Vilhjálmur Einarsson fæddist á Hafranesi við Reyðarfjörð 5. júní 1934. Hann lést á Landspítalanum 28. desember 2019.
Vilhjálmur var sonur hjónanna Einars Stefánssonar frá Mýrum í Skriðdal, byggingafulltrúa á Egilsstöðum, og Sigríðar Vilhjálmsdóttur frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði.
Eftirlifandi eiginkona Vilhjálms er Gerður Unndórsdóttir, f. 1.5. 1941. Börn Vilhjálms og Gerðar eru 1) Rúnar, f. 14.12. 1958. Maki: Guðrún Kristjánsdóttir. Börn: a) Kristján, b) Vilhjálmur og c) Þorvaldur. 2) Einar, f. 1.6. 1960. Maki: Halldóra Dröfn Sigurðardóttir. Börn: a) Gerður Rún, b) Vilhjálmur Darri og c) Valdimar Orri. 3) Unnar, f. 28.10. 1961. Maki: Hólmfríður Jóhannsdóttir. Börn: a) Áróra, b) Sigríður Ýr, c) Gerður Kolbrá og d) Hrafnkatla. 4) Garðar, f. 21.9. 1965. Maki: Gestrún Hilmarsdóttir. Börn: a) Hilmar, c) Vilhjálmur Árni og c) Unndór Kristinn. 5) Hjálmar, f. 2.10 1973. Maki: Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir. Börn: a) Elvar Otri, b) Vilhjálmur Yngvi og c) Theodór. 6) Sigmar, f. 3.1. 1977. Börn: a) Einar Karl, b) Vilhjálmur Karl og c) Ingi Karl. Móðir: Bryndís Einarsdóttir. Barnabarnabörnin eru 14. Bræður Vilhjálms eru Stefán, f. 8.8. 1940, og Baldur Kristjánsson, f. 6.3. 1951, uppeldisbróðir.
Vilhjálmur gekk í barnaskólann á Reyðarfirði, farskólann á Völlum, Gagnfræðaskólann á Seyðisfirði og Alþýðuskólann á Eiðum. Að loknu landsprófi frá Eiðum innritaðist Vilhjálmur í Menntaskólann á Akureyri árið 1951 og útskrifaðist sem stúdent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vilhjálmur skólastyrk við Dartmouth-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á listasögu. Þá sótti Vilhjálmur framhaldsnám í uppeldis- og kennslufræði við Gautaborgarháskóla 1974-1975 og 1990-1993.
Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála. Hann var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1957-1958; skólastjóri við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1959 vorönn; kennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, 1959-1960 og kennari við Samvinnuskólann á Bifröst, 1959-1965. Þá var Vilhjálmur skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti á árunum 1965-1979 á miklu blómaskeiði skólans. Loks gegndi Vilhjálmur starfi skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum frá upphafi skólans 1979 til ársins 2001 og vann þar mikið brautryðjendastarf. Frá 2001 var Vilhjálmur um árabil stundakennari við Menntaskólann á Egilsstöðum og árið 2001 stofnaði hann Námshringjaskólann sem var í námskeiðsformi. Vilhjálmur var góður sönglagasmiður og afkastamikill frístundamálari og prýða myndir hans híbýli víða um land. Meðal annarra starfa má nefna að hann stofnaði og rak Íþróttaskóla Höskuldar og Vilhjálms ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara 1960-1972. Var skólinn starfræktur í Mosfellsdal, Varmalandi og Reykholti í Borgarfirði. Vilhjálmur stofnaði bókaforlagið Að austan sem gaf út tvær bækur: Magisterinn og Silfurmaðurinn. Þá var hann annar ritstjóra bókarinnar Skóli fyrir lífið, sem fjallar um seinni tíma sögu og skólalíf í Héraðsskólanum í Reykholti. Vilhjálmur var formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar 1967-1970 og vann meðal annars að því að koma Sumarhátíðinni í Húsafelli á laggirnar. Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar. Meðal annars vann hann til silfurverðlauna fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og var fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Vilhjálmur er handhafi riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.
Útför Vilhjálms fer fram frá Hallgrímskirkju í dag kl. 15.

