Guðmundur Jóhannesson fæddist í Helguhvammi á Vatnsnesi 4. júní 1934. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga 31. mars 2020.
Foreldrar hans voru Jóhannes Guðmundsson, f. 30. september 1904,  d. 23. maí 1982, og Þorbjörg Marta Baldvinsdóttir, f. 10. nóvember 1897, d. 31. júlí 1980.
Bræður Guðmundar voru Valdimar, f. 7. júní 1933, d. 26. maí 1997, sambýliskona  Guðrún Bjarnadóttir. Eggert, f. 31. ágúst 1939, d. 15. júlí 2014, maki Auður Hauksdóttir. Uppeldissystir hans var Halldóra Kristinsdóttir, f. 9. janúar 1930, d. 31. janúar 2013,  maki Ólafur Þórhallsson.
Guðmundur giftist 29. desember 1962 Helgu Magnúsdóttur frá Vigdísarstöðum. Börn þeirra eru:
1) Elín Kristín, f. 21. ágúst 1963,  maki Ólafur Benediktsson, börn þeirra eru Guðmundur Bjarki, f. 1996, Ásgeir Ómar, f. 2002. og Elín Marta, f. 2002.
2) Þorbjörg Vigdís, f. 24. júlí 1966, sambýlismaður hennar er Sigtryggur Sigurvaldason, dóttir þeirra er Jóhanna Helga, f. 1983.
3) Sigurður Magnús, f. 17. janúar 1973. maki María Inga Hjaltadóttir, börn þeirra eru Telma Rún,  f. 2000, og Hjalti Freyr, f. 2004.
Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum í Helguhvammi og átti þar heima alla ævi. Hann stundaði nám í farskóla sveitarinnar eins og tíðkaðist í þá daga og hann var einnig einn vetur á Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði. Hans aðalstaf var bóndi og Guðmundur vann ýmis störf með búskapnum eins og t.d. á jarðýtum Búnaðarsambands V-Hún. í mörg sumur og var í fjölda ára í sláturvinnu hjá kaupfélaginu og var einnig refaskytta í áratugi og fleira.

Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verða bara nánustu aðstandendur viðstaddir. Hægt er að hafa samband við aðstandendur til að fá aðgang að streymi frá athöfninni, eining verður útvarpað á FM 106.5 á Hvammstanga.


