Kristinn Matthías Kjartansson fæddist 28. nóvember 1942 í Þórisholti í Mýrdal. Hann lést 14. maí 2020 á Lsp. Hringbraut.
Foreldrar hans voru Þorgerður Einarsdóttir, f. 28.3. 1901, d. 7.1. 2003, og Kjartan Einarsson, f. 27.8. 1893, d. 28.7. 1970.
Systkini hans: Borghildur, f. 23.9. 1922, d. 2.8. 2012, Einar Sigurður, f. 3.3. 1925, d. 18.12. 1970, Ingveldur Guðríður, f. 2.8. 1929, d. 9.9. 1999, Einar, f. 3.12. 1930, d. 24.12. 2019, Sigurgeir, f. 7.3. 1938, Kjartan, f. 1.11. 1944.
Kristinn kvæntist 10.6. 1965 eftirlifandi eiginkonu sinni Guðrúnu Helgadóttur (Gullu), fv. bankamanni, f. í Reykjavík 20.4. 1945. Móðir hennar er Sigríður Skúladóttir, f. 25.6. 1918, í Mörtungu. Börn Kristins og Guðrúnar eru: 1) Steinar Þór, f. 28.2. 1966, maki Sigrún Stefánsdóttir, f. 18.2. 1965, börn þeirra; a) Stefán Kristinn, f. 7.6. 1997, b) Guðrún Katrín, f. 29.12. 1999, c) Hlynur Kári, f. 14.6. 2002, og fyrir átti Steinar d) Heklu Karen, f. 15.2. 1992, maki Hilmir Hjaltason, f. 16.3. 1984, börn þeirra; Móeiður Una, f. 22.1. 2015, og Hjalti Steinn, f. 22.1. 2017. 2) Sigríður, f. 11.8. 1968, maki Halldór Bárðarson, f. 3.9. 1966, börn þeirra; a) Arnar Ingi, f. 12.4. 1993, sambýliskona Margrét Kristín Waage Björnsdóttir, f. 9.8. 1996, b) Linda Björk, f. 12.8. 1997. 3) Kristín Björg, f. 19.8. 1974, maki David Hedin, dóttir þeirra; a) Anna Bríet, f. 19.6. 2002, fyrir átti Kristín, b) Helgu Rún Sigurðardóttur, f. 24.1. 1997, hún á tvo syni Adriel Mána, f. 27.11. 2017, og Atlas Örn, f. 26.1. 2019, barnsfaðir Karel Atli Ólafsson.
Menntun og störf: Loftskeytapróf 1961, símritara- og yfirsímritarapróf 1970, Loran-C tæknipróf hjá bandarísku strandgæslunni 1971. Loftskeytamaður á Raufarhöfn 1961-1962, loftskeytamaður á skipum Eimskipafélagsins 1962-1967, loftskeytastöðinni í Gufunesi 1967-1970, loftskeytastöðinni í Gufuskálum 1970-1973, Skýrr 1973-1980, IBM/Nýherji 1980-1997, Hugvit 1997-2017. Um árabil var hann félagi í Lionsklúbbnum Tý, söng með Rarikkórnum, kirkjukór Seljakirkju og söngfélagi Skaftfellinga.
Útför Kristins fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 25. maí 2020, klukkan 13.
Streymt verður frá útförinni á https://www.sonik.is/bustadakirkja og facebook-síðu Kristins.
Slóðina má nálgast á www.mbl.is/andlat
sonik.is/bustadakirkja

