Anna Erla Eymundsdóttir fæddist á Seyðisfirði 17.10. 1934. Hún lést á HSN á Siglufirði 9.12. 2019.
Foreldrar Erlu voru Sigurborg Gunnarsdóttir saumakona, f. 9.4. 1906, d. 22.11. 1983, og Eymundur Ingvarsson sjómaður og verkamaður, f. 31.5. 1883, d. 9.6. 1959. Systkini Erlu eru Garðar, Hartmann, Stella og Arabella. Eiginmaður Erlu var Jón Dýrfjörð, f. 16.3. 1931 á Siglufirði, d. þar 14.6. 2019. Börn þeirra eru fimm. 1) Sigfús, f. 2.8. 1952, giftur Önnu Maríu Guðmundsdóttur, dóttir þeirra Anna Kristín, gift Þorleifi Sigurþórssyni, þau eiga tvo drengi. 2) Sólveig, f. 4.7. 1955, d. 2.8. 2013. 3) Helena, f. 20.7. 1960, gift Birni Jónssyni. Börn þeirra: Erla, gift Gauta Þór Grétarssyni, þau eiga fjögur börn. Jón Ingi, giftur Þórgunni Lilju Jóhannesdóttur, þau eiga þrjú börn. Rakel Ósk, sambýlismaður Gísli Sigurðsson. 4) Baldur, f. 5.8. 1962, giftur Bergþóru Þórhallsdóttur. Börn Baldurs með Ástu Hrönn Jónasdóttur, María Rut, gift Halldóri Haukssyni, þau eiga tvær dætur. Friðrik Bragi, sambýliskona Hildur Sigurðardóttir, þau eiga eina dóttur. Kristján Atli, sambýliskona Kristín Björg Emilsdóttir. Börn Bergþóru og fósturbörn Baldurs eru fjögur. Svala, sambýlismaður Páll Pálsson, þau eiga tvær dætur, Gísli Steinar, Telma og Björk, sambýlismaður Magnús Heiðdal. 5) Þórgnýr, f. 16.12. 1967, giftur Aðalheiði Hreiðarsdóttur. Börn þeirra: Styrmir, sambýliskona Alex Steinþórsdóttir, Bjarmi og Embla.
Erla ólst upp á Seyðisfirði, bjó og starfaði þar uns hún flutti með Jóni til Siglufjarðar 1955. Sem barn og unglingur fór hún öll sumur í sveit til ættingja sinna fyrst á Grund í Borgafirði eystra en síðar að Hrolllaugsstöðum á Héraði og vann þar öll sveitastörf. Á Seyðisfirði hóf hún ung störf á elliheimilinu og kynntist þar tengdamóður sinni, Þorfinnu Sigfúsdóttur forstöðumanni og síðar Jóni þegar hann kom austur. Á fyrstu búskaparárunum bjuggu þau í Hlíð hjá afa og ömmu Jóns og tóku uppeldið og húsmóðurstörfin mikinn tíma. Erla og Jón tóku árið 1957 við húsvarðarstöðu við Gagnfræðaskólann til ársins 1962. Erla starfaði sem fiskverkakona í Siglósíld og í Hraðfrystihúsinu Ísafold í fjölda ára. Samhliða sinnti hún einnig bókhaldsvinnu og reikningagerð við vélaverkstæði þeirra hjóna en síðar, þegar fyrirtækið óx og dafnaði og starfsmönnum fjölgaði, varð skrifstofustjórnin þar hennar aðalstarf þar til þau seldu fyrirtækið við starfslok.
Erla var mjög virk í félagslífi Siglfirðinga. Starfaði í Kvennafélaginu Von, var þar formaður og stjórnarmaður. Hún sat í sóknarnefnd, í stjórn Systrafélagsins, starfaði með Slysavarnardeildinni Vörn og Rauða krossfélaginu. Hún var virk í starfi Alþýðuflokksins og sat sem fulltrúi hans í nefndum bæjarins. Síðast en ekki síst voru Erla og Jón ötulir baráttumenn fyrir auknum réttindum fatlaðra og tóku virkan þátt í starfi Þroskahjálpar og gegndu þar ýmsum trúnaðarstörfum.
