Steinþór Oddgeirsson fæddist 17. nóvember 1970 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 8. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Oddgeir Hárekur Steinþórsson húsasmíðameistari, f. í Ólafsvík 13. apríl 1931, d. 31. maí 2011, og Ingibjörg Sólrún Guðmundsdóttir, fv. starfsmaður heimilishjálpar í Reykjavík, f. á Látrum í Aðalvík 29. janúar 1936.

Systkini Steinþórs eru Guðmundur, f. 25. mars 1957, Margrét, f. 17. mars 1958, Rúnar, f. 2. nóvember 1960, Þorbjörg, f. 14. maí 1962, og Vignir Örn, f. 6. september 1975.

Steinþór var í sambúð með Margréti Júlíu Júlíusdóttur, f. 2. apríl 1976, dóttir þeirra er Tinna, f. 15. mars 2007.

Hinn 6. desember 2019 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Rannveigu Konráðsdóttur, f. 21. nóvember 1975. Synir hennar eru Óðinn Ísaksson, f. 1. október 2004, og Bjarki Ísaksson, f. 16. febrúar 2008. Foreldrar Rannveigar eru Konráð Einarsson, f. 4. desember 1948, og Unnur Katrín Þórarinsdóttir, f. 26. desember 1952.

Steinþór ólst upp í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík, Háagerði. Skólagangan var Breiðagerðisskóli, Réttarholtsskóli og Menntaskólinn við Sund þar sem hann útskrifaðist sem stúdent. Stundaði um tíma nám við Háskóla Íslands í sagnfræði og ensku. Vann lengst af sem lagerstjóri hjá sérvörulager Hagkaups, Heildverslun S. Egilssonar, Hýsingu vöruhóteli og hjá lyfjafyrirtækinu Distica þar til hann lét af störfum vegna veikindanna. Steinþór var félagi og stjórnarmaður í Lionsklúbbi Þorlákshafnar á þeim tíma sem hann bjó í Þorlákshöfn.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. febrúar 2023, klukkan 13.

Ég held að fyrsta minningin sem á af Steinþóri eða Steina eins og hann var kallaður þegar ég var svona þriggja ára. Við bræðurnir höfðum hætt okkur í leiðangur að kanna hverfið. Höfðum farið í húsalengjuna sem var fyrir ofan og sáum krakka sem voru að leik fyrir utan húsið númer 67. Fyrstu kynni voru smá feimnisleg eins og oft vill verða en síðar fórum við bræðurnir að venja komur okkar og smá saman myndaðist vinátta sem hefur haldist allar götur síðan. En við urðum miklir vinir og stunduðum marga leiki saman og var heimili foreldra Steina okkar helsti leikstaður enda var okkur veitt mikið frelsi til leiksköpunar. Til að mynda þá áttum við til með að leggja undir okkur nánast alla stofuna enda höfðum við mikinn metnað á að búa til sem stærstar borgir í bílaleikjum okkar.
Eitt sinn höfðum við byggt borg sem þakti stóran hluta stofunnar svo mikið að Oddgeir faðir Steina átti í erfiðleikum með að horfa á kvöldfréttirnar og kvartaði yfir því við Ingibjörgu. En hún kvað við að Þetta væri einhver leikur hjá strákunum og ekkert mátti hreyfa við. Svona var þetta stundum á heimili Steina.
En síðar uxu af okkur svona leikir og fótbolti átti hug okkar mikið enda spiluðum við marga leikina við hvorn annan og fleiri stráka sem slógust í hópinn. Þá var það gjarnan að við völdum okkur eitthvert lið sem var í uppáhaldi Steini valdi sér gjarnan Þýskaland enda var það sennilega uppáhalds land hans. En sennilega var það mikið svekkjandi þegar Þýskaland tapaði útslitaleik á HM 1982 á móti Ítalíu við höfðum báðir haldið með þeim og töldum að sigur Ítala hefði verið ósanngjarn en gleymdum því fljótt með því að spila bara fótboltaleik við einhverja stráka og vinna þá bara.

