Guðjón Magni Einarsson fæddist 14. janúar 1961. Hann lést 7. september 2021 á krabbameinsdeild Landspítalans.

Guðjón, eða Gaui eins og hann var alltaf kallaður, fæddist í Reykjavík, nánast á KR-vellinum enda var hann eldheitur KR-ingur alla tíð. Hann var sonur Guðrúnar Árnadóttur og Einars Inga Guðjónssonar, miðjubarn og einn sjö systkina. Hann bjó á Holtsgötunni en flutti í Vesturbergið í Breiðholti með fjölskyldunni þegar hann var um það bil 12 ára gamall.

Hann fór í FB og lauk verslunarprófi en fór síðan í Vélskólann og útskrifaðist þaðan sem vélstjóri.

Hann var ekki nema 14 ára gamall þegar hann fór fyrst á sjóinn og varð þá ekki aftur snúið. Hann var á sjónum með námi upp frá því og stundaði millilandasiglingar bæði með náminu og eftir að því lauk, allt þar til hann hóf störf sem vélstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, árið 1991.

Það var einmitt um borð í hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni sem hann kynntist konu sinni, Sif Guðmundsdóttur. Með þeim tókust ástir en þau gengu loks í hjónaband nú í sumar eftir 22 ára samband.

Þau eignuðust tvo syni, Einar Inga, f. 7. mars 2001, og Bjartmar Ás, f. 16. október 2005.

Gaui hætti á sjó síðla árs 2005 og hóf störf hjá Vinnueftirlitinu í ársbyrjun 2007 eftir stutt stopp í einkageiranum í millitíðinni. Hann sá aldrei eftir því að hætta á sjónum og geta verið meira með fjölskyldunni.

Útför hans fór fram í kyrrþey að hans ósk 14. september frá Garðakirkju og var hann jarðsettur í Garðakirkjugarði.

Það var svo sérstakt þegar við Gaui kynntumst, við vissum frá byrjun að við ættum samleið. Við fórum strax að búa saman eftir mjög stutt kynni og það var eins og við hefðum þekkst árum saman. Ég á honum svo margt gott að þakka, en það allra stærsta eru synir okkar. Ég hafði aldrei haft áhuga á barneignum en vegna löngunar hans til að eignast börn þá varð Einar okkar til. Og auðvitað breyttist viðhorf mitt um leið og í kjölfarið eignuðumst við annan yndislegan son, Bjartmar.



Gaui var góður faðir, skemmtilegur, indæll og ákveðinn. Hann treysti strákunum okkar og þeirra ákvörðunum í lífinu. Hann vildi að þeir veldu sínar leiðir sjálfir og hafði almennt ekki áhuga á að stjórnast í fólki. Hann var stoltur af strákunum sínum og reyndist þeim vel.



Líkt og ég, þá hafði Gaui mikinn áhuga á fótbolta. Hann fylgdist sérstaklega vel með ensku deildinni og var Manchester City-maður. En KR var samt alltaf besta liðið á Íslandi, enda sagðist hann í gríni og alvöru vera ljóshærður Vesturbæingur og KR-ingur. Þegar stór mót stóðu yfir gengu þau fyrir flestu öðru og ekki var í boði að horfa á annað á heimilinu. Strákarnir okkar geta vitnað um það að einu skiptin sem þeir heyrðu okkur Gauja kýta voru þegar City og Liverpool mættust því við héldum sitt með hvoru liðinu. En eins og við sögðum bæði þá kunnum við hreinlega ekki að rífast enda höfðum við ekki ástæðu til.



Gaui nýtti sinn tíma vel þótt hann hefði svo sannarlega mátt vera lengri. Ég held að hann hafi verið sáttur við það líf sem var hans og kunni að njóta þeirra stunda sem hann fékk með mér og strákunum. Hann gaf mikið af sér, var hjálpsamur, traustur, ráðagóður og lausnamiðaður. Hann var jarðbundinn og ef til vill tókst honum einmitt þess vegna að njóta líðandi stundar í stað þess að vera alltaf að bíða eftir einhverju öðru. Gaui vildi aldrei láta hafa neitt fyrir sér og setti mig og strákana alltaf í fyrsta sæti, þannig var hann bara gerður. Hann var alla tíð skipulagður, meira segja í lokin þegar við vissum hvert stefndi. Og auðvitað hugsaði hann fyrst og fremst um hag fjölskyldu sinnar og skipulagði allt þannig að það væri sem best fyrir okkur.



Gaui var mikill húmoristi, tók sjálfan sig ekki of hátíðlega og það breyttist aldrei. Honum tókst oft að sjá spaugilegar hliðar tilverunnar og átti sína frasa, sér og öðrum til skemmtunar. Hann var alltaf fljótur að svara mér þegar ég sagðist ætla að vera enga stund að gera eitthvað, engin stund er ekki til og það er sannarlega mikill sannleikur í því. Allar stundir hljóta að vera til og það hlýtur að skipta máli hvernig við nýtum þessar stundir okkar. Þær koma ekki til baka þegar þær eru liðnar.

Hann var líka vanur að segja fólki að passa sig á bílunum þegar hann skildi við það og ef honum fannst einhver ætla að hreyfa sig meira en hann þurfti, sagði hann ekki eyða kaloríum í vitleysu.



Hann var skemmtilegur og lífsglaður maður sem gerði mér og strákunum okkar og öðrum í kringum sig lífið léttara. Hann var yndislegur eiginmaður, faðir, vinur, sonur, bróðir og svo margt annað. Sorg okkar er mikil, því við höfum svo sannarlega misst mikið. Við söknum hans og lífið er tómlegra en áður, en við minnumst hans með ást og kærleika og varðveitum þær yndislegu og góðu minningar sem við eigum með honum. Blessuð sé minning þín, elskulegi eiginmaður minn.

Tíminn er aðeins endalaus röð augnablika,
sem líða hjá hvert af öðru.
Lítil veröld greypt í hvert og eitt
- handa þér.

Tíminn er líkt og tár sem falla,
heit og sölt þau tala um gleði og sorgir.
Á einu augabragði verða þau til og hverfa
og aðeins minningin ein verður eftir.

Tíminn er gjöf guðs til mannanna.
Lifandi sál í kviku holdi
- sólundaðu ekki gjöf þinni.

Tíminn er gjöf guðs til mannanna
- en skyldi hann ekki óska þess
að hafa gefið hana einhverjum öðrum.
(Gaukur)

Sif Guðmundsdóttir Einar Ingi Guðjónsson Bjartmar Ás Guðjónsson