Jón og Erla voru heiðruð af Sjómannadagsráði fyrir störf sín í þágu sjávarútvegs um áratugaskeið. Þá hefur Rauði krossinn einnig heiðrað þau fyrir störf sín í þágu samtakanna.
Útför Erlu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 21. desember 2019, kl. 14.

Hún sagði við mig að pabbi væri búinn að koma svo oft í heimsókn, stæði ljóslifandi við rúmið og brosti. Hún sagði að þetta færi að styttast þau myndu hittast fyrir jól og núna er kallið komið, hún er komin til pabba réttu hálfu ári eftir að hann kvaddi þessa jarðvist.
Mamma var sannur engill í mannsmynd, blíðari, þolinmóðari og kærleiksríkari manneskju hef ég ekki kynnst um ævina. Minningarnar koma fram, um barnæskuna, unglingsárin og svo fullorðinsárin. Mamma var alltaf með hugann við okkur börnin og það fram á fullorðinsárin, stundum óþarflega áhyggjufull, hvort sem það voru ferðalög eða einhver verkefni sem við vorum að takast á við. Það sagði allt um elsku hennar til okkar. Velferð okkar, maka okkar, barna okkar og barnabarna var henni allt. Mamma fylgdist vel með og vakti yfir okkur, sagði svo að hún hefði fyrir svo mikið að þakka. Þannig var hún mamma.
Þannig var hún þegar hún ákvað að þiggja ekki krabbameinsmeðferð, sagði það væri óþarfi að hafa meira fyrir sér. Þetta væri orðin góð ævi og hún hefði fyrir svo mikið að þakka. Já hún mamma var engri lík.
Í október hittumst við öll á Siglufirði og héldum upp á 85 ára afmæli mömmu og það var góð og gefandi stund og eftir á að hyggja líka falleg kveðjustund því öll vissum við hvert stefndi þó tíminn væri óviss. Nú er stundin komin og þá kemur þessi þörf að taka saman nokkur orð um ævi mömmu.
Mamma ólst upp á Seyðisfirði, bjó og starfaði þar uns hún flutti með pabba til Siglufjarðar 1955. Sem barn og unglingur fór mamma öll sumur í sveit til ættingja sinna, fyrst á Grund í Borgafirði eystra en síðar einnig að Hrolllaugsstöðum á Héraði og vann þar öll hefðbundin sveitastörf. Mamma minnist sumardvalar sinnar í sveitinni með miklum hlýhug og kærleik og greinilegt að hún naut þess mjög. Mikið líf og fjör var á stóra æskuheimilinu á Seyðisfirði og öll þurftu þau að hjálpa til við öll störf á heimilinu. Garðar móðurbróðir sagði mér að þar hefði mamma snemma skarað fram úr. Móðuramma mín Sigurborg var mikil og góð sauma- og handavinnukona sem smitaði fljótt til mömmu og aðstoðaði hún snemma ömmu í þeim störfum. Þetta kom svo heldur betur að gagni þegar þurfti að sauma og prjóna á okkur systkinahópinn seinna meir. Allt lék í höndunum á ömmu Sigurborgu, sagði mamma stolt frá þegar hún lýsti því hvernig amma klippti til allskonar skreytingar úr skrautpappír og braut saman eftir kúnstarinnar reglum. Þessir handavinnueiginleikar skiluðu sér svo sannarlega til mömmu. Þar var hún á heimavelli og hafði mikla unun af handavinnu alla tíð.
