Guðný Halldórsdóttir fæddist á Gunnarsstöðum í Þistilfirði 2. mars 1930. Hún lést á Öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 28. apríl 2020.
Hún var fjórða í röð sex barna hjónanna Halldórs Ólasonar og Þuríðar Árnadóttur. Eftirlifandi eru Halldóra, f. 13. febrúar 1928, og Brynhildur, f. 20. ágúst 1936. Látin eru: Arnbjörg, f. 4. febrúar 1922, Óli, f. 1. ágúst 1923, Árni, f. 21. júlí 1925, og Gunnar, f. 15. febrúar 1933.
Guðný giftist 28. apríl 1951 Snæbirni Péturssyni, f. 31. ágúst 1928. Hann er sonur hjónanna Péturs Jónssonar og Þuríðar Gísladóttur í Reynihlíð. Börn Snæbjarnar og Guðnýjar eru: 1) Þuríður, f. 1951, gift Agli Steingrímssyni, f. 1949, og eiga þau þrjú börn, Braga Val, Arnar og Þorgerði, og sjö barnabörn. 2) Þórunn, f. 1953, og á hún eina dóttur, Margréti Hróarsdóttur, og tvö barnabörn. 3) Pétur, f. 1959, fyrri kona hans er María Rúriksdóttir, f. 1958, eiga þau tvær dætur, Þuríði og Ástríði. Pétur er kvæntur Ernu Þórarinsdóttur, f. 1959, og á hún tvær dætur, Anítu og Katrínu. Pétur á fjögur barnabörn. 4) Halldór, f. 1966, kvæntur Gróu Björk Jóhannesdóttur, f. 1969, og eiga þau tvö börn, Ármann Óla og Guðnýju. 5) Bryndís, f. 1968, gift Hirti Jónssyni, f. 1967, og eiga þau þrjú börn, Jón Halldór, Snædísi Rán og Áslaugu Ýri.
Guðný og Snæbjörn stofnuðu heimili í Reynihlíð í Mývatnssveit og bjuggu þar og störfuðu til hausts 2016 er þau fluttu á Öldrunarheimilið Hlíð á Akureyri.
Guðný verður jarðsungin frá Reykjahlíðarkirkju í dag, 9. maí 2020, klukkan 15. Streymt verður frá athöfninni á YouTube. Stytt slóð á streymið: https://n9.cl/dzh2.

Slóðina má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.

Amma mín, Guðný Halldórsdóttir í Reynihlíð, lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 28. apríl síðastliðinn í nærveru aðstandenda, umvafin kærleik og væntumþykju. Einmitt með þeim tilfinningum finnst mér viðeigandi að minnast hennar sjálfrar. Mínar fyrstu minningar um ömmu eru allar á einhvern hátt litaðar af þessum tilfinningum, oftast nær í Reynihlíð við eldavélarhelluna. Þá gjarnan að steikja grautarlummur sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér eða úti í hóteli að steikja kleinur. Amma var sérstaklega næm á það sem okkur barnabörnunum þótti gott að borða og naut þess að gera sér og okkur dagamun þegar við vorum í heimsókn og á meðan hún hafði enn getu til. Jafnvel þegar getuna þraut var hugurinn sá sami, en þá var afi einfaldlega fenginn í hin ýmsu verk í okkar þágu. Það held ég að vísu að honum hafi ekki þótt sérstaklega mikil kvöð heldur. Þegar ég lít til baka og rifja upp allar þær góðu minningar sem ég tengi við ömmu þá stendur í raun engin ein minning ofar öðrum. Ég velti lengi fyrir mér hverju það sætti en áttaði mig fljótt á því að það voru ekki atburðirnir eða minningarnar sem slíkar sem stóðu upp úr heldur tilfinningin sem fylgdi þeim öllum. Tilfinning sem er erfitt að lýsa, ef til vill vegna þess að það var sú tilfinning sem gerði ömmu alveg einstaka fyrir mér. Ég hef grun um að þetta hafi verið tilfinning sem hvorki ég né aðrir í fjölskyldunni vorum ein um að upplifa í kringum ömmu enda fannst mér hún hafa þessi áhrif á allt fólk í kringum sig, hvort sem það var einungis gestkomandi í stutta stund eða umgekkst ömmu árum saman. Hún gerði sér líka far um að kynnast fólki, hafði áhuga á því og vildi umfram allt að öllum í kringum hana liði vel.


Út í hótel kíkti hún líka reglulega til að hitta starfsfólkið, kanna aðstæður og gæta þess að allt færi vel fram. Passaði t.d. upp á að nýi kokkurinn væri örugglega enginn vitleysingur og að það væri örugglega til nóg af rúgbrauði fyrir hótelið og Gamla bæinn. Ef henni fannst eitthvað ekki í lagi þá var hún alveg ófeimin við að láta menn vita af því, en aldrei þó með neikvæðum formerkjum eða af ónærgætni. Það var líka mín upplifun að öll þau sumur sem ég dvaldi í Reynihlíð hafi amma náð að tengjast flestu því fólki sem kom í sveitina til þess að vinna á hótelinu. Þar gilti einu hvort um var að ræða ungt fólk eða það eldra, erlenda starfsmenn sem sumir skildu ömmu takmarkað eða þá sem voru upprunalega úr sveitinni. Henni var einhvern veginn umhugað um allt og alla að manni fannst og það hefur maður líka fengið að heyra gegnum tíðina frá mörgum þeim sem dvöldu í Mývatnssveit og fengu að kynnast henni. Bæði frá fólki sem var þar löngu áður en ég fæddist og svo þeim sem voru þar um svipað leyti og ég sjálfur. Amma mín í sveitinni er eitthvað sem ég hef heyrt starfsfólk á hótelinu, í fyrri og seinni tíð, kalla hana ömmu, sem lýsir kannski vel þeirri manneskju sem amma var. Ekkert og enginn á staðnum var henni óviðkomandi en aftur á móti fann maður líka að það var alltaf velvild og hugulsemi sem lá þar að baki og engan mátti skilja útundan eða utangátta. Síðustu árin mín með ömmu hafa mér fundist endurspegla þessi persónueinkenni hennar vel. Hún fór í gegnum margar veikindalotur sem manni fannst óhugsandi að hún lifði af en alltaf náði hún að hrista það af sér, oftar en ekki með ótrúlegri seiglu og húmorinn að vopni, og á erfiðustu augnablikunum þegar hún átti stundum bágt með að greina á milli draums og veruleika, þá var hennar draumheimur alltaf uppfullur af vinskap, kærleik og góðu fólki. Alveg eins og hún hafði lifað og eins og hún svo á endanum kvaddi þennan heim.

Fyrir mér hefur amma alltaf verið þessi félagsvera og þó að óneitanlega hafi verið viðbrigði að flytja úr sveitinni yfir á Hlíð þá hélt amma í þann þátt og náði þannig að njóta þess tíma á æviskeiðinu eins og henni var framast unnt. Minningar mínar frá þessum tíma eru um margt ólíkar minningunum úr Reynihlíð en það var hins vegar alltaf sama dýrmæta tilfinningin sem litaði samskipti okkar. Tilfinning og nærvera sem gaf mér ekkert minna en mín nærvera gaf ömmu. Tilfinning sem ég mun geyma með mér á meðan ég lifi.

Jón Halldór Hjartarson