Hjördís Hafsteinsdóttir fæddist í Reykjavík þann 15. nóvember 1952.
Hún lést á Líknardeild LSH í Kópavogi miðvikudaginn 24. júní sl. Eftir skammvinn veikindi.
Foreldrar hennar eru Hafsteinn Hjartarson Lögreglumaður, f.05.09 1908, d. 1993 og Jórunn Sigríður Sveinbjörnsdóttir, f.25.mars 1925. Hún átti eina systur Hildu Hafsteinsdóttur f.1949, d. 2013.  Hálfbróðir samfeðra var Tómas Reynir Hafsteinsson f.1935, d.2016.
Maki Hjördísar var Magnús Ingvar Ágústsson f. 13.06.1953 d. 04.03.2012 Hjördís átti eina stúlku af fyrra sambandi, Kristín Björk Leifsdóttir f. 1971
Börn Hjördísar og Magnúsar eru, 1) Berglind, f. 1. október 1972, maki Heimir Jónasson f. 13. apríl 1966, d. 28.03.2020 . Börn þeirra eru Markús f. 1997, Áshildur Þóra f. 2003 og Silja Björk f. 2005. 2) Auður f. 26. apríl 1976, maki Þorbergur Auðunn Viðarsson, f. 19. mars 1970, d. 4. október 2011, Barn Auðar er Laufey Eva Stefánsdóttir f.1996, börn Þorbergs af fyrra hjónabandi eru Óttar Ingi f.1994 og Elísbet Huld f.1997. 3) Ágúst, f. 11. janúar 1978, maki Sara Alexandra Jónsdóttir f.31.maí 1988. Börn Ágústs og Söru Alexöndru eru: , Hrafntinna Ágústsdóttir 2014. Ernir Þór Stefánsson 2010, Börn Ágústs af fyrra sambandi , Sylvía Sara Ágústsdóttir, f. 2002, Elvar Snær Ágústsson , f. 2005,  og Elísa Sif Ágústsdóttir, f. 2008.
Útför Hjördísar fór fram í Grafarvogskirkju þann 7. júlí sl. Í  kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Látin er móðursystir mín Hjördís Hafsteinsdóttir og langar mig að minnast hennar hér í fáum orðum.
Elsku Hjördís mín, ég er ennþá varla búin að átta mig á að þú sért farin, þetta gerðist allt svo hratt og það er svo stutt síðan við áttum svo gott og innihaldsríkt samtal eins og öll okkar samtöl voru. Þú varst alltaf svo áhugasöm um allt sem fór fram í mínu lífi og stelpnanna og spurðir mig alltaf spjörunum úr hvernig þeim gengi og minntir mig á hvað ég er blessuð að eiga svona flottar og klárar stelpur. Mér þykir rosalega vænt um að þegar mamma lést varst þú mér stoð og stytta í gegnum allt ferlið, þú hjálpaðir mér með jarðarförina og erfidrykkjuna og er ég ævinlega þakklát fyrir það. Elsku Hjördís, þú hugsaðir svo vel um ömmu og átt svo mikinn heiður skilinn fyrir það. Ég á ennþá erfitt með að hugsa til þess að ég eigi aldrei eftir að sjá þig aftur hjá ömmu, þetta var tíminn okkar og við áttum svo góðar stundir saman og höfðum gaman af að spjalla um daginn og veginn.

Ömmu hefur hrakað eftir andlát þitt og ég bið fyrir henni, elsku blessuninni. Þér þótti svo vænt um hana og ég mun gera mitt besta til að reyna að fylla þitt skarð, sem þó verður aldrei fyllt.

Lífið getur verið svo ósanngjarnt og ófyrirséð, ég mun aldrei gleyma því þegar ég hringdi í þig og þú sagðir við mig að þú værir komin með krabbamein, og sagðir bara beint við mig: Jæja Magga mín, nú er röðin komin að mér. Ég trúði þessu ekki og sagði: Láttu ekki svona, þú verður hundrað ára, Hjördís. Nei, Magga mín, sagðir þú, þetta eru mín örlög og ég verð að taka þeim elskan mín, svona er lífið, sagðir þú með auðmýktina í fyrirrúmi eins og þú varst. Þú vildir aldrei gera mikið úr hlutunum og varst alltaf svo jákvæð, þrátt fyrir erfið og alvarleg veikindi tókstu þessu af algeru æðruleysi.

Ég varð miður mín þegar ég fékk svo að vita að þú værir með fjórða stigs lifrarkrabba, þá vissi ég að þetta væri alvarlegt en langaði samt ekki að trúa því. Þetta tók ekki nema tæpa tvo mánuði frá því þú sagðir mér þessar hörmulegu fréttir og svo varstu farin. Ég náði ekki að kveðja þig og er leið yfir því, en þú varst með áhyggjur af að þú litir ekki nógu vel út og það var svo í þínum anda, alltaf að hugsa um útlitið og varst svo mikill fagurkeri með mikinn áhuga á útliti og hönnun, stílisti í húð og hár.

Elsku Hjördís, nú ertu komin til Bóbó þíns og ég efast ekki um að mamma hafi tekið vel á móti þér, en samt sem áður farin héðan af þessari jörð langt fyrir aldur fram og það er svo erfitt að sætta sig við það. Ég var búin að hlakka svo til að fá þig í ferminguna hjá Kristu minni og þú hlakkaðir svo mikið til, en ég ætla að leyfa mér að vona að þú verðir með okkur í anda í september næstkomandi þegar að því kemur. Ég mun sakna þín og mun halda í okkar góðu minningar og varðveita samtölin okkar.

Ég votta börnunum þínum, þeim Kristínu, Berglindi, Auði og Gústa, mína dýpstu samúð sem og barnabörnum þínum, og þakka þeim fyrir að hafa leyft mér að fylgjast grannt með í veikindunum. Megi Guð gefa þeim styrk og von.

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Margrét Friðriksdóttir.