Steinunn Guðrún Geirsdóttir, kölluð Lillý, fæddist 31. janúar 1930 í Reykjavík. Hún andaðist 27. janúar 2023. Foreldrar hennar voru Rebekka Konstantína Þorsteinsdóttir húsmóðir, f. 1899, d. 1945, og Geir Magnússon verkamaður, f. 1897, d. 1954. Bræður Steinunnar eru Magnús, f. 1931, d. 2010; Ágúst, f. 1933; Valgeir, f. 1935, d. 1963; Geir, f. 1939; Þorsteinn, f. 1941, d. 2010; og Sigurður, f. 1943, d. 2022.
Steinunn giftist Ingvari Þorsteinssyni húsgagnasmíðameistara árið 1951, f. 1929, d. 2019. Börn þeirra eru: 1) Rebekka, f. 1951, d. 2008, eftirlifandi eiginmaður er Einar Ágúst Kristinsson. Börn þeirra eru Ingvar Örn, f. 1981, sambýliskona Íris. Anna Kristrún, f. 1991, eiginmaður Jóhannes. Þeirra börn eru Anton Einar, Rebekka Rún og Brynjólfur Erik.
2) Bergljót Erla, f. 1954. Dóttir hennar og Markúsar Sigurbjörnssonar er Steinunn Guðrún, f. 1974, sambýlismaður Gunnar. Börn Steinunnar eru Bergljót Sunna og Markús Sólon. Dætur Bergljótar Sunnu eru Isabella Karin og Talía Móeiður.
Ásta Bjarndís, f. 1985, eiginmaður Guðmundur Helgi. Faðir Ástu er Bjarni Eyvindsson, f. 1957, d. 2014. Börn Ástu Bjarndísar eru Jasmín Ósk, Auður Ýr og Bjarni Thor.
3) Ásta, f. 1955, d. 2008. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Brynjólfur Eyvindsson. Börn þeirra eru Auður, f. 1976, börn hennar eru Hákon og Ásta Kristín. Inga Lillý, f. 1979. Eiginmaður Þorsteinn, börn þeirra eru Ásta Rebekka, Gunnar Freyr og Brynjólfur Þór. Bjarni, f. 1985. Sambýliskona Sigrún, börn þeirra eru Ívar Óli og Brynjar Þór.
4) Þorsteinn, f. 1960, eiginkona Ragna Gústafsdóttir. Börn þeirra eru Ingvar, f. 1994, sambýliskona Rebekka Helga. Sigríður Alexandra, f. 1996, sambýlismaður Andri, börn þeirra eru Amilía og Adrían.
5) Geir Örn, f. 1967, sambýliskona Anný Lára Emilsdóttir. Börn hans eru Gunnar Ingi, f. 1992, eiginkona Ásdís, börn þeirra eru Esther og Viggó. Steinunn Gróa, f. 1996, sambýlismaður Aron, börn Kristófer Örn og Daníel Rafn. Móðir Gunnars Inga og Steinunnar Gróu er Hallveig Ragnarsdóttir.
Lillý gekk í Miðbæjarskólann en hætti námi 15 ára þegar móðir hennar lést til að aðstoða við heimilsstörf og uppeldi bræðra sinna. Lillý og Ingvar kynntust á unglingsárum og voru alla tíð mjög samheldin. Þau ferðuðust um heiminn og ávallt var gestkvæmt á heimili þeirra. Lillý stundaði nám í málaralist í Myndlistarskóla Rvk frá fimmtugsaldri og eftir hana liggja fjölmörg verk. Hún saumaði rúmfatnað fyrir Ingvar og Gylfa, síðar Ingvar og syni í áratugi. Síðustu stundirnar dvaldi hún á hjúkrunarheimili.
Steinunn verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 9. febrúar 2023, kl. 15.

Í dag kveð ég elsku ömmu mína í hinsta sinn. Ég átti að fæðast í febrúar fyrir 49 árum, en mér lá á til þess að hitta á afmælisdag ömmu þann 31. janúar.