Mamma var mikill og góður námsmaður og stóð hugur hennar snemma til þess að læra meira en grunn- og gangfræðaskóla. Steinn Stefánsson skólastjóri á Seyðisfirði sá mikið námsmannsefni í mömmu og hvatti hana til dáða. Aðstæður höguðu því svo að ekki varð að frekara námi að sinni, þótt mamma bætti úr því síðar.
Mamma minntist þess síðar að Steinn skólastjóri hafði fyrir því að banka upp á hjá henni á Siglufirði þegar hann var á leiðinni með strandferðaskipinu frá Reykjavík til Seyðisfjarðar. Hann vildi bara koma við og vita hvernig námsmanninum sínum gengi á Siglufirði. Mömmu var hlýtt til Steins fyrir hvatningarorðin en einnig fyrir að hvetja hana í söngnum í barnakórnum því ekki aðeins var mamma afbragðs námsmaður hún hafði einnig yndislega söngrödd og þær systur léku sér að því að syngja raddað vinsæl dægurlög þess tíma. Áður en varði leiddi söngurinn unglinginn af kommúnistaheimilinu í kirkjukórinn og fann þar sína trúarsannfæringu, sama hvað föðurnum, sem var í framvarðarsveit verkalýðsbaráttunnar og kommúnisti fram í fingurgóma, fannst um það. Mamma sagði að eftir á að hyggja hefði þetta verið sérstakt og einstætt að finna þessa sannfæringu og fylgja henni svo alla tíð síðan, komandi af heimili þar sem kristin fræði voru lítt höfð um hönd.
Á Seyðisfirði fór mamma ung að vinna á elliheimilinu og kynntist þar verðandi tengdamóður sinni, Þorfinnu Sigfúsdóttur forstöðumanni. Árið 1951 var pabbi á leiðinni til Siglufjarðar með strandferðaskipinu af vertíð í Vestmannaeyjum en ákvað að koma við hjá móður sinni. Þar hitti hann mömmu og ástin lét ekki á sér standa. Fyrr en varði kom nýr bæjarbúi í heiminn á Seyðisfirði þegar Sigfús bróðir leit dagsins ljós í ágúst 1952. Á Seyðisfirði bjó svo litla fjölskyldan til ársins 1955, eins og áður segir, þegar þau fluttu til Siglufjarðar þar sem mamma og pabbi áttu heimili sitt æ síðan.
Á fyrstu búskaparárunum á Siglufirði bjuggu mamma og pabbi í kjallaranum í Hlíð hjá langafa og tók uppeldið og húsmóðurstörfin eðlilega mikinn tíma enda fæddist Sólveig þá um sumarið 1955. Mamma sagði frá því hlægjandi að hún hefði fljótt fallið í kramið hjá Fúsa í Hlíð þegar hann áttaði sig á því að hún var ekki aðeins úrvals húsmóðir heldur einnig meira en liðtæk í sveitastörfunum enda var afi Fúsi í Hlíð með bæði hesta og kindur í húsum áfast við húsið heima. Kom þar að góðum notum reynslan úr sveitinni í Borgarfirði Eystra og á Héraði.
Mamma og pabbi tóku árið 1957 við húsvarðarstöðu við Gagnfræðaskólann og gegndu því starfi til ársins 1962. Pabbi samhliða vélvirkjastarfinu, en mamma samhliða húsmóðurstörfunum. Starfinu í gagnfræðaskólanum fylgdi húsvarðaríbúð sem var þægilegt fyrir ungu hjónin. Árið 1962 keyptu þau síðan íbúð á Hólavegi 7. Eins og almennt var á þessum tíma vann mamma í síldinni þegar færi gafst á milli heimilisstarfa og barnauppeldis. Fyrr en varði voru börnin orðin fimm talsins. Helena fæddist 1960, Baldur árið 1962 og Þórgnýr 1967. Árinu eftir fæðingu Þórgnýs höguðu forlögin því þannig til að öll fjölskyldan fluttist á nýjan leik heim í Hlíð þar sem Sigfús afi og langafi var orðinn einn í kotinu. Það kom til góða því langafi eða afi, eins og við krakkarnir kölluðu hann, tók nú að sér að gæta bús og barna þegar mamma gerðist fiskverkakona í Siglósíld og síðar einnig í Hraðfrystihúsinu Ísafold í fjölda ára. Eftir að pabbi stofnaði til reksturs á vélaverkstæðinu árið 1962 fór mamma fljótlega að sinna bókhaldsvinnu og reikningagerð meðfram öðrum störfum. Síðar þegar fyrirtækið óx og dafnaði og starfsmönnum fjölgaði varð skrifstofustjórnin aðalstarf mömmu, allt þar til þau seldu fyrirtækið við starfslok árið 2000.
