Jón Olgeirsson, oftast kallaður Nonni, fæddist í Skálabrekku á Húsavík 6. maí 1947. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi aðfaranótt 2. desember 2022 eftir erfiða baráttu við krabbamein.
Foreldrar hans voru Ragnheiður Friðrika Jónasdóttir, f. 28. apríl 1924, d. 9. apríl 2007, og Olgeir Sigurgeirsson, f. 22.maí 1924, d. 20. febrúar 2006. Þau bjuggu í Skálabrekku á Húsavík og var Jón fimmti í röð ellefu Skálabrekkubræðra, en tíu komust til fullorðinsára. Þeir eru: Sigurður, látinn, Hreiðar, látinn, Pétur, Skarphéðinn, látinn, Egill, Aðalgeir, látinn, Kristján, Björn og Heiðar. Þá eiga þeir eina hálfsystur á Húsavík, Ásdísi.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Hulda Salómonsdóttir sjúkraliði frá Húsavík, f. 12. febrúar 1950. Þau eignuðust þrjú börn: 1) Björg, f. 1967, viðskiptafræðingur, maki Ásgeir Baldurs. Dóttir þeirra er Jóhanna Huld, fyrir átti Björg Guðrúnu Huldu, látin, og Rúnar Frey, maki Rebecca Smith. 2) Örvar Þór, f. 1972, hjartalæknir, maki Anna Margrét Svavarsdóttir. Þeirra börn: Jón Ívar, Tristan Orri og Aníta. Fyrir átti Anna Margrét soninn Svavar. 3) Særún, f. 1981, sjúkraþjálfari, maki Haukur Valgeir Magnússon. Börn þeirra Aron Ingi og tvíburarnir Hekla Rakel og Hulda Karen.
Jón og Hulda giftu sig 27. desember 1969, hófu búskap á Húsavík og bjuggu þar til ársins 2001 er þau fluttu í Kópavog.
Jón ólst upp í Skálabrekku í stórum bræðrahópi, stundaði nám við barna- og gagnfræðaskóla Húsavíkur. Strax að loknu skyldunámi eða 15 ára fór Jón til sjós. Síðar gerðist hann aðili að útgerð föður síns og elstu bræðra, Korra ehf. á Húsavík. Síðustu 10 árin í útgerð kom í hans hlut að stýra fiskverkun fyrirtækisins í landi. Síðar starfaði hann í Mjólkursamlagi Kaupfélags Þingeyinga.
Eftir að þau hjón fluttu suður í Kópavog 2001 vann hann fyrstu þrjú árin hjá Osta- og smjörsölunni, en eftir það var hann húsvörður í Kópavogsskóla í 14 ár.
Nonni var mikill og sannur Kiwanisfélagi. Hann var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Skjálfanda á Húsavík, átti meðal annars hugmyndina að nafni klúbbsins við stofnun, og var félagi í honum þar til hann flutti suður. Þá gekk hann til liðs við Kiwanisklúbbinn Eldey í Kópavogi og var félagi þar allt til loka. Nonni var félagi í Kiwanishreyfingunni í tæpa hálfa öld og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var hann forseti bæði í Skjálfanda og Eldey.
Útförin fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 16. desember 2022, klukkan 10.

Elsku besti pabbi minn er látinn. Er ótrúlega sárt og mikið tómarúm hjá okkur sem eftir sitjum. Veikindin voru erfið, sérstaklega síðustu vikur og mánuðir þar sem við höfum séð hann missa þrekið, vonin um að hann hressist hefur dvínað og við gert okkur grein fyrir í hvað stefndi. En vonin var sterk hjá honum og hann trúði því nær allt til enda að hann myndi hressast og verða betri á morgun en í dag. Hann var ótrúlegur, oft hefur brekkan verið brött og útlitið svart, hann alltaf komið okkur og læknum sínum á óvart með að standa sigri hrósandi á toppi fjallsins. Hann greindist fyrst með briskrabbamein í september 2011. Þá var okkur ekki gefin mikil von um langlífi, mögulega vikur/mánuðir. En í höndum góðra lækna, þá svaraði hann meðferðum svo vel, náði aftur heilsu og sneri aftur til vinnu 8 mánuðum síðar. Vann næstu 5 árin þar til hann þurfti að hætta sökum aldurs er hann stóð á sjötugu. Svo kom bakslagið fyrir um 4 árum, ný meinvörp fundust og næsta orrusta í stríðinu við krabbameinið hófst. Í kjölfarið aftur í geisla- og lyfjagjafir og verkefnið stórt - sem varð alltaf þyngra þar til hann kvaddi okkur 2.desember eftir hetjulega baráttu, sem hann háði af jákvæðni og æðruleysi.

