Leikhús Allra meina bót í Halanum HALA-leikhópurinn frumsýndi síðastliðinn föstudag gamanleikritið "Allra meina bót" eftir þá bræður "Patrek og Pál" í leikstjórn Eddu V. Guðmundsdóttur.

Leikhús Allra meina bót í Halanum HALA-leikhópurinn frumsýndi síðastliðinn föstudag gamanleikritið "Allra meina bót" eftir þá bræður "Patrek og Pál" í leikstjórn Eddu V. Guðmundsdóttur. Hala-leikhópurinn var stofnaður haustið 1992 með það að markmiði "að iðka leiklist fyrir alla". Mikill áhugi var á slíku leikhúsi frá upphafi, því á fyrstu dögum leikhópsins urðu félagar 50 talsins.

Á þessum þremur árum hefur hópurinn fært upp fjögur leikrit og auk þess staðið fyrir fjölda námskeiða. "Allra meina bót" er því fimmta verkið sem ráðist er í, en leikhópurinn hefur nú fengið inni í Sjálfsbjargarhúsinu í Hátúni 12 og er aðstaðan þar í daglegu tali nefnd "Halinn".

Steindór Hjörleifsson leikari hefur fylgst með Hala-leikhópnum frá stofnun og hefur reynst honum dyggur stuðningsmaður. Hann tók upp á sitt einsdæmi að safna fyrir ljósabúnaði og er nú komið þetta fína ljósaborð og kastarar í Halann. Stjórn Hala-leikhópsins ákvað því að gera Steindór að fyrsta heiðursfélaganum. Myndirnar voru teknar á frumsýningarkvöldinu.

Jón Svavarsson

HÖFUNDUR tónlistarinnar, Jón Múli Árnason, og heiðursfélaginn, Steindór Hjörleifsson, voru kallaðir á svið að lokinni frumsýningu.

MARGRÉT Ólafsdóttir, Sonja Backman, Steindór Hjörleifsson, Lilja Dögg Birgisdóttir og Birgir Ísleifur Gunnarsson.

HÉR eru Birna Ármannsdóttir, Sigvaldi Búi Þórarinsson og Silvía Erna Waage í leikhléi.