Að taka við umsjón með bókhaldi og reikningagerð í allstóru fyrirtæki á siglfirskan mælikvarða og jafnvel þó víðar væri leitað var áskorun fyrir mömmu. Þá og lengi síðar kom í ljós einlægur vilji hennar til að mennta sig og takast á við áskoranir. Mamma nýtti sér ýmiss námskeið sem voru í boði og setti ekki fyrir sig að færa sig úr handskrifuðu bókhaldi yfir í tölvuunnið og tölvutækt, þegar sú bylting hóf innreið sína. Endurskoðandinn, hún Gerður sem sá um gerð ársreikninga fyrir vélaverkstæðið hafði á orði að vandfundin væri önnur eins vandvirkni og nákvæmni eins og hjá Erlu í Hlíð. Hún hreinlega varð dolfallin þegar hún skoðaði handfærða bókhaldið og hvatti síðan mömmu til dáða þegar kom að því að færa allt inn í tölvuna og ekki stóð á mömmu. Mamma fór á bókhaldnámskeið, hún fór á tölvunámskeið, hún tókst á við nýja tíma með stæl.
Mamma var mjög virk í félagslífi Siglfirðinga. Starfaði í Kvenfélaginu Von og var þar formaður og stjórnarmaður. Hún sat í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju, í stjórn Systrafélags kirkjunnar, starfaði með Slysavarnardeildinni Vörn og Rauðakrossdeildinni á Siglufirði. Áratugum saman hafði mamma umsjón með minningarkortum kvenfélagsins ásamt nokkrum öðrum lykilfélagskonum. Fyrst var allt handskrifað en seinna tók ritvélin við og krakkarnir á heimilinu virkjaðir til aðstoðar við innsláttinn og útburðinn.
Mamma sagði að hún hefði verið alin upp í kommúnisma enda faðir hennar Eymundur Ingvarsson gallharður kommúnisti og mikilvirkur þátttakandi í verkalýðsbaráttu á Austurlandi. Hún sagðist hafa prófað að fara á fundi hjá kommúnistum á Siglufirði en fann fljótt að hún átti betur samleið með flokki tengdaforeldra sinna og tengdaafa í Hlíð. Kannski var það Fúsa í Hlíð að þakka því hann lét mig alveg finna það að kommúnisminn væri glapræði eitt, hafði mamma á orði. Mamma varð síðar virk í starfi Alþýðuflokksins og sat sem fulltrúi hans í nefndum bæjarins á lista við bæjarstjórnarkosningar og Alþingiskosningar og tók virkan þátt í kosningabaráttu með pabba þegar hann var sem virkastur í starfi flokksins og bæjarfulltrúi hans í tvö kjörtímabil. Talandi um námsviljann. Til að standa sig nú vel í félagsmálavafstrinu þá bókaði mamma sig auðvitað á námskeið í ræðumennsku og fundarstjórn og kom í ljós að hún var eina konan á námskeiðinu innan um karlana, sem glottu þegar Erla í Hlíð mætti á svæðið.
