Samtal Birta Þrastardóttir vonar að bókin kveiki samræður lesenda.
Samtal Birta Þrastardóttir vonar að bókin kveiki samræður lesenda. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Hjá mér fæðast myndirnar og textinn eiginlega samhliða og kallast sterklega á í sköpunarferlinu.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Hjá mér fæðast myndirnar og textinn eiginlega samhliða og kallast sterklega á í sköpunarferlinu. Eitt orð getur þannig breytt öllu flæðinu og kallað á alveg nýjar myndir,“ segir Birta Þrastardóttir sem sent hefur frá sér myndabókina Nóru sem Angústúra gefur út. Þetta er önnur myndabók hennar, en árið 2015 kom bókin Skínandi út hjá Crymogeu.

„Í raun má segja að bókin fjalli einmitt um flæði. Stundum þarf svo lítið til að slá okkur út af laginu. Hún fjallar líka um það hvað orð skipta miklu máli og hversu mikilvægt það er að vanda orð sín í samskiptum við aðra. Ég held við þekkjum öll, bæði börn og fullorðnir, þá tilfinningu að vera slegin út af laginu út af einhverju sem við heyrum,“ segir Birta og rifjar upp að í fyrstu drögum að bókinni hafi titillinn verið Nei og aftur nei .

Nóra er birta á arabísku

„Þá var Nóra miklu neikvæðari í allri afstöðu, þar sem hræðsla og feimni varð til þess að hún svaraði öllu neitandi,“ segir Birta og bendir á að nafnið Nóra kallist á við enska orðið „no“. „Fyrir tilviljun komst ég hins vegar að því að Nóra þýðir birta á arabísku, sem mér þótti mjög skemmtilegt.“

Í bókinni upplifir Nóra bæði sorg og depurð þegar henni er strítt fyrir vestið sem hún klæðist sem er í neonlit og því mjög áberandi á síðum bókarinnar. Að sögn Birtu var það auðsótt mál að fá að bæta fimmta litnum, sem er neon, við. „Þetta hljómar kannski sem lítið atriði, en skiptir miklu fyrir upplifun lesenda,“ segir Birta og hrósar stjórnendum hjá Angústúru fyrir frábært samstarf. „Ég hef verið ótrúlega heppin með útgefendur, því þegar ég gaf út hjá Crymogeu vildi ég hafa síðurnar rúnnaðar, kjölinn gylltan og gat á bókinni og fékk allt sem ég bað um, sem er alls ekki sjálfgefið.“

Aðspurð segist Birta meðvitað nota fá orð í bókum sínum og styðjast frekar við samspil mynda og texta til að koma merkingunni til skila. „Það þýðir að ungir lesendur sem eru að byrja að læra að lesa geta lesið bókina upp á eigin spýtur og fyrir vikið upplifað sig sem sigurvegara,“ segir Birta og tekur fram að bókin henti einnig afar vel til upplestrar þar sem samspil texta og mynda kveiki auðveldlega samræður og samtal hjá lesendum. „Mér finnst gaman að opna á samræður við börn um svona viðkvæma tilfinningalega hluti. Nýverið fékk ég þau skilaboð frá foreldrum fjögurra ára stráks að upplestur á bókinni hefði kveikt góðar og skemmtilegar umræður um það að vera í fýlu, um stríðni og vináttu og annað mikilvægt í lífinu. Mér þótti afar vænt um að heyra það.“

Gott að vera flutt heim

Aðspurð segist Birta ekki reikna með að það líði fimm ár þar til hún sendi frá sér sína næstu bók. „Bókin virkar kannski einföld á yfirborðinu, en hún krafðist mikillar vinnu enda handteikna ég allar myndirnar og geri tilraunir þar til útkoman verður rétt. Þetta snýst allt um að ná rétta flæðinu og stundum þarf maður að láta hlutina meltast. Auk þess spilar líka inn í að ég var að vinna bókina meðfram fullri vinnu og fluttist milli landa í miðju sköðunarferlinu,“ segir Birta sem sumarið 2019 flutti ásamt fjölskyldu heim frá Englandi eftir tuttugu ára búsetu þar í landi. „Við tókum þá ákvörðun í miðju Brexit-ferli að þetta væri komið gott og fínt að snúa aftur heim. Um leið og við fluttum heim fékk ég frábært starf sem kynningarstjóri Borgarbókasafnsins og hef því bara blómstrað frá heimkomu.“