Rýmislínur MYNDLIST Nýlistasafnið RÝMISVERK GER C. BOUT Opið frá 14-18 alla daga. Til 12. febrúar. Aðgangur ókeypis.

Rýmislínur MYNDLIST Nýlistasafnið RÝMISVERK GER C. BOUT Opið frá 14-18 alla daga. Til 12. febrúar. Aðgangur ókeypis. KÖNNUN rýmisins er eitt af því sem vakir fyrir myndlistarmönnum og arkitektum nú um stundir, en er þó ekkert nýtt og frekar gamalt vín á nýjum belgjum. Er hér átt við sýnilegt rými og fyrirferð, sem og tómið sjálft sem umlykur það, en það sem við nefnum höggmynd eða skúlptúr, er að sjálfsögðu afsprengi rýmisins.

Það var og er vísast enn kennslugrein í myndmótunardeild MHÍ að strengja þræði yfir afmarkað rými til að kanna og rannsaka víddir þess, og má komast að ýmsum niðurstöðum, m.a. skapa arkitektóníska heild.

Í setustofu Nýlistasafnsins hefur Hollendingurinn Ger C. Bout komið upp slíkum gjörningi eða kannski heldur innsetningu og notið til þess aðstoðar Illuga Eysteinssonar myndlistarmanns. Um er að ræða að gerendur hafa strengt 300 grömm af þræði úr ull og polyester þvers og kruss um allt innra rými setustofunnar, og eru þræðirnir lýstir upp með útfjólubláu ljósi.

Ger C. Bout skilgreinir þetta rýmsiverk sem þrívíða tilraun, þar sem leitast er við að fylla út rýmið, án þess að rýmið fyllist og nefnir hann það þrívíða teikningu. Gengur út frá línunum í húsinu sjálfu og satt er það að samhengi má finna ef vel er leitað. Listamaðurinn, sem er menntaður arkitekt, gerir ekki upp á milli fagsins og listarinnar og hefur ánægju af ýmsum þreifingum á vettvanginum, sem tengjast lífrænum gjörningum.

Það er nokkuð óvænt að sjá þessa þræði blámóskunnar í setustofunni, sem verður við það líkt og rafmögnuð, og gjörningurinn minnir vissulega á líf sem kviknar, lifir skamma stund og deyr eins og t.d. fiðrildi á hásumri sem lifa bara einn dag. Listamaðurinn hefur ei heldur í hyggju að búa til list sem lifir eins og minnisvarði, heldur sem lifir og deyr, eða breytist og umformast með árunum.

Bragi Ásgeirsson

GER C. Bout fyrir framan rýmislistaverk sitt í setustofu Nýlistasafnsins.