Að eignast fatlað barn er öllum áskorun og þeirri áskorun þegar Sólveig systir kom í heiminn árið 1955 tóku mamma og pabbi af yfirvegun og æðruleysi. Studdu hana með ráðum og dáðum og lögðu mikið á sig til að fá alla þá hjálp sem í boði var og rúmlega það. Segja má að ævi Sólveigar sé sýnisdæmi um þrotlausa baráttu fyrir réttindum fatlaðra og þeirri byltingu sem þar hefur orðið. Þar voru mamma og pabbi betri en enginn og fengu seint og um síðir að njóta þessara miklu breytinga, þegar Sólveig fluttist aftur heim til Siglufjarðar á Sambýlið, sem þau höfðu barist fyrir með oddi og egg. Þau voru virkir þátttakendur í starfi Þroskahjálpar árum saman og gegndu þar ýmsum trúnaðarstörfum.
Mamma var kærleikurinn í sinni víðustu og fallegustu mynd. Hjá mömmu, ömmu og langömmu fundu börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin fyrst og síðast ást, blíðu, kærleik, væntumþykju, umhyggju og þolinmæði. Í uppeldi okkar systkinanna var henni svo einstaklega lagið að láta allt í leiðsögn sinni til okkar vera svo sjálfsagt og eðlilegt. Ég hreinlega man ekki til þess að mamma hafi skipt skapi, alltaf var það blíðan, nærgætnin og kærleikurinn sem réðu för.
Alla tíð var mömmu umhugað um velferð fjölskyldunnar. Hún fylgdist vel með öllum, sendi hlýjar og kærleiksríkar hugsanir og kveðjur. Gladdist óendanlega þegar vel gekk, en hafði áhyggjur í stóru og smáu, oftast óþarflega miklar segjum við börnin og hlægjum við. Hún var endalaust þakklát fyrir barnalán sitt og það hvað öllum gekk vel í verkefnum lífsins. Þá má ekki gleyma því að börn, barnabörn og barnabarnabörn fengu gjarnan að hlýða á þegar mamma fór með ljóð og þulur en ótalmargar þeirra kunni hún utanbókar allt frá því hún hafði lært þær í sveitinni í æsku. Yndislegt að fá að hvíla í ömmu fangi og hlusta á blíða röddinni þegar þulan var þulin. Fortíðin og framtíðin í faðmlagi ömmu og barnanna.
Það var líka yndislegt þegar pabbi færði mömmu iPad-spjaldtölvu úr einni ferðinni inn á Akureyri. Begga tengdadóttir tók hana síðan á spjaldtölvunámskeið og fyrr en varði var mamma á gamals aldri komin á fésbókina og snappið. Fylgdist með barnahjörðinni sinni yfir alnetið og hafði gaman af. Tók myndsímtöl yfir kaffibolla og naut þess greinilega að læra nýja og spennandi hluti. Jú jú ég var búin að sjá þetta í Ipadinum sagði hún gjarnan og brosti þegar maður ætlaði að segja henni fréttir. Já hún var engri lík hún mamma, námsmaður fram á síðustu stund.
Fyrst og síðast voru mamma og pabbi einlægt fjölskyldufólk. Nutu þess að koma börnum sínum á legg og styðja og hvetja til dáða á sinn hógværa hátt. Það var einlæg von þeirra og sýn að þau yrðu gott og heiðarlegt fólk. Þar áttum við svo sannarlega góðar fyrirmyndir.
Í mótbyr og meðbyr sigldu mamma og pabbi fleyi sínu farsællega í einlægri ást og gagnkvæmri virðingu. Kærleikur þeirra í garð okkar barnanna, tengdabarna og síðan barnabarna og barnabarnabarna var einstakur. Skilyrðislaus ást og kærleikur einkenndu pabba og mömmu sem streymdu frá hlýju faðmlagi þeirra.
Í söknuði okkar lifir minningin um kærleiksríka foreldra að eilífu.
Hvíl í friði elsku besta mamma mín.

Baldur.