanalegt. Að þú fáir ekki að kynnast börnunum mínum þegar að því kemur er líka tilhugsun sem ég á erfitt með að kyngja því þú varst mér svo mikilvæg. Ég mun segja þeim allar sögurnar af þér og þannig fá þau að kynnast langömmu sinni sem allir elskuðu. Takk elsku amma fyrir að hafa prjónað handa mér ungbarnahúfu. Það er svo dýrmætt að eiga eitthvað eftir þig sem börnin mín munu nota. Takk fyrir að hafa verið besta amma sem nokkur getur ímyndað sér, fyrir að hafa verið alltaf til staðar fyrir mig og ekki síst verið langbesta vinkona mín. Það kemur engin í staðin fyrir þig og það vantar stóran part af mér þegar þú ert ekki hérna lengur. Ég vissi ekki að það væri hægt að sakna einhvers svona mikið eins og ég sakna þín og að finna virkilega til í hjartanu er ólýsanlega vond tilfinning. Það gefur mér þó styrk að hugsa um allar yndislegu minningarnar. Takk elsku besta amma Lilla fyrir allt saman, fyrir að vera amma mín og fyrir að vera gullkona lífs míns. Ég elska þig um ókomna tíð.

Þín ömmustelpa,

Kristín Gunnþóra Oddsdóttir.