Jóhannes Helgason fæddist 25. apríl 1936 í Hafnarstræti 9 á Akureyri. Hann lést á Landakoti 23. desember 2020.

Foreldrar hans voru hjónin Helgi Thorberg Kristjánsson, vélstjóri f. 20.9.1904 í Ólafsvík, d. 9.9.1976 í Reykjavík og Petrína Kristín Jónsdóttir f. 13.8.1909 á Búðum, d. 22.3.2002 í Reykjavík. Systkini Jóhannesar eru Kristín f. 1931 gift Reinharð Sigurðssyni, látinn, Jón f. 1932, d. 2019 kvæntur Aðalheiði Guðmundsdóttur, látin og Kristján f. 1934 kvæntur Björg Láru Jónsdóttur.

Eiginkona Jóhannesar var Fríða Sigurveig Traustadóttir f. 11.11.1938 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Trausti Árnason f. 1913, d. 1981 og Sigríður Olgeirsdóttir f. 1917, d. 1978.  Jóhannes og Fríða gengu í hjónaband 25.12.1957 á Patreksfirði. Börn þeirra eru  1.  Sigríður f. 8. 4.1957, fyrri maki  Kári Tryggvason, þau skildu. Seinni maki Sigríðar var William „Billy“ Marra, þau skildu.  Börn Sigríðar og Kára:  A) Jóhannes Karl f. 1975, fv. sambýliskona Rakel Ósk Eckard, börn a) Óskar Karl f. 2003 og b) Sigríður f. 2005, núv. sambýliskona Bergdís Ingibergsdóttir, barn c) Kristján Karl f. 2014. Dætur Bergdísar eru Alma Rán og Hjálmdís Elsa. B) Iðunn f. 1980, maki Kip Rhoades, börn a) Pierce Johannes f. 2015 og b) Emma Marley f. 2017. 2. Björg, f. 29.9.1958, fyrri maki Björn Ingi Stefánsson, þau skildu. Seinni maki Bjargar er Hringur Sigurðsson. Börn Bjargar og Björns Inga:  A) Sigurveig Sara f. 1979, barnsfaðir Eggert Maríuson, barn a) Haraldur f. 2015. Sambýlismaður Flóki Ingvarsson. B) Helga Heiðbjört f. 1981,  barnsfaðir Ágúst Örn Gústafsson, barn a) Mikael Máni f. 2003.  Maki Helgu er Ottó Ingi Ottósson, barn b) Ísak Ingi f. 2010. C) Stefán Andri f. 1983, maki Melissa Fen Shu Chung, börn a) Ástbjörg Elisabeth f. 2013, b) Sigurást Reign f. 2016 og c) Björn Ingi f. 2019. D) Ester Rós f. 1988, maki Hallur Örn Árnason, börn a) Snorri Örn f. 2013 og b) Halla Björg f. 2016. 3. Olgeir f. 3.12.1959, maki Margareth Hartvedt, börn: A) Diðrik f. 1992, B) Petrine f. 1994 og C) Andrine f. 1999. 4. Una f. 6.5.1961, maki Óskar S. Magnússon. Börn: A) Fríða f. 1987, maki Daniel Sanchez, barn a) Oskar f. 2019, B) Víkingur f. 1995. 5. Trausti f. 18.7.1964, maki: Steinunn Lovísa Þorvaldsdóttir.  Börn: A) Elva Björk f. 1990,  maki: Theodór Kjartansson, synir a) Hjörvar Breki f. 2014 og b) Kjartan Trausti f. 2016. B) Þorvaldur Freyr f. 1992 og C) Tinna Ósk f. 1999.
Fjölskylda Jóhannesar bjó á síldarárunum á Siglufirði frá 1938 til 1953 en það ár lauk hann námi frá Iðnskóla Siglufjarðar. Hann lauk síðan sveinsprófi í útvarpsvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1960 en meistari hans var Georg Ámundason. Hann vann hjá Friðriki A. Jónssyni hf., 1962 til 1965. Jóhannes varð útvarpsvirkjameistari 1966.  Hann rak viðgerðarverkstæði í Keflavík fyrir fjarskipta- fiskleitar- og radartæki, Sónar hf., ásamt Sigurði Jónssyni frá 1966 til 1986.  Það ár fluttu þau hjón á höfðuðborgarsvæðið og bjuggu þar síðan. Jóhannes öðlaðist kennararéttindi frá Kennaraháskólanum  og kenndi síðan við Iðnskólann í Reykjavík í yfir 25 ár. Jóhannes var alla tíð mikill áhugamaður um sögu útvarpsvirkjunar, fjarskiptatækninnar og tækniþróunar og varðveislu tæknibúnaðar bæði til sjós og lands.  Árið 2015 gaf hann úr bókina „Frumherjar í útvarpsvirkjun“ ásamt Páli V. Sigurðssyni kennara, sem byggir á viðtölum sem tekin voru á árunum 1997 til 2000 við 17 útvarpsvirkja sem miðluðu af reynslu sinni allt frá 1930 fram að aldamótum.
Útför fer fram frá Bústaðakirkju 11. janúar kl. 13 og verður streymt á slóðinni: https://youtu.be/YOeQSjB2vpY