Ég var fyrsta barnabarnið og því kom ekkert annað til greina hjá foreldrum mínum en að skíra mig í höfuðið á henni. Fyrir það er ég afar þakklát því betri fyrirmynd er vandfundin og ber ég nafn hennar stolt. Hún var ekki bara amma mín, heldur önnur móðir og besta vinkona í næstum hálfa öld.
Minningarnar eru óteljandi, en ég ólst upp fyrstu sjö árin mín í kjallaranum í Kvistalandi 1, hjá ömmu og afa, þar sem stórfjölskyldan öll bjó. Það voru útbúnar tvær íbúðir þar fyrir þær systurnar, mömmu, Ástu og maka þeirra og fyrstu börn. En amma, afi og Steini og Geiri móðurbræður bjuggu á efri hæðinni. Þar var mikið líf og fjör, enda voru þau amma og afi bæði mikið fjölskyldufólk og vinamörg í þokkabót en það var mikið um veisluhöld, þar sem grillað var á pallinum, sungið og spilað á píanó.

Þau hjónin, afi Ingvar og amma Lillý, áttu mjög farsælt hjónaband, allt frá unglingsárum til æviloka, enda voru þau alltaf bestu vinir og afar samheldin. Þau ferðuðust víða um heiminn og söfnuðu í minningabankann ógleymanlegum stundum saman. Amma var mikil barnagæla og passaði okkur barnabörnin mikið, mig sjálfa á daginn frá tveggja vikna aldri, því mamma tók ekki lengra frí frá náminu svo hún gæti lokið því á réttum tíma.

Þetta þótti ömmu bara dásamlegt, því við barnabörnin voru augasteinarnir hennar og sóttum mikið í hana, öll sem eitt.

Amma var alltaf smart og vel til höfð og fór vikulega í lagningu, en eftir að ég byrjaði að læra hárgreiðslu þá hlotnaðist mér sá heiður í rúm 33 ár að gera hárið á henni fínt. Hún klæddi sig í hámóðins fatnað til æviloka og átti skósafn sem var svo flott að við mamma fengum báðar lánaða hjá henni skó.

Amma var líka mikil lista- og handverkskona, hún saumaði og prjónaði á börnin sín og allt í nýjustu tísku, en hún fylgdist ávallt vel með tískustraumum og dætur hennar þrjár nutu heldur betur góðs af, því þær fengu saumaðar flíkur eftir pöntun. Öll dressin hvert öðru flottara!

Saumaskapurinn rataði síðan í húsgagnaverslanir afa, fyrst í Ingvar og Gylfa og svo síðar í Ingar og syni, þar sem hún saumaði teygjulök í áratugi, sem ekki voru til á landinu á þeim tíma.

Hún stundaði málaralist í Myndlistarskólanum í Reykjavík frá fimmtugsaldri með vinkonu sinni og málaði í 30 ár. Mörg glæsileg málverk liggja eftir hana og við stórfjölskyldan eigum flest öll frábær verk frá henni.

Amma átti margar góðar vinkonur og mágkonur sem daglega hittust í kaffibolla og þar var mikið spjallað og hlegið. Enda var amma svo skemmtileg og mikil húmoristi. Heimsókn til ömmu og afa var alltaf gleðistund og þar voru oftar en ekki margir fjölskyldumeðlimir og gestir sem gaman var að hitta. Hún var börnum mínum, Beggu, Sunnu og Markúsi Sóloni, einstök langamma og þau langafi Ingvar bæði miklar fyrirmyndir þeirra.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég fékk leyfi frá Beggu Sunnu til þess að segja ömmu að ég væri að verða amma. Afi var þá orðinn alvarlega veikur og amma var döpur og hrædd um hann. Ég fór að heimsækja hana og sagði henni fréttirnar. Fyrstu viðbrögð voru risastórt bros og svo fylgdi eftir hlátur yfir því að ég væri að verða amma og svo biddu er dóttir mín að verða langamma? svo skellhló hún!

Næst kom hvað verð ég eiginlega löng? Sem uppskar enn meiri hlátur. Þvílík gleðistund.

Við náðum að verða sex konur, með Isabellu og Talíu, ömmustelpunum mínum og fimm ættliðir í beinan kvenlegg. Það er heldur betur afrek.

Ég er sorgmædd í dag, en veit að sorg er ást sem ekki kemst lengur til skila. Ég ylja mér við að nú er hún farin að hitta ástkæra afa og dætur þeirra tvær, Rebekku og Ástu, sem hún saknaði svo mikið og sárt. Minningin um einstaka ættmóður og dásamlega ömmu mun lifa með mér um ókomna tíð.


Steinunn Guðrún Markúsdóttir