Nanna Kolbrún Bjarnadóttir húsmóðir fæddist á Árbakka, Eskifirði, 2.9. 1938. Hún lést á umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað 11.4. 2020. Foreldrar hannar voru Bjarni Kristjánsson, sjómaður á Eskifirði, f. 13.2. 1911, d. 23.1. 1998 og eiginkona hans Laufey Sigurðardóttir húsmóðir, f. 23.9. 1914, d. 3.8. 2001.
Nanna Kolbrún var yngst í röð fimm systkina: Elstur var Sigurður, f. 5.8. 1932, d. 14.2. 2005, Svana, f. 8.6. 1934, d. 24.6. 1982, Kristján Ragnar, f. 21.8. 1935 og Nikólína, f. 10.9.1937, d. 27.12. 1986.
Þann 11. maí 1957 giftist Nanna Kolbrún eftirlifandi eiginmanni sínum, Kristni Guðmundssyni, f. 21.9. 1933, húsa- og húsgagnasmíðameistara. Foreldrar hans voru Guðmundur Karl Stefánsson vélstjóri, f. 2.4. 1894, d. 15.6. 1976, og eiginkona hans Jóhanna Kristín Magnúsdóttir húsmóðir, f. 15.3. 1904, d. 8.2. 1996. Börn Kristins og Nönnu Kolbrúnar eru Stefán, kvæntur Helgu Katrínu Leifsdóttur. Dætur þeirra eru tvær. Guðmundur Bjarni, kvæntur Hrafnhildi Gróu Atladóttur, börn þeirra eru fjögur. Jóhann Magnús Kristinsson, kvæntur Margréti Karlsdóttur, þau eiga einn son. Ingibjörg Laufey, börn hennar eru tvö og sambýlismaður er Sigurður Tómas Sigfússon.
Jarðsungið verður frá Eskifjarðarkirkju í kyrrþey í ljósi þjóðfélagsaðstæðna.
Útförinni verður streymt. Þeir sem hyggjast fylgja streyminu, vinsamlegast hafið samband við aðstandendur.