Minningargrein Jóhannes



Elsku ástkær pabbi féll frá á Þorláksmessu. Okkur bræðurna langar að minnast pabba okkar.

Pabbi var ötull baráttumaður sem ruddi brautina fyrir okkur bræðurna hvað menntun varðar og það voru svo margir fleiri sem gátu fylgt okkur eftir. Hann barðist líka fyrir hönd allra þeirra foreldra sem áttu döff börn og allra sem komu þar á eftir. Pabbi var mikil fyrirmynd alls þessa fólks, hann gafst aldrei upp í sinni baráttu. Fyrir honum var ekkert verkefni of stórt eða erfitt því það var alltaf hægt að finna lausnir. Jafnvel þó það krefðist þess að fara á fundi hjá ráðherrum til þess að komast yfir hindranir.

Þegar ég var ungur langaði mig að læra rafeindavirkjun eins og hann segir Olgeir, það var augljóslega erfitt verkefni og engir aðrir döff á Íslandi sem höfðu færst svo mikið í fang. Það voru engir túlkar til, svo pabbi gekk í málið og túlkaði fyrir mig svo ég gæti náð prófunum og lokið minni menntun. Það á ég allt pabba að þakka. Við pabbi unnum svo saman í viðgerðum, mig minnir að það hafi verið árið 1983 að við vorum eitt sinn á heimleið eftir vinnu þegar við mætum bíl sem stoppar okkur. Pabbi og hinn bílstjórinn skrúfa niður rúðunar og maðurinn segist eiga í vandræðum með fiskileitartæki hjá sér og báturinn eigi að sigla í kvöld. Allt í einu skrúfar pabbi upp rúðuna þó að maðurinn sé enn að tala og keyrir burt í rólegheitunum. Ég spurði pabba hvers vegna hann gerði þetta og fékk svarið að maðurinn skuldi honum svo mikið að hann vilji ekki hjálpa honum. Nokkrum tímum seinna hringir maðurinn og segist vera búinn að borga skuldirnar, hvort pabbi geti bjargað honum. Pabbi kláraði kvöldmatinn með fjölskyldunni því hann var svo mikill fjölskyldumaður. Svo fór og vann alla nóttina fyrir manninn. Þetta var svolítið eins og gamaldags glæpamynd að upplifa og alveg dæmigert fyrir pabba, hann var mjög fastur fyrir þó hann færi allt með hægðinni.