Pabbi fæddist og ólst upp í Þórisholti í Mýrdal, þar er sveitin römmuð inn af fjöllum, jökli og sjó. Hann var næstyngstur af sjö systkinum, lifandi eru Sigurgeir og Kjartan. Systkinin héldu þétt hvert um annað og var afar kært þeirra á milli, það var gott að alast upp með þennan góða hóp allt í kring um sig. Að alast upp í sveit eru mikil forréttindi og ég held að það móti fólk á annan hátt og gefi því víðari sýn á lífið.
Ungur fór pabbi að bera út póst í sveitinni og þurfti þá að ganga yfir Reynisfjall til að sækja póstinn og aftur til baka áður en hann bar póstinn á bæina. Þetta þótti bara eðlilegt á þeim tíma.
Pabbi fór í Loftskeytaskólann og sigldi um heimsins höf með Kötlunni og fleiri skipum Eimskipafélagsins. Hann notaði dauðan tíma gjarnan til að læra tungumál og lagði metnað í að geta bjargað sér þegar lagt var að bryggju. Hann fór víða og átti peninga frá mörgum löndum og ég minnist þess svo vel að sitja með með pabba og skoða þessa framandi peninga og hlusta á sögur sem tengdust þessum löndum. Við fluttum til Reykjavíkur þegar ég var 5 ára og pabbi byrjaði í tölvubransanum hjá Skýrr, þar sem eina tölva landsins var staðsett og tók hún heilt herbergi en afkastaði samt minna en síminn okkar gerir í dag. Seinna fór hann til IBM/Nýherja og þaðan til Hugvits þar sem hann vann til 75 ára aldurs. Hann var því einn af fyrstu tölvunar/kerfis fræðingum landsins. Það kom tölva á okkar heimili langt á undan því sem almennt var og nokkrum árum síðar þegar ég fór í fyrsta tölvuáfangann í Fjölbraut Breiðholti þá kenndi pabbi mér námsefnið heima og ég leiðbeindi svo kennaranum sem hafði engan veginn náð tökum á þessu framandi námsefni.
Tónlist spilaði stóran þátt í lífi pabba, hann lærði aðeins á orgel og seinna fékk hann sér harmónikkur sem fylgdu honum oft á ferðalögum um landið og á mannamót.
Greiðvikinn og þolinmóður var hann, kominn af þeirri kynslóð sem nýtti hlutina og henti aldrei reipi eða snærisspotta því hann vissi að þörfin fyrir spottann kæmi fyrr en síðar. Laghentur með eindæmum og gat bjargað sér við flest verk, hafði næmt smiðsauga og þolinmæði til að leiðbeina öðrum. Þegar ég var ung þá leiðbeindi hann mér við boddy-viðgerðir á bílnum mínum og að lokum varð viðgerðin svo fín að atvinnumaður hefði mátt vera stoltur af.
Ferðalög innanlands og utan skipuðu stóran sess í lífi foreldra minna, þau voru líklega aldrei samhentari en þegar í vagninn var komið. Þar á hver hlutur sinn stað og öllu haganlega fyrir komið. Líklega hefur það sjaldan brugðist, ef einhvern vanhagar um hlut á ferðalagi þá voru þau með hann, hvort sem það er hamar, skrúfa, handþeytari eða reipi.
Mýrdalurinn stóð pabba alltaf næst og þar reistu systkini hans sér fjölskyldubústað svo fjölskyldan gæti ræktað frændgarðinn og drukkið í sig fegurð sveitarinnar.
Í Smárahlíð leið pabba einnig alltaf vel, en það er sveitasetur okkar hjóna, þar hafa pabbi og mamma dvalið ófáa dagana og hjálpað til við uppbyggingu og viðhald, enda fékk pabbi fljótt viðurnefnið staðarhaldarinn. Hann var oftar en ekki mættur fyrstur og búinn að slá og raka áður en aðrir mættu á staðinn. Vinir mínir þekkja flest öll pabba og mömmu því þau hafa alltaf staðið okkur nærri og verið dugleg að taka þátt í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Það eru ófáar útilegusamkomurnar í Smárahlíð og víðar þar sem margt er brallað, safnað í brennu og harmónikkan handleikin af snilld. Á þessum stundum var pabbi ekki bara afi minna barna heldur allra barnanna og fékk titilinn útileguafi.
Pabbi var heilsuhraustur lengst af, en fyrir tveimur árum fór ellihvítblæði að hrjá hann og eftir meðferð við því náði hann aldrei náð fullum bata, hann var orkulaus og þurfti reglulega að fá blóðgjafir og ónæmiskerfið var laskað. Engu að síður naut hann þess sem lífið hafði upp á að bjóða og sagðist ávallt vera verkjalaus en orkuleysi væri eina vandamálið.
Pabbi náði tveimur helgum í hjólhýsinu þetta vorið, fyrri helgina veitti hann okkur ráðgjöf (eins og hann orðaði það) við vagnaúttekt og seinni helgina fylgdist hann með pallasmíði og fór ekki inn að hvíla sig fyrr en hann sá að búið væri að stilla af undirstöðurnar. Næsta dag lagðist hann inn á Landspítalann þar sem hann kvaddi þetta líf fjórum dögum síðar á rólegan og yfirvegaðan hátt, eins og honum einum var lagið.
Að lokum vil ég hvetja samferðafólk pabba til að fara inn á Flickr síðu hans og fletta myndum sem hann hefur verið svo duglegur að deila með okkur.



Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)




Sigríður Kristinsdóttir.