Dómhildur Eiríksdóttir fæddist 15. júní 1934. Hún lést 29. ágúst
2021. Útför Dómhildar fór fram 11. september 2021.

Dómhildur hefur kvatt þessa jarðvist, hljóðlega og virðulega eins og henni var eiginlegt.

Frá því á barnsaldri vissi ég hver þau voru Dómhildur frænka og hennar maður Finnbogi Magnússon, góð tengsl voru milli pabba og þeirra hjóna, eins við Sigureyju móður hennar og Þorvald fóstra hennar.

Pabba þótti vænt um þessa bróðurdóttur og þótti til þess koma hve skörulega hún rak sitt stóra heimili, ól upp sjö börn, fæddi þau og klæddi og stjórnaði almennt séð aðgerðum stærri sem smærri eins og títt er með konur sjómanna, ekki síst þeirra sem langdvölum eru fjarri heimilum sínum.

Fyrstu minningar mínar um heimsókn til Dómhildar og fjölskyldu eru talsvert gamlar.

Þá fékk ég að fara með pabba vestur á Patreksfjörð og lá leiðin í Stúkuhúsið sem þá var heimili Dómhildar og fjölskyldu. Þetta var þá mikið ferðalag og hefur sannarlega ekki verið farið án áríðandi tilefnis, forfrömun mikil að fá að fara í slíkt ferðalag. Þó þetta sé í dag fljótfarið var slík ferð þá alvöru ferðalag sem tók með erindunum lungann úr degi.

Þarna urðu fyrstu kynni af ýmsu tagi, frænka sjálf, elsta dóttirin Kristín, bakaríið á Patreksfirði og ... kóngabrjóstsykur.

Síðar spauguðum við Dómhildur stundum með þennan kóngabrjóstsykur og minningarnar sem honum tengdust. Það var á milli okkar.

Húsbóndinn var á sjó sem endranær og kynntist ég honum ekki fyrr en löngu síðar og varð með okkur gott trúnaðarsamband sem var mér bæði kært og dýrmætt.

Mér þótti frænka mín falleg kona og fín, dökk á hár sem húð. Útlit hennar var áreiðanlega alla tíð eilítið framandi í hópi okkar litlausra norðurálfubúa.

Dómhildi var sannarlega svo margt til lista lagt, hún naut þess þegar tíminn fór að gefast, lesturs og hreyfingar eins og sunds og göngu. Að ferðast innanlands og þá að renna fyrir fisk var henni unun og eins naut hún þess að sækja heim sólrík og hlý suðræn lönd.

Hún fór ekkert hátt með að geta spilað á hljóðfæri né heldur að geta samið ljóð. Það vissu aftur á móti allir að Dómhildur eldaði og bakaði mikið og af góðri kunnáttu og naut þess að gefa fólki að borða. Að koma í eldhús Dómhildar var eins og þar væri nýbúið að baka og að það væri rétt verið að tilreiða veisluborð. Hún rak líka bílaleigu, hélt því áfram að Finnboga sínum gengnum og hikaði ekki við fjallaferðir í allskonar færð á öllum árstímum.

Dómhildur var fyrsta barnabarn ömmu okkar Henríettu. Hún var mikið yndi ömmu og ekkert var of gott fyrir barnabarnið sem missti föður sinn aðeins tveggja ára gamalt. Það er í raun engu líkara en amma hafi eftirlátið stúlkunni hæfileika og eiginleika sem virðast hafa í báðum búið. Dómhildur minntist ömmu Henríettu fallega og trúlega eitt fárra barnabarna hennar sem mundi hana vel.

Gæfa Dómhildar hefur verið mikil á margvíslegan máta, jafnt elskaður eiginmaður sem börn og allir afkomendur. Sorgir hennar hafa verið illbærilega þungar þegar eiginmaður hennar féll fyrir illvígum sjúkdómi aðeins rétt tæplega 53ja ára.

Dómhildur hefur átt langt og gott lífshlaup. Sterk kona sem elskaði mann sinn, börn sín og alla sína takmarkalaust, var alltaf til staðar, alltaf full elsku, gjafmildi og trúnaðartrausts.

Það hafa verið forréttindi að þekkja Dómhildi sem fullorðin manneskja, kynnast konunni og sögunni hennar.

Af margra ættingja hópi er alltaf eitthvað um að maður finni fyrir sterkari og raunverulegri skyldleika við suma en aðra. Skynjar blóðböndin. Þannig var það með Dómhildi, hún var frænka.

Nú þegar komið var að kveðjustundu er útför Dómhildar gerð frá Patreksfjarðarkirkju, heiðursvörður staðinn við kirkju.

Við nokkrar frænkur, Elsa Nína og Svanhvít Sigurðardætur ásamt undirritaðri, sitjum með mönnum okkar, erum víðsfjarri en fylgjumst með streymi frá útförinni, raulum svolítið ... upphátt eða í hljóði með fallegum söng og erum þarna með skyldmennum okkar vestra og föðmum þau í anda, hjartanlega.

Síðan setjumst við að kaffiborði og minnumst þannig frænku okkar, segjum svolítið frá minningum okkar og sérkennilegum atvikum sem einkenna henni stundina.

Hún er áreiðanlega komin heil í höfn í hinu fyrirheitna landi, þar sem hár og myndarlegur skipstjóri beið á kæjanum eftir endanum.

Elsku Dómhildur, farðu vel, hafðu hjartans þakkir fyrir samfylgdina.
Samúðarkveðjur til barna, tengdabarna og annarra afkomenda og ástvina Dómhildar.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

(Úr Há­va­mál­um)

Jensína Kristjánsdóttir.

Jensína Kristjánsdóttir