Pabbi útskýrði hlutina alltaf á einfaldan og skýran hátt. Hann horfði sem dæmi á kvöldfréttirnar og sagði okkur hvað væri að gerast, það sama má segja um íþróttirnar. Hann átti það til að hlusta á heilu fótboltaleikina til að geta sagt hver væri að skora svo við gætum fylgst með Íslandsmótinu. Það sama gerði hann með handboltann, skráði niður öll mörk og hverjir skorðu og hvernig. Við strákarnir útbjuggum líka töflur fyrir hann til að fylla út í svo við gætum fylgst með keppnunum.

Eitt sinn þegar Olgeir var ungur undir lok sjöunda áratugarins kom pabbi heim með lítið sjónvarp fyrir Olgeir að hafa í herberginu sínu, þar sem hann gat ekki fylgst með útvarpinu fannst pabba jafnrétti í því að strákurinn gæti þó alla vega fylgst með sjónvarpinu inni í herberginu sínu.

Hjá pabba gat eitt orð sagt miklu meira heldur en ræður, eitt skiptið sem oftar vorum við að keyra á milli Reykjavíkur og Keflavíkur í Austin Mini bílnum og við bræður eitthvað að rífast. Sennilega of harkalega því þegar við slógu í handlegginn á hvor öðrum kipptist bíllinn til og frá. Pabbi var í bílnum beint fyrir aftan okkur og horfði á lætin í okkur. Olgeiri varð litið í baksýnisspegilinn og sá þá pabba gera táknið BJÁNAR um leið og hann horfði á okkur. Það þurfti ekki meira til, við vissum upp á okkur skömmina og hættum um leið.

Pabbi var mikill safnari og varveitti ýmislegt eftir langan feril, meðal muna sem ég fann í skúffum hjá honum voru gamall kristall úr radartæki og einn af fyrstu rökrás munir sem eiga örugglega eftir að enda á safni enda lítið til af þeim í dag. Annað sem einkenndi pabba mikið var dálæti hans á tölum, hann taldi allt á milli himins og jarðar, hvort sem það voru tröppurnar upp á Holmenkollen eða farþegar í flugvélinni. Alltaf taldi hann, þetta höfum við bræðurnir mögulega erft frá honum.

Trausti segir að pabbi sinn hafi verið mjög fær í að finna lausnir, t.d. þegar Trausti slasaðist á hné og fékk það ekki bætt, þá hætti pabbi ekki baráttunni fyrr en hann fann lagagrein sem studdi bótakröfu sama má segja þegar Trausti fór í meiraprófið, pabbi gafst ekki upp fyrr en Trausta var hleypt inn í námið.

Við fjölskylda Olgeir syrgjum kæran pabba, tengdapabba og afa sem var okkur mikil fyrirmynd og við áttum alltaf í góðum samskiptum við. Diðrik hélt íslenskunni við í samtölum við afa sinn og Petrine og Andrine fundu alltaf leiðir til að eiga í samskiptum við afa sinn táknmálskunnáttan dugði ekki til. Maggie konan mín átti líka alltaf góð tengsl við tengdapabba sinn. Nú er því miður þessum hluta lífsins okkar lokið. Hvíl í friði.

Við fjölskylda Trausta syrgjum að sama skapi kæran pabba, tengdapabba og afa sem var mikill lærifaðir og stoð og stytta barnanna í gegnum þeirra nám. Tinna, yngsta dóttir okkar horfði mikið upp til afa síns og hefur stefnt í sömu átt og hann hvað framtíðarstarf varðar. Þorvaldur naut leiðsagnar afa síns í rafvirkjanámi sínu og var heppinn með það. Elva Björk fékk líka stuðning afa síns í sínu starfsvali og námi. Við kveðjum þig pabbi nú þegar þú ert farinn frá okkur í hvíldina sem þú þurftir. Hvíl í friði.





Margs er að minnast,

Margt er hér að þakka.

Guð sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

Margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin strið.

(Valdimar Briem)







Olgeir og Trausti Jóhannessynir

Trausti Jóhannesson