Komið er að kveðjustund og fram í hugann streyma minningar og myndir. Tengdamóðir mín sem ég hef þekkt og umgengist í 38 ár, Nanna Kolbrún Bjarnadóttir eða Nanna, eins og hún var alltaf kölluð, er látin. Andlátið bar fremur brátt að. Heilsu þeirra hjóna hafði hrakað og á innan við viku urðu miklar breytingar. Tengdafaðir minn, Kristinn, fékk pláss á dvalarheimili og Nanna fær niðurstöður úr myndatöku sem hún hafði farið í. Daginn eftir leggst hún inn á umdæmissjúkrahúsið á Norðfirði og fáum dögum síðar er hún látin.
Nanna var listfeng kona. Það kom fram í mörgu sem hún tók sér fyrir hendur, m.a. útsaumi, dúkaprjóni og postulínsmálningu, svo fátt eitt sé nefnt. Matargerð og bakstur af öllu tagi léku einnig í höndum hennar. Ég man svo vel eftir því þegar ég kom í fyrsta sinn á heimili þeirra hjóna, Nönnu og Kidda. Við Jóhann höfðum kynnst nokkru áður og mér var boðið í síðdegiskaffi á sunnudegi. Þegar við komum að útidyrunum voru þær opnaðar og við mér blasti lágvaxin, hnellin kona, kvik í hreyfingum. Hún var klædd gallabuxum og bol og brosti breitt. Hún bauð mig strax velkomna og ég fann að mér leið vel í návist hennar og þeirra hjóna beggja. Ég var svo teymd að kaffiborði í borðstofunni og boðið sæti. Ég settist niður, dáleidd yfir öllu sem ég sá. Ég, aðkomumanneskjan, hafði bara aldrei séð annað eins fínerí nema í fermingarveislum eða í stórafmælum. Á borðinu var kaffibrauð af öllum gerðum og tegundum og allt sem ég smakkaði var afskaplega bragðgott. Þannig var maturinn hennar líka. Það var einhvern veginn alveg sama hvað hún bakaði eða eldaði, allt var bragðgott. Svona hefur þetta alltaf verið. Þegar gesti bar að garði fór Nanna í búrið og kom þaðan út með kræsingarnar. Yfirleitt mátti telja 8-10 sortir á kaffiborðinu.
Brynjar, sonur okkar hjóna, hafði dálæti á kanilsnúðunum sem amma hans bakaði alltaf. Fárra ára hafði hann hug á því að sem flestir fengju að njóta ömmusnúðanna og stakk upp á því við ömmu sína að hún opnaði bakarí. Hann var viss um að amma myndi selja mikið af snúðum og var meira að segja búinn að koma auga á húsnæði fyrir hana á staðnum sem hann kynnti henni. Þetta fannst ömmu sniðugt og tók bakarísumræðunni sem miklu hrósi.
Þó við fjölskyldan byggjum fyrir sunnan hafa samskiptin alltaf verið mikil. Fyrir utan hefðbundna vikudvöl á hverju sumri á Eskifirði og seinni árin til að aðstoða við viðhald á húsi og garði, var samband í gegnum Skype oft í viku. Hin síðari ár færðum við okkur nefnilega bæði Skype og Snapchat í nyt. Nanna talaði oft um það hve frábært henni fyndist að geta talað við sitt fólk í gegnum Skype, þá sæi hún okkur nefnilega í mynd. Hún kunni líka að taka á móti snappi og var mjög ánægð þegar hún fékk þannig sendingu héðan og það frá afkomendum og öðrum skyldmennum. Þá gat hún fylgst með sínu fólki, hvar sem það var og séð heiminn í leiðinni, eins og hún sagði. Þegar við hjónin höfum verið í sumarbústaðnum, eða á ferðalögum erlendis, hefur það alltaf verð ofarlega á dagskránni að senda Nönnu snapp. Við vissum að það gladdi og var svo vel þegið.
Í mörg ár, meðan heilsan leyfði, komu þau hjónin á hverju sumri keyrandi suður til barna sinna sem þar búa. Eitt sumarið höfðu tveir ungir sonarsynir fengið að dvelja hjá afa og ömmu um tíma og komu með þeim keyrandi suður til foreldranna. Annar var Brynjar sonur okkar hjóna. Þegar rennt var í hlað heima hjá okkur komu allir brosandi út úr bílnum. Ýmislegt skemmtilegt hafði verið gert leiðinni. Það var m.a. stoppað í öllum sjoppum til að leita að Olla-bókinni, sem síðan fannst í þeirri síðustu. Þá var okkur sögð sagan af því þegar amma hafði keypt einnota myndavélar, sína handa hvorum strák og sonur okkar ætlaði að taka mynd af fjalli þegar stoppað var. Honum þótti amma eitthvað fyrirferðarmikil og sagði við hana: Amma, þú stendur fyrir fjallinu. Þetta var brandari ferðarinnar og hann fengum við oft að heyra.
Að eigin sögn hafði Nanna ekki sérstaka þörf fyrir ferðalög. Henni fannst alltaf best að vera í örygginu í firðinum heima og henni var ekki vel við það þegar við vorum einhvers staðar á ferðinni. Þó komu þau hjónin tvisvar í heimsókn til okkar Jóhanns til Danmerkur, þar sem við bjuggum um nokkurra ára skeið vegna framhaldsnáms hans. Í bæði skiptin voru það vel heppnaðar ferðir og frá þeim tíma eigum við margar góðar minningar.
Nanna hafði gaman af spilamennsku og hún sótti spilakvöld hjá Félagi eldri borgara á Eskifirði. Þá var hún áhugamanneskja um handbolta og fylgdist með landsliðinu spila þegar leikir voru sýndir í sjónvarpinu.
Eftir því sem árin liðu, ég fullorðnaðist og við Nanna kynntumst betur áttaði ég mig á því að þar fór kona sem ekki lá á skoðunum sínum og talaði hreina íslensku ef svo bar undir. Við gátum ekki alltaf verið sammála, en aldrei bar skugga á okkar samskipti.
Tengdamóðir mín bar hag barna sinna og fjölskyldna þeirra fyrir brjósti og hún vildi alltaf vita hvernig lífið og tilveran gengi hjá fólkinu sínu. Þannig minnumst við fjölskyldan hennar og ég trúi því að hún fylgist með okkur áfram.

Er sárasta sorg okkur mætir
og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.

(Höf.: H.J.H.)


Blessuð sé minning látinnar tengdamóður.

Hvíl í friði.

Margrét Karlsdóttir.