Lúðvík Lúðvíksson fæddist í Reykjavík 14. janúar 1972. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 22. maí 2020.


Foreldrar hans eru hjónin Lúðvík Lúðvíksson, f. 6. mars 1943, og Steinunn Jóna Kristófersdóttir, f. 16.júli 1945.


Systkini Lúðvíks eru: Valgarður Viðar, f. 30. maí 1964, kona hans var Bergþóra Jóna Steingrímsdóttir og eiga þau þrjú börn, Steingrím Jón, Vöku Hildi og Valdísi Jónu, og níu barnabörn. Eru þau skilin. Núverandi eiginkona hans er Berit Willysdóttir Eide og á hún einn son, Amadeus; Guðmunda Arna, f. 7. nóvember 1969, og á hún tvö börn, Albert Þór og Elínu Freyju; Guðbrandur Elí, f. 20. febrúar 1979. Sambýliskona hans var Fouzia og eiga þau einn son, Elías Elí. Þau eru skilin. Núverandi sambýliskona hans er Fatima Fahmi og eiga þau tvö börn, Steinunni Íman og Lúðvík Karam.


Hinn 9. júli 2005 giftist Lúðvík eftirlifandi eiginkonu sinni, Pálu Kristínu Bergsveinsdóttur, f. 6. des. 1974. Foreldrar hennar eru Sigurlaug Pálsdóttir, f. 14. febrúar 1952, og Bergsveinn Þorkelsson, f. 23. júni 1952. Eiginkona hans er Sigríður Jónatansdóttir, f. 3. apríl 1948. Systir Pálu Kristínar samfeðra er Lea Valdís, f. 29. janúar 1982, og á hún þrjú börn.

Synir Lúðvíks og Pálu Kristínar eru: Ívar Örn, f. 1. maí 2003, og Kristófer Páll, f. 10. apríl 2008.


Lúðvík ólst upp í Breiðholti, fyrst í Neðra-Breiðholti (Bakkahverfi) en síðar Seljahverfi. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbraut í Breiðholti árið 1992 og lögfræðinámi frá Háskóla Íslands árið 1999. Sama ár hóf hann störf hjá Ríkisskattstjóra. Árið 2011 tók fjölskyldan sig upp og flutti til Lundar í Svíþjóð þar sem Lúðvík stundaði nám í evrópskum og alþjóðlegum skattarétti. Er heim kom hélt hann áfram starfi sínu hjá Ríkisskattstjóra til ársins 2015 þegar hann lét af störfum vegna vanheilsu.


Lúðvík var mikill áhugamaður um stangveiðar og fluguhnýtingar. Hann var ákafur unnandi knattspyrnu og Liverpool átti hug hans allan, en einnig var hann sannur ÍR-ingur. Lúðvík átti við erfið veikindi að stríða allt sitt líf en hann kvartaði aldrei og lét þau aldrei stöðva sig í neinu.


Útför Lúðvíks fer fram frá Seljakirkju í dag, fimmtudaginn 4. júní, klukkan 13.