Óhætt er að segja að faðir minn hafi átt farsæla ævi og komið víða við. Þegar ég minnist hans kemur fyrst upp í hugann fjölþættur áhugi hans á fólki, ekki síst börnum og ungmennum, bæði eigin og annarra. Af orðum hans og verkum mátti glöggt skilja að uppeldi nýrra kynslóða væri mikilvægasta verkefni hvers samfélags. Sjálfur hafði hann alist upp við ástríki foreldra, fyrst á Reyðarfirði og síðar Egilsstöðum, en einnig fengið gott veganesti frá föður- og móðurfólki, bæði á Mýrum í Skriðdal og Seyðisfirði. Ungmennafélagshreyfingin á Austurlandi hafði líka sín mótandi áhrif á barnið og unglinginn ásamt eldri íþróttaköppum úr austfirska frændgarðinum. Íþróttaafrek föður míns tíunda ég ekki hér, enda mikið um þau fjallað annars staðar. Hann ákvað snemma að nýta íþróttaárangur sinn til góðs í starfi með ungu fólki og horfði þá einkum til hins uppeldislega gildis íþróttanna. Við bræður ólumst ekki upp í skugga íþróttaafreka eða frægðar. Afrekin voru í bakgrunni uppeldisins. Ekki var þrýst á neinn á því sviði eða öðrum. Áhersla föður míns var ávallt á að allir hefðu sína hæfileika og að hver og einn þyrfti að finna sína fjöl og fá notið sín í lífinu. Íþróttir væru vettvangur heilbrigðrar mannræktar til líkama og sálar í virðingu iðkenda fyrir sjálfum sér og öðrum. Auðvitað var faðir minn fyrirmynd okkar bræðra á íþróttasviðinu, eins og merkja má, en hann var fyrirmynd á fleiri sviðum, enda áhugamál hans fjölþætt. Æskulýðs- og fræðslumál voru áherslumál hans stærstan hluta ævinnar. Sumarbúðirnar sem hann stofnaði til í samstarfi við Höskuld Goða Karlsson bera gott vitni um skilning hans á gildi íþróttanna í samþættu uppeldisstarfi. Mannræktarhugmyndir föður míns sóttu meðal annars fyrirmynd í lýðskólastarf Norðurlandanna sem hann kynnti sér náið í Danmörku sem ungur kennari í námsleyfi frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Hann hafði síðar einstakt tækifæri til að vinna að þeim hugmyndum sem skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti í miklu uppbyggingarstarfi á blómaskeiði skólans. Þar lagði hann áherslu á að bóknám skipti máli, en það yrði ávallt að skoða í samhengi uppeldis og mótunar manneskjunnar. Nám í skóla þyrfti því að vera heildstætt, en taka jafnframt tillit til hvers og eins. Hann var óhræddur við að feta ótroðnar slóðir í þeim efnum. Í anda uppeldis- og kennslufræðinga samtímans stóð hann meðal annars fyrir umbótum á borð við víxlkennslu, námshringi og jafningjafræðslu. Þegar kom síðar að skólameistarastarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum má segja að stjórnandinn hafi verið kominn í hlutverk sem var heldur fjarlægara nemendum og að nokkru leyti þrengra en í héraðsskólanum. Hér lagði faðir minn þó áherslu á að hugmyndir hans um skólastarf ættu áfram við þótt áhersla á bóknámið væri meiri. Faðir minn gat ekki talist strangur stjórnandi. Hann lagði áherslu á að vera hvetjandi, leiðandi og þjónandi. Hann vissi jafnframt að enginn væri fullkominn og öllum gætu orðið á mistök honum sjálfum sem öðrum. Þegar kom að agamálum nemenda lagði hann áherslu á að komast til botns í vandanum og mæta nemandanum gefa honum tækifæri til að bæta ráð sitt fremur en grípa umsvifalaust til refsinga eða útilokunar. Í þessu sambandi er mér er kunnugt um einstaklinga sem stóðu höllum fæti og misstigu sig á sínum tíma, en eru föður mínum ævinlega þakklátir vegna þess tækifæris sem hann gaf þeim til að bæta ráð sitt.
Um siðferðishugmyndir föður míns er það að segja að þær byggðust á kristnum arfi þjóðarinnar. Hann var að vísu lítt hrifinn af orðastagli um kennisetningar og leyfði sér að líta hina formlegu kirkjustofnun gagnrýnum augum þegar það átti við. Þetta tengdist þeirri almennu afstöðu hans að hvers kyns stofnanavæðingu fylgdi vandi, hvort sem væri í fræðslumálum, heilbrigðismálum, trúmálum eða íþróttamálum. Vandinn væri sá að stofnanirnar færu stundum að lifa eigin lífi og hlutverk innan þeirra að hafa tilgang í sjálfu sér óháð fólkinu sem þeim væri ætlað að þjóna. En kristni arfurinn var augljós í áherslu föður míns á mannhelgi, jafnræði og jöfn tækifæri, og í áherslu hans á að hver og einn skuli leitast við að láta gott af sér leiða.
Ég kveð þig pabbi minn að leiðarlokum með trega en miklu þakklæti fyrir allan stuðninginn, hvatninguna og jákvæðu áhrifin. Það hefur verið afar uppörvandi að sjá og reyna á þessum síðustu dögum hvað þú hefur markað djúp spor og snert við mörgu fólki á öllum aldri með orðum þínum og athöfnum sem íþróttamaður, skólamaður, félagsmálamaður, faðir, tengdafaðir, afi, langafi og manneskja. Guð blessi þig og varðveiti.