Í dag fer fram frá Hvammstangakirkju útför tengdaföður míns, Guðmundar Jóhannessonar bónda í Helguhvammi. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga að morgni 31. mars sl.
Guðmundur fæddist í Helguhvammi 4. júní 1934 og átti þar heima allt sitt líf.
Helguhvammur, Vatnsnesfjallið, Hvammstangi og nágrenni var hans svæði bæði í leik og starfi.
Að ég best veit vann hann aldrei launaða vinnu utan V-Húnavatnssýslu. Var bóndi, fyrst með foreldrum sínum Þorbjörgu og Jóhannesi og bróður sínum Valdimar og síðar var jörðinni skipt og bjuggu Guðmundur og Helga á öðrum hlutanum og Valdimar og Guðrún á hinum.
Í fyrstu var bústofninn sauðfé og kýr en fljótlega fóru kýrnar og búið með sauðfé eftir það. Hross átti hann alla tíð og marga góða reiðhesta. Var vel ríðandi.
Helguhvammur er í fjallinu fyrir ofan Hvammstanga. Jörðin er stór og mikið og gott beitiland í fjallinu, þar sem féð gengur yfir sumarið. Góðir og öflugir reiðhestar koma að góðum notum í smalamennsku í þannig landi. Guðmundur var gangnastjóri mörg haust í Vatnsnesfjalli.
Réttardagurinn var hátíðisdagur hjá honum. Ég keyrði Guðmund eitt sinn heim úr Hamarsrétt. Guðmundur var kátur enda ástæða til, lömbin komu væn af fjalli, göngur og réttarstörf gengu vel og fleygur við höndina. Við tókum góðan tíma í heimferðina, víða stoppað og spjallað við sveitungana. Hann sagði að ekkert lægi á heim, réttardagurinn væri bara einu sinni á ári.
Eins og áður er getið var Helguhvammur og Vatnsnesfjallið hans svæði. Var grenjaskytta í fjallinu í áratugi. Að loknum sauðburði oftast í byrjun júní hófst grenjavinnslan. Oftar en ekki lá hann á greni einhvers staðar í fjallinu á afmælisdaginn sinn 4. júní. Leið vel í bjartri sumarnóttinni í góðu veðri. En það var ekki alltaf blíðuveður þennan dag. Eitt sinn lágu Guðmundur og Gunnlaugur á Sauðá á greni í Bólinu og lágu í tjaldi sem kom sér vel er það skall á norðaustan blindhríð. Hituðu þeir sér ketilkaffi til hressingar. Ekki beint notalegur afmælisdagur en eftirminnilegur alla tíð.
Eitt sinn fórum við Guðmundur á vélsleða upp á fjall, mikill snjór, afbragðs sleðafæri og gott veður. Fórum upp hjá Káraborginni síðan hjá Hnausunum, yfir Helguhvammsvötnin og stoppuðum svo austur í Grenjadal. Hér undir er greni sagði hann og þarna er annað og benti ... og þarna fann ég eitt sinn kind seint að hausti og á öðrum stað hafði hann elt óþægar kindur margt fyrir löngu. Við keyrðum talsvert um og hann sagði frá ýmsu markverðu sem gerst hafði þetta var hans svæði, hér þekkti hann hverja þúfu og hvern stein.
Ég rúði fyrir hann kindurnar nokkur haust síðustu búskaparárin. Hann var með í húsunum, tók frá ullina og lét í poka. Sat iðulega á garðabandinu á meðan ég tók af ánum og var auðséð að þarna leið honum vel, horfði á ærnar og lét hugann reika.
Eins og fyrr er getið þá fór Guðmundur ekki víða til vinnu. Var í sláturvinnu á hverju hausti lengi. Vann á jarðýtu hjá Búnaðarsambandi V-Hún. sem ungur maður. Fórst hvort tveggja vel úr hendi. Ekki fannst mér hann vera mikill áhugamaður um vélar eða bíla. Átti að sjálfsögðu hvort tveggja í gegnum árin. Fór vel með tæki og var farsæll ökumaður. Var í eðli sínu handlaginn, hnífar bitu alltaf vel hjá honum og var smiður góður.
Hann gaf sig ekki að félagsmálum, var frekar heimakær, las mikið alla tíð og t.d. var hann iðulega búinn að lesa nýjustu jólabækurnar fyrir jól ár hvert. Fór á bókasafnið.
Þau Helga ferðuðust talsvert um landið, tóku sér yfirleitt frí á milli slátta að sumri. Fóru eitt sinn í hópferð til Þýskalands og höfðu bæði gaman af.
Guðmundur og Helga hættu búskap fyrir nokkrum árum og létu búið í hendur Magga og Mæju sem héldu áfram því starfi sem þau höfðu unnið. Það gladdi Guðmund mikið að sjá það gerast.
Helga og hann fluttu þá á efri hæðina, þau rýmdu til fyrir unga fólkið, líkt og foreldrar hans gerðu á sínum tíma. Þar áttu þau góð ár.
Guðmundur fór svo á Sjúkrahúsið á Hvammstanga nú í byrjun árs. Var orðinn þreyttur eftir mikla vinnu, aldurinn farinn að segja til sín. Leið ágætlega og var vel um hann hugsað en hann langaði samt alltaf heim í Helguhvamm.
Honum líkaði illa að fá ekki heimsóknir síðustu vikurnar en aðstæður í þjóðfélaginu buðu ekki upp á það því miður.
Guðmundur bauð starfsfólki góðan dag að morgni 31. mars og sagðist ætla að hvíla sig aðeins lengur ...
Blessuð sé minning Guðmundar Jóhannessonar frá Helguhvammi.

Ólafur Benediktsson.