Niðurrif Mynd þessa segir rýnir vera þá áhrifamestu af ljósmyndum höfundar. Hún fylgir á lausu spjaldi.
Niðurrif Mynd þessa segir rýnir vera þá áhrifamestu af ljósmyndum höfundar. Hún fylgir á lausu spjaldi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arkitektúr Jarðsetning ★★★★★ Eftir Önnu Maríu Bogadóttur. Hönnun og umbrot: Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir. Angústúra, 2022. Kilja í stóru broti, 308 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Ég finn að ég þarf að fanga niðurrif Iðnaðarbankans innan frá. Hverju hefur þessi bygging, sem á að fara að rífa, að miðla? Hvað segir hún um sig, okkur og umhverfið sem hún sprettur úr og rífur hana niður? Hvað hefur þessi táknmynd framtíðarinnar að segja okkur um það sem koma skal? Um upphafið og endalokin? Eilífðina og andartakið? (218) Anna María Bogadóttir spyr þessara spurninga og fjölda annarra áhugaverðra í þessu marglaga, upplýsandi og afar persónulega verki. Verki sem er í senn vel mótað og skrifað og tekst með athyglisverðum hætti á við ýmsar grundvallarhugmyndir um mótun, notkun og sóun í þeim heimi sem við mennirnir höfum búið til fyrir og utan um tilveru okkar. Og í fallega framsettu verkinu notar hún stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu sem einskonar táknmynd fyrir líf mannsins í borg; frásögnina af fæðingu, lífi og dauða byggingar fléttar hún afar vel saman við eigin þroskasögu og hugleiðingar um arkitektúr og þróun hugmynda um nýtingu og sóun í nútímasamfélagi.

Anna María á fjölbreytilega menntun að baki eins og ljóslega sést á vel mótuðum skrifunum, sem byggjast á ítarlegum rannsóknum og lestri, og augsýnilega næmri skynjun á umhverfinu. Hún er arkitekt og menningarfræðingur, með meistaragráðu í arkitektúr frá Columbia-háskóla í New York og MA-gráðu í menningarfræði og M.Sc.-gráðu í hönnun og miðlun frá Upplýsingatækniháskólanum í Kaupmannahöfn. Hún nam líka bókmenntafræði og hefur starfað við menningar- og sýningarstjórn, auk arkitektúrs á ýmsa vegu, og er dósent í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Alla þessa reynslu og rannsóknir nær hún að nýta sér við að móta frásögnina og fella inn í hana fjölþættar hugmyndir og persónulegar reynslusögur.

Jarðsetning hefst með boðun til kveðjuathafnar stórhýsis Iðnaðarbankans, gjörnings sem Anna María stóð fyrir þegar byggingin var jöfnuð við jörðu. Hún stóð jafnframt að gerð kvikmyndar um niðurrifið, með tökumanninum Loga Hilmarssyni. Samkvæmt hefðbundum frásagnarstrúktúr er viðfangsefnið kynnt í byrjun, hugleiðingar um arkitektúr og þetta stórhýsi sem reis á árunum 1959-1962 eftir teikningum arkitektsins Halldórs H. Jónssonar utan um nýjan banka sem var ætlað að styrkja verksmiðju- og handiðnað hér á landi. Fimm hæða steinsteypt bygging með kjallara og efni og áferð „í takt við þá alþjóðlegu strauma sem berast til Íslands um miðja tuttugustu öldina. Hrein og einföld form, sléttpússaðir fletir, sviphreinir útveggir, beinar línur. Stór og opin rými, glæsilegur hringstigi milli hæða.“ (13). Höfundurinn fjallar um þá drauma sem stóðu að baki slíkri uppbyggingu hér á landi upp úr miðri síðustu öld og fjallar um hugmyndir um byggingarlist og notkun manngerðra rýma, með tilvitnunum og stuttum frásögnum um afstöðu og kenningar erlendra áhrifamikilla arkitekta sem og ýmissa sem störfuðu hér á landi, og hvernig hugmyndirnar hafa þróast. Og hafa leitt til þess að fyrrverandi stórhýsinu eigi að fórna fyrir aukið byggingamagn á reitnum, nýja hótelbyggingu. Um kveðjuathöfnina, kvikmyndina og þetta bókverk sitt skrifar Anna María að sér hafi fundist hún þurfa að átta sig á og gangast við hlutverki sínu gagnvart byggingunni sem á að hverfa, þeirri sem rís í staðinn, sem og byggingum almennt – hún sé jú arkitekt. Hún segir okkur síðan sögu eigin ferðalags í átt að skilningi á viðfangsefninu; frá æsku og uppvexti á Eskifirði, unglingsárum í Reykjavík og leit að rétta náminu og verkefnum að takast á við á fullorðinsárum. Það er vel sögð og áhugaverð þroskasaga, ekki síst þar sem undirstaðan og ramminn byggjast alltaf á hugleiðingum um rýmið sem persónurnar lifa og hrærast í. Frásögnin er til að mynda undirbyggð með allskyns vísunum í sögu karllægrar byggingarlistar. Le Corbusier kemur ítrekað við sögu en þegar Charlotte Perriand óskaði eftir því að komast í læri hjá meistaranum var svarið: „Það er ekki verið að bródera nein púðaver hérna“ – Perriand átti þó eftir að sanna sig fyrir Le Corbusier og koma að lykilþáttum verka hans. Á arkitektastofum fyrri tíma var konum samt aðallega ætlað að koma að innanhússskreyti. Meira að segja í Bauhaus-skólanum, sem var opinn konum, var arkitektúrnámið eitt það ekki. „Konur þóttu ekki hæfar til að hugsa í þrívídd og var beint í textíl. Og keramík. Og unnu brautryðjandi verk, sem nú er verið að draga fram úr skugga hönnunarsögunnar.“ (131)