Við okkur blasti hvít jörð þegar við vöknuðum snemma morguns í Mývatnssveitinni í byrjun júní seint á síðustu öld. Það var eins og norðanáttin hefði gefið náttúrunni á kjaftinn því hvorki heyrðist í fugli né flugu. Þau fáu blóm sem höfðu haft hugrekki til að springa út lutu höfði og biðu betri tíma. Það hafði kyngt svo niður í Víkurskarðinu að það var orðið kolófært. Hvernig áttum við að komast heim. Þetta var síðasti dagurinn í veiðiferðinni og við áttum frábært veiðisvæði, það var ekki hægt að sleppa því. Pabbi hans Lúlla, sem réði för, stakk upp á því að við myndum stytta okkur leið á svæðið með því að vaða Brotaflóann. Við Lúlli vorum ungir.
Þegar við nálguðumst Brotaflóann, áttuðum við Lúlli okkur á því að þetta var enginn venjulegur flói. Áin kom öskrandi á harðaspretti og breiddi svo úr sér og gerði sig mikla. Flóinn var ófær í minningunni og það var greinilegt að hann var straumþungur á köflum því straumrastirnar voru vel sjáanlegar. Þær fáu endur sem höfðu treyst sér út á ána skoppuðu eins og korktappar á yfirborðinu, stjórnlausar. Ekki bætti úr skák að norðangarrinn hafði blásið lífi í risavaxnar brimöldur sem dönsuðu tryllingslega um allan flóann og mér fannst eins og þær væru að kalla á okkur, ögra okkur til að vaða út í. Mér fannst óvissan of mikil, áhætta, en Lúlli stappaði í mig stálinu. Við sigum ofaní seigt jökulkalt vatnið og byrjuðum að vaða. Sem einn maður, hendur yfir axlir hins. Stóðum saman. Áin lét okkur finna fyrir því, hún ólmaðist og hamaðist við að sökkva okkur. Mér leist ekki á blikuna og ég viðurkenni alveg að ég var hræddur og þá varð mér litið á Lúlla. Hann var skælbrosandi, áhyggjulaus. Sama brosið og ég hafði séð svo oft áður, sama brosið og hafði mætt mér þegar við hittumst í fyrsta skipti á fluguhnýtingarnámskeiði í Seljaskóla. Sama brosið og í síðasta skipti sem við hittumst.
Ég hugsaði með mér, er hann svona fífldjarfur eða er hann svona hugrakkur. Við komumst svo að lokum yfir ána og byrjuðum að veiða. Hann var vanafastur og notaði sökktaum og yfirleitt sömu fluguna. Gulrössu. En hann var líka iðinn, vinnusamur og hugmyndaríkur. Og þrjóskari en andskotinn. Það skilaði honum góðum árangri og hann veiddi marga fiska.
Nú í seinni tíð hef ég oft hugsað til þessarar veiðiferðar. Með dýpri þroska og reynslu hef ég áttað mig á því að í þessari ferð birtust margir af hans helstu mannkostum. Hugrekki, jákvæðni, þrautseigja, vinnusemi, hugmyndauðgi, trygglyndi. Eina stílbrotið var að stytta sér leið yfir ána. Í lífinu valdi hann aldrei þá leið þó hann hefði átt þess kost. Og í dag veit ég það fyrir víst að hann var ekki fífldjarfur.
Eftir veiðiferðina tók lífið við. Sólin brosti til okkar. Allt var bjart og tært. Framundan var beinn og breiður vegur og hann gengum við Lúlli báðir. Hann stútfullur af hæfileikum, kláraði lögfræðina, eignaðist fallega fjölskyldu og fékk krefjandi vinnu. Síðar fór Lúlli með fjölskyldunni, Pálu, Ívari og Kristófer, til Svíþjóðar í framhaldsnám. Sjálfur fór ég til Ameríku í nám og flutti svo norður í land. Þótt sambandið væri stopult á þessu tímabili þá leið mér, í hvert skipti sem við hittumst, eins og við værum staddir í hornherberginu hans Lúlla í Holtaseli á unglingsárunum að spila Bubba í fermingargræjunum hans eða að spila Risk.
Lúlli var eins og harður diskur, hann mundi allt. Hann hafði sérstaklega gaman af því að rifja upp gamla tíma þegar við vorum yngri og vitlausari, t.d. þegar við fórum á skólaball í FB og drukkum fyrir ball sjóðandi heitan Lowenbrau sem hafði verið geymdur undir miðstöðinni í bílnum. Þau mistök gerðum við bara einu sinni.
Lúlli átti eftir að koma að mörgum farartálmum á sinni lífsleið og ávallt náði hann að komast áfram með jákvæðnina, hugrekkið og baráttuviljann að vopni. Brotaflóinn í den var víst bara æfing og ég held að Lúlli hafi vitað það.
Hann var orðinn móður undir lokin en viljinn var alltaf sterkur. Það var alltaf gott að hitta hann.
Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Lúlla. Hann var sannarlega einstakur maður. Minningarnar um tímann sem við áttum saman munu lifa um ókominn tíma.
Pálu, Ívari og Kristófer og fjölskyldu Lúlla votta ég mína innilegustu samúð.
Án dyggðar en engin vinátta. Marcus Tullius Cicero.

Ásgeir Már Ásgeirsson.