Rúnar Vilhjálmsson.

Afi er dáinn. Það er skrýtið að hugsa til þess að fyrir fáum vikum sat ég hjá honum að skrifa niður lögin hans en nú sé hann horfinn.

Það var alltaf gaman að vera með afa og fylgjast með því sem hann var að gera. Það var alltaf eitthvað áhugavert um að vera og ævintýralegt að koma sem barn í hús afa og ömmu í Útgarði 2 á Egilsstöðum sem þau byggðu saman, inni á milli háu trjánna sem þau ræktuðu sjálf, með kjallarann með risastóra heita pottinum beint á álfaklöppinni og hömrunum fyrir ofan húsið.

Afi gaf sig að okkur barnabörnunum og talaði mikið við okkur og lék og söng með okkur og sagði okkur sögur sem hann spann sjálfur. Þegar við vorum hjá honum hafði hann alltaf áhuga á að leyfa okkur að vera með og sýna okkur það sem hann var að gera auk þess að gera með okkur margt skemmtilegt. Ég minnist þess ekki að mér hafi nokkurn tíma leiðst með afa. Allt var skemmtilegt, jafnvel bara að skreppa með honum niður í kaupfélag. Bollurnar sem hann bakaði á morgnana voru líka sérlega ljúffengar.

Hann málaði mikið og þegar ég var í heimsókn á Egilsstöðum var það fastur liður að prófa að mála mynd hjá honum. Hann vildi sýna mér alvörumálaratækni en ekki bara láta mann gera hvað sem er, enda hafði hann sjálfur lært að mála með því að fylgjast með Kjarval þegar hann fór um Austfirði og málaði og einnig við Dartmouth-háskóla. Afi var raunar mjög listfengur og stundaði bæði myndlist og tónlist, en hann spilaði á gítar og samdi mörg lög, oftast við útgefin ljóð sem höfðuðu sérstaklega til hans eftir ýmis ljóðskáld, t.d. Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson eða Stefán frá Hvítadal. Hann var rómantískur í hugsun og hafði smekk fyrir list sem dró fram fegurð náttúrunnar og tilfinningar og kjör mannanna. Hann átti mikið safn af klassískum diskum sem hann hlustaði á og Tsjajkovskí og Schumann voru t.d. í uppáhaldi hjá honum. Hann hafði líka djúpa ást á landinu sínu sem sést bæði í vali hans á myndefni og ljóðunum sem hann samdi lög við.

Hann hreykti sér aldrei af sinni list, dró frekar úr ef honum var hrósað, en ég held að listin hafi fyrir honum átt að vera samofin daglegu lífi og auðga það og hvetja til dáða. Hann flutti lög sín, eða, eins og hann hugsaði það e.t.v. frekar, ljóð skáldanna, við ýmis tækifæri, bæði í litlum heimsóknum og stórum fjölskylduboðum og ættarmótum. Andi skáldsins var þannig fluttur inn í stofuna rétt eins og fjöllin á veggina. Hann var snöggur að grípa gítarinn og syngja eitt lag eða nokkur; það var bara eðlilegur þáttur í því að hittast, en ekki neinn sérstakur konsert. Mörg laga hans eru því þekkt í fjölskyldunni og pabbi hefur oft sungið sum þeirra líka og spilað undir á gítarinn eins og afi, en þó með sínum eigin stílblæ. Amma söng líka stundum með afa, en skemmtilegast þótti mér að heyra þau syngja saman lagið Uppi á brekkubrún við texta sem afi samdi sjálfur. Núna undanfarið hef ég verið að skrá lögin hans afa hjá honum í íbúðinni í Grafarvoginum þar sem afi og amma bjuggu síðasta árið saman, sum kunnugleg, en önnur sem hann hafði sjaldan eða aldrei flutt. Því miður náðum við ekki að klára það mikla verk áður en afi dó, en afi var þó feginn að ná að rifja upp með mér lög sem annars hefðu gleymst.

