8. mars 1995 | Leiklist | 735 orð

Rúllustigarúllettan LEIKLIST Bæjarbíói, Hafnarfirði MÆNUSTUNGA Nemendafélag

Rúllustigarúllettan LEIKLIST Bæjarbíói, Hafnarfirði MÆNUSTUNGA Nemendafélag Flensborgar: Kjartan Þórisson, Páll Sveinsbjörnsson, Ólafur Guðmundsson, Þröstur Óskarsson. Rokktónleikar með hreyfimynd á undan. 2. mars klukkan fjögur.

Rúllustigarúllettan LEIKLIST Bæjarbíói, Hafnarfirði MÆNUSTUNGA Nemendafélag Flensborgar: Kjartan Þórisson, Páll Sveinsbjörnsson, Ólafur Guðmundsson, Þröstur Óskarsson. Rokktónleikar með hreyfimynd á undan. 2. mars klukkan fjögur.

HAFNFIRÐINGAR hafa tekið af sér skírlífisbeltið. Rúllustigamenningin er komin til að vera. Nú stoppar strætó í nýja miðbænum fyrir framan glerdyr sem gapa ógurlega og sjálfkrafa á móti gestum og fyrir innan gnæfir sjálfur rúllustiginn í miðju holinu eins og óbelíska, nei, eins og hálfrisið reðurtákn í hofi verslunarinnar. Neytandinn er fram leiddur á færibandi eins og vörurnar eru framleiddar sem hann er leiddur fram fyrir. Hreyfimáttur fótanna er tekinn frá honum í þágu framleiðninnar. Ég man ekki hvort honum er ætlað að fylgja pílum á gólfinu. Auðvitað þyrfti að létta af honum hreyfimætti viljans líka.

Þarna er vitaskuld hægt að kaupa allt milli himins og jarðar og til baka: Bleiur á hvítvoðunga, mat, og lyf handa þeim sem þola illa mat eða bleiur eða hvítvoðunga; litningabættar rósir sem hneigja krónur sínar yfir grafir framliðinna treglega og seint. En sem betur fer gætu Hafnfirðingar hamið þetta nýfengna, skelfilega frelsi til að hreyfa sig hvorki né hugsa með því að koma í veg fyrir að listahátíð lognist útaf, leggist undir rós. Þessa verslunarmiðstöð verður að helga sköpunarkrafti Gaflara með því t.d. að spila þar sjöttu sinfóníu Tjækovskís úr rúllustiganum eins hátt og búðargluggaglerið leyfir. Við innganginn yrði varpað skikkjum yfir áheyrendur, svörtum yfir konur, nábleikum yfir karla.

Skammt undan er griðastaður, Kaffihús Súfistans. Þar er hægt að lesa blöð sem hafa verið strengd á kjölprik eins og í menningarborgum. Kaffið er malað og brennt þar á yndislega yfirgengilega óframleiðnivænan hátt og bragðast eftir því. Út um gluggann fylgdist ég með því s.l. fimmtudag þegar ungir Hafnfirðingar, Flensborgarar flestir, stóðu í biðröð eftir því að komast inn í Bæjarbíó til að hlýða á Mænustungu. Mænustunga er hljómsveit sem apar eftir bresku hljómsveitinni Spinal Tap og spilar níðþungt rokk ofur hátt. Klukkan fjögur tíndust bæjarráðsmenn út af bæjarskrifstofunum við hliðina á bíóinu með skjalatöskur fullar af ákvörðunum. Þeir voru á svipinn eins og menn sem hafa hlustað lengi og hugsað margt. Unga fólkið gaf þeim engan gaum. Strákur ók nokkrum sinnum framhjá í hvítum og rauðum Cadillac og hvíldi úlnliðinn letilega ofan á leðurklæddu stýrishjólinu. Biðröðin tók vel eftir honum.

Svo kom að því. Við þyrptumst inn í dimman salinn og horfðum á kvikmynd af ungum stúlkum borða hundamat upp úr dós og unga menn sem voru að reyna að vera dónalegir. Að því búnu spiluðu þessir ungu menn ofur hátt og göptu, rauðmynntir, ógurlega og sjálfkrafa svo sást niðurum vélindað hvaða mat þeir höfðu ekki borðað, og voru dónalegir um sig miðja. Svo komu ungar stúlkur fram á sviðið, dilluðu sér og struku ungu dónalegu mennina um lærin framanverð og aftanverð og lögðust á sviðið á milli fótanna á þeim því kynnirinn hafði lofað klámi og ofbeldi og þau loforð varð að efna. Þó hefði þessum ungu piltum farið miklu betur að einbeita sér að músíkinni því þeir eru góðir hljóðfæraleikarar og ég er viss um að þeir vita í hjarta sínu að það er viðurstyggilegt að niðurlægja konur og að allir karlmenn minnka við það og að það á að vera útlenska í Hafnarfirði eins og rúllustiginn og eiginlega alls ekki til, ekki einu sinni í plati. Svo var allt þetta gert enn framandlegra með því að kvikmynda það og varpa því upp á skjái til þess að áhorfendur gætu fylgst með því þegar hljómsveitin skoðaði sjálfa sig spila fyrir skjái. Því í raun og veru er ógerlegt að horfa á svona sýningu, jafnvel þótt stundum hafi örlað á slettirekuhúmor og brugðið hafi verið upp myndskeiðum með Charlie Chaplin. Sjálfsdýrkunareðli sínu samkvæm smánar hún áhorfendur og gerir þá að gluggagæjum, perrum. Þess vegna læddist ég í burtu áður en yfir lauk.

Bresk jaðarmenning á borð við Spinal Tap er sprottin af ofríki rúllustigans, stéttskiptu sóti og endalausum múrsteinsveggjum. Hún er neyðaröskur ungkarla sem samfélagið hefur svipt öllum leiðum til að tjá sig nema gegnum tippið. Ég vona að þessi menning sé enn undarlega sett í Hafnarfirði og að unga fólkið þar upplifi hana sem frávik. Mig grunar að bæjarráðsmenn hafi sett hljóða þegar tónlistin buldi á hlustum þeirra í gegnum þilið sem skildi þá frá bíósalnum við frumsýninguna klukkan tvö. Ég vona að þeir hafi hrokkið við og spurt sjálfa sig: Enduróma þessi hljóð reynslu ungu borgaranna af tilverunni? Hvaða annar farvegur stendur þeim til boða?

Guðbrandur Gíslason

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.