Hala-leikhópurinn "Allra meina bót" NÚ ER að ljúka þriðja leikári Hala-leikhópsins með frumsýningu á "Allra meina bót" eftir Patrek og Pál (eða bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni) undir leikstjórn Eddu V. Guðmundsdóttur.

Hala-leikhópurinn "Allra meina bót"

NÚ ER að ljúka þriðja leikári Hala-leikhópsins með frumsýningu á "Allra meina bót" eftir Patrek og Pál (eða bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni) undir leikstjórn Eddu V. Guðmundsdóttur.

Frumsýnt verður í Halanum, Hátúni 12, föstudaginn 10. mars kl. 20 og önnur sýning sunnudaginn 12. mars á sama stað á sama tíma. Leikhópurinn hefur innréttað þar lítið leikhús sem tekur um sextíu áhorfendur og er aðgengilegt öllum (kjörorð félagsins). Verður við þetta tækifæri tekinn í notkun nýr ljósabúnaður, sem Steindór Hjörleifsson hefur haft veg og vanda af að safna fyrir handa leikhópnum.

"Allra meina bót" er gamanleikur sem gerist á ónefndu sjúkrahúsi í Reykjavík, en þar ræður ríkjum hinn ókrýndi konungur allra skurðlækna, sjálfur Dr. Svendsen. Í leikritinu eru mörg þekkt lög, svo sem "Augun þín blá" og "Það sem ekki má" í tónlistarflutningi Hilmars Sverrissonar."

Leikstjórinn Edda V. Guðmundsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1977.