Lesandinn fylgir höfundinum í nám á meginlandi Evrópu og svo til New York þar sem henni verður sífellt ljósara hve karllægt fagið er. Þar rekst hún til dæmis á þessa fullyrðingu eins karlkyns arkitektsins: „Konur hafa jafn mikið ímyndunarafl og karlmenn, bara ekki rétta tegund ímyndunarafls fyrir arkitektúr.“ (150) Frásagnirnar um meðgöngu og barnsfæðingar vestanhafs eru fallegar og enn og aftur áhugaverðar út frá pælingunum um rýmið sem börnin fæðast úr og inn í. Því umhverfið hefur áhrif á svo margskonar vegu eins og við fræðumst um: „Þvert á fléttur tímans getur umhverfið hreyft við okkur, vakið okkur og tengt okkur við tímavíddirnar, það sem er, var og verður. Stund og stað. Hugmyndir og drauma þeirra sem hafa gengið, teiknað, hugsað til framtíðar, byggt, fæðst, lifað og dáið. Á undan okkur. Og þeirra sem koma til með að ganga á eftir okkur. Arkitektúr snýst ekki hvað síst um að byggja fyrir þá sem koma á eftir okkur. Til að vaka yfir þeim. Eins og við vökum yfir okkar eigin börnum. Á sama hátt getur umhverfi svæft okkur. Við getum auðveldlega reist umhverfi sem smættar okkur. Í afmarkaðar og skilvirkar einingar. Tóm.“ (170)

Anna María veltir þá til að mynda fyrir sér hversu sjaldan er fjallað hér á landi opinberlega um arkitektúr af virðingu fyrir byggingarlistinni og segir að á fyrstu skólastigum beri arkitektúr nánast hvergi á góma. „Hætt er við að verðmæti glatist ef ekki er talað af virðingu fyrir þeim, tekist á um þau og reynt að skilja þau út frá ólíkum sjónarhornum og á ólíkum forsendum, þar á meðal forsendum fegurðarinnar,“ skrifar hún og það er alveg satt og umhugsunarefni. Sem leiðir að viðfangsefni verksins, þögninni yfir því þegar byggingum er rústað til að reisa aðrar nýrri. Er það sjálfsagt? Og alltaf þörf á því? Vísað er til að mynda til verka hinna merku og margverðlaunuðu frönsku arkitekta Lacaton og Vassal sem rífa aldrei eða fjarlægja eldri byggingar, heldur bæta aðeins við, umbreyta og endurnýta. Sem er einmitt niðurstaða hugleiðinga höfundarins um Iðnaðarbankahúsið: „Ég skil af hverju það á að rífa bygginguna sem er rökrétt í samhengi fjármagnskerfis dagsins í dag. En samt skil ég það ekki. Því vænsta leiðin er að leyfa henni að standa. Hjálpa henni að lifa áfram og finna henni nýtt hlutverk á forsendum hennar og umhverfisins.“ (207)

En byggingin var rifin og jarðsett og við fylgjumst með því. Og í kjölfarið niðurbroti höfundarins sjálfs, óneitanlega á táknrænan hátt, í einlægri frásögninni.

Hönnun bókarinnar er í áhrifaríku jafnvægi við frásagnarháttinn og nálgunina við umfjöllunarefnið. Hönnunarstofa Snæfríðar Þorsteins og Hildigunnar Gunnarsdóttur annaðist það verk og samkvæmt þakkarorðum í lokin aðallega Snæfríður. Val á leturgerðum, litatónum á síðum sem veita andrými, og pappír er allt afar vel lukkað. Þá eru 36 myndaopnur í bókinni og vel staðsettar í textaflæðinu; framarlega tveir svarthvítir myndakaflar sem sýna byggingu, notkun og mannlíf í og við Iðnaðarbankahúsið – það eru myndir úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þegar niðurrifinu er lýst kemur ein áhrifarík opna með mynd af rústinni, og aftast er síðan viðamesti myndakaflinn og í lit, þar sem niðurrifið er sýnt. Bókinni fylgir sú áhrifamesta af þeim myndum prentuð á þykkt spjald og nýtist sem bókarmerki meðan lesið er og mögulega veggspjald eftir lesturinn – á myndinni er horft gegnum rimla tætts steypustyrktarjárns af efstu hæðinni í átt að Tjörninni og húsunum við Tjarnarbakkann sem eru eldri en fá samt að standa, meðan þetta glæsihýsi var brotið niður og jarðsett. Í gjörningi sem vekur fjölda áhugaverðra spurninga, um „upphafið og endalokin“, „eilífðina og andartakið“, sem tekist er á við í þessu áhrifaríka verki.