Við afi gerðum margt saman í gegnum tíðina, sérstaklega þegar ég var hjá afa og ömmu á Egilsstöðum. Við fórum t.d. í gallerí þar sem hann var að sýna myndir, skruppum í sumarbústaðinn sem afi byggði á Skrugguvatni og fórum oft í sund í Egilsstaðalaug, sem er steinsnar frá húsinu í Útgarði, hinum megin við Tjarnarbrautina.

Einhverju sinni fór ég ungur með afa að veiða í Haugatjörnum í Skriðdal. Fiskurinn sem veiddist var oft helst til lítill, en það var nú allt í lagi, því að minnstu fiskana mátti hafa fyrir beitu. Afi skar þá í litla bita sem við kræktum á öngulinn. Þetta gaf kannski eitthvað af sér, en ég hafði einhvern sérlegan áhuga á augunum og þá fundum við út að þau voru ekki sem verst beita. Afi var líka sniðugur og gat bjargað sér með flest og var nýtinn á efni. Sumt fannst mér sniðugt og skemmtilegt, eins og að nota mjólkurfernur sem brenni í arininn heima í Útgarði. Ég var hins vegar mjög efins með matvæli úti á Skrugguvatni sem voru komin langt fram yfir síðasta söludag og enginn vissi hvenær voru opnuð, en afi lét slíkt ekkert á sig fá og virtist ekki hljóta illt af því heldur. Bústaðurinn sjálfur á Skrugguvatni var líka einfaldur í sniðum og byggður fyrir lítið, enda hefur afa sjálfsagt fundist þar engu að síður lúxus hjá því sem var í kofanum hjá Kjarval forðum.

Annað sinn fór ég sem strákur með afa að kaupa bíl, en þá vantaði hann einhvern góðan bíl svona til að snattast út í sveit til viðbótar við Bimmann sem þau amma keyrðu bæði. Við skoðuðum bílasölurnar í Reykjavík og ég fann fyrir hann Mitsubishi L300 sem hafði verið útbúinn sem húsbíll með innréttingum aftur í, mjög spennandi að mér fannst. Afi var efins í fyrstu en sannfærðist þar sem ég sótti málið fast og svo var bíllinn bara keyptur! Þegar ég horfi til baka undrast ég að afi hafi tekið mark á mér eða verið til í að láta á þetta reyna, en það gerði hann, og bíllinn reyndist afar vel og var mikið farið á honum á Skrugguvatn og víðar.

Mér þykir sérstaklega vænt um tímann sem við afi áttum saman í Hveragerði, en þá fór ég einn með honum og gisti með honum þar á meðan hann hélt málverkasýningu í Eden sumarið 1998. Það var dýrmætt að eiga þennan tíma með afa og ég naut þess að vera á þessum yndislega stað með honum. Við sváfum í tjaldvagninum, sem afi hafði notað til að flytja málverkin að heiman. Þegar við lögðum okkur á kvöldin var afi auðvitað tilbúinn með langa loftnetssnúru til að ná heimsfréttunum á stuttbylgjunni, en hann sofnaði gjarnan með fréttir í eyrunum. Hann hafði enda ekki aðeins brennandi áhuga á landsins gagni og nauðsynjum, heldur lét hann allan heiminn sig varða og fylgdist grannt með þróun heimsmálanna og hafði oft áhyggjur af því sem var að gerast í heiminum.

Afi lét sig okkur varða. Honum þótti vænt um fólkið sitt, land sitt og þjóð og heiminn sinn. Hann sýndi það með ástríkri umhyggju fyrir fjölskyldu sinni og ötulu starfi í þágu samfélagsins, sérstaklega menntun og uppbyggingu ungmenna, sem var hans meginstarf og hjartans mál.

Ég hef átt svo margar góðar stundir með afa, einn með honum eða með honum og ömmu, í heimsókn með frændsystkinum mínum hjá þeim og við ýmis tækifæri með fjölskyldunni. Fyrir allar þær yndislegu stundir þakka ég Guði og bið að minning afa vaki meðal okkar sem þekktum hann og barna okkar og að við megum um síðir hitta hann aftur og syngja með honum í eilífðarríkinu:




Nú er hafinn annar óður.

Angar lífsins Berurjóður.

Innra hjá mér æskugróður.

Óði mínum létt um spor.

Ég þakka af hjarta, guð minn góður,

gjafir þínar, sól og vor.

(Stefán frá Hvítadal)





Kristján Rúnarsson