Pabbi minn var einstakur maður. Hann hefur alltaf gert allt fyrir okkur börnin sín og síðar barnabörnin. Hann var með gott geðslag, þolinmóður og ekki mikið fyrir að hækka róminn eða annan æsing. Hann leiðbeindi okkur, kenndi til verka. Þegar ég var 14 ára fór ég t.a.m. að vinna hjá honum á sumrin í fiskverkuninni Korra. Hann var svo góður að leiðbeina, kenna manni hvernig ætti að gera og hans stærsti eiginleiki var hversu fljótur hann var að treysta manni. Ég var ekki búin að vinna í margar vikur þegar mér fannst frábær hugmynd að ég væri á rafmagnslyftaranum innandyra að færa til fiskikör og ganga frá í stafla. Þegar ég hugsa til baka, þá skil ég ekki hvers vegna hann sagði ekki bara nei að það væri alls ekki góð hugmynd. En aldeilis ekki, ég var mætt á lyftarann. Hann labbaði bara á undan, sýndi mér og útskýrði hvernig væri best að gera þetta - og á skömmum tíma var ég orðin ansi liðtæk á lyftaranum þó ég segi sjálf frá. Svona var hann, treysti manni fyrir verkum og að læra, leiðbeindi í rétta átt og lítið um boð og bönn í mínum uppvexti. Sem varð til þess að maður vildi vera traustsins verður, vildi sanna sig og leggja sig fram og síst af öllu valda vonbrigðum. Þetta hefur fylgt mér út í lífið, eiginleikinn að treysta fólki og vilja standa sig þegar aðrir treysta á mann. Held að betra veganesti út í lífið sé erfitt að fá. Að fylgjast svo með honum með barnabörnin síðari árin hefur verið svo yndislegt. Leyfir þeim að taka þátt, hvort sem er að mála, moka snjó eða slá grasið. Alltaf hafði afi pláss og tíma að leyfa þeim að vera með og hjálpa til. Vakna saman á morgnana fyrir austan í sumarbústaðnum þeirra, fara út og flagga íslenska fánanum var mikilvægasta byrjunin á deginum.

Þegar pabbi var hættur að vinna, var Aron Ingi minn að byrja í grunnskóla og tvíburarnir, systur hans, voru á leikskóla. Maðurinn minn fór fyrr í vinnu og kom það í minn hlut að koma krökkunum af stað á morgnana áður en ég fór í vinnu. Á hverjum morgni klukkan 7:45 var pabbi mættur í forstofuna, bauð góðan daginn og fylgdi Aroni í skólann, til að létta undir með mér og fannst ómögulegt að litli sex ára afastrákurinn ætti að labba einn í skólann í myrkrinu. Þetta gerði hann í tvö ár upp á hvern einasta dag, í öllum veðrum og færð. Ég á mynd í huga mér, þar sem ég stend í eldhúsinu snemma morguns og lít út um gluggann, svarta myrkur, kalt og snjór. Sé að pabbi er mættur, er að skafa bílinn minn og hreinsa snjóinn af honum, svo ég eigi það ekki eftir þegar ég kem út - kemur svo inn í hlýjuna að sækja Aron. Þetta lýsir honum svo vel, allir litlu hlutirnir í lífinu sem hann aðstoðaði með og gerði fyrir mann óumbeðinn. Litlir hlutir sem í minningunni eru svo risa stórir.



Pabbi var mikil tilfinningavera og kunni svo vel að tjá þær. Við merkis tilefni í fjölskyldunni, hvort sem var stórafmæli, útskriftir eða brúðkaup. Hafði hann einstakt lag á að taka til máls og áður en langt um leið voru flest okkar komin með kökk í háls og tár á hvarm. Hann var svo hlýr og innilegur, sagði það sem honum bjó í brjósti. Í ófá skipti hefur pabbi minn sagt mér að hann sé stoltur af mér, af því hvernig mér gangi í lífinu og hvað hann elski mig og börnin mín mikið. Ég held að það sé ekki algilt að karlmenn fæddir um miðja síðustu öld, kunni að tjá tilfinningar sínar. Skilst að það sé fágætur eiginleiki, sem pabbi minn hafði svo sannarlega. Þegar ég hitti pabba í síðasta sinn vakandi, síðasta kvöldið fyrir svefninn langa, þá hélt hann utan um mig svo fast, við grétum saman og hann hvíslaði í eyrað mitt: ,,Ég elska þig svo mikið - og ykkur öll. Þetta voru síðustu orðin sem hann sagði við mig í þessu lífi, þau segja svo mikið - segja mikið um hann og okkar innilega feðgina samband.

Eins og söknuðurinn er mikill og kveðjan sár. Þá munu minningarnar og þau forréttindi að hafa átt svo góðan pabba í mínu lífi, með tímanum breyta söknuði í þakklæti.
Takk fyrir allt elsku pabbi minn.



Elsku mamma. Þinn missir er mikill, búin að vera saman frá því þið voruð unglingar. Verður skrítið og erfitt að hugsa næsta lífsins kafla án hans. En þú ert búin að standa þig svo gríðarlega vel í þessu öllu, verið klettur í veikindunum, hann svo heppinn að hafa haft þig sér við hlið allan tímann. Megi góður Guð og minningin um einstakan mann ylja okkur öllum á erfiðum tímum.







Föðurminning



Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabba minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum hér

því hamingjuna áttum við með þér.

xx

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.


xx
Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkar minning þín, elsku pabbi minn.


xx
Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem förum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Denver/Guðrún Sigurbjörnsdóttir)





Þín


Særún.