Líka minnist ég allra hjólatúranna sem við fórum á sumrin og voru þeir oft í Elliðaárdalinn þar sem mörg ævintýri biðu okkar og var það mjög gaman. Einnig fórum við í ferðir í Öskjuhlíðina þar sem við lékum okkur í gömlu rústunum frá hernáminu. Það voru spennandi leikir sem oft snerust um verja landið fyrir innrás óþekkts innrásarliðs. En Steini hafði mikinn áhuga á seinni heimstyrjöldinni og það má segja að hann hafi nokkurn veginn smitað mig af þeim áhuga.
Steini las mjög mikið af bókum um heimsstyrjöldina og voru bækur eftir Sven Hassel í miklu uppáhaldi hjá honum og það gerði það að verkum að hann valdi sér oft hlutverk Þjóðverja í leikjum sem snerumst um heimstyrjöldina. Þá spilaði ég gjarnan sem einn af bandamönnum Breti eða Bandaríkjamaður og áðum við mikla bardaga með módelum, tindátum og fleiru sem við notuðum til að gera þessar senur sem raunverulegastar. Við lögðum mikinn metnað í að gera allt sem raunverulegast með því að mála og stilla upp þessum senum eins og hugsast var. Eyddum við mörgum stundum í að líma og mála þessi tól sem við vorum að setja saman og oft fór miklu meiri tími í það en einhvern leik og var það í raun miklu skemmtilegra og leikurinn.
Síðar fór tæknin að gera innrás í líf okkar og um fermingar þá eignuðumst við okkar fyrstu tölvu Steini fékk sína tölvu ári á undan mér í fermingargjöf frá Rúnari bróður sínum en ég mína ári síðar [enda einu ári yngri en Steini]. Þá hófst nýtt tímabil hjá okkur tölvuleikirnir! Þar sem við spilum marga leiki oft langt fram á nótt við lítinn fögnuð foreldra okkar. Þar voru spilaðir leikir á litlu tölvunnar Sinclair Spectrum eins og Attic Attack, Manic Miner, Jet Set Willy og margir fleiri. Þetta voru skemmtilegir tímar og mjög nýtt og spennandi að spila þessa leiki. Smá saman var tölvubúnaðurinn uppfærður í nýrri og betri búnað með tilkomu Commodore og loks PC-tölva. Þegar við vorum komnir í menntaskóla þá vorum við farnir að spila strategíska hernaðarleiki og þar það eins og fyrr spilað langt fram á nótt og helgar lagðar undir slíka spilun. Það var sem fyrr að sögusviðið var seinni heimstyrjöldin en einnig kaldastríðið.
En við vorum ekki bara að leika okkur í tölvuleikjum á þessum unglingsárum fótboltinn átti enn hug okkar og fórum við oft að spila fótbolta með hópi af strákum en síðar kemur svo körfuboltinn og tók hann nokkurn veginn yfir þann leik sem við spiluðum þegar við höfðum tök. Það spilaði Steini gjarnan stöðu miðherja enda var hann hávaxinn. Þetta voru leikir sem voru spilaðir oft allar helgar og öll kvöld sama hvernig veðrið var en vorin og sumrin aðaltíminn sem körfubolinn var spilaður.
Ógleymanlegar eru ferðir okkar í Þórsmörk sem við fórum nokkur sumur í röð, þar sem við skemmtum okkur konunglega í góðum félagsskap með vinum okkar. Þar var farið nokkur ár í röð og lífsblómið vætt aðeins. En sennilega er ein skemmtilegasta ferðin þegar við fórum með stórum hópi í Landmannalaugar þar sem farið var á nokkrum fólksbílum og þeir sem þekkja það að það þarf að fara yfir nokkrar óbrúnaðar ár og allir komust við yfir án nokkurs tjóns nema stuðarinn datt af einum bílnum en Steini dó ekki ráðalaus og festi hann á aftur með plasti af bjórkippu!

Síðan þegar við eltumst fórum náttúrulega að hittast sjaldnar, kærustur komu inn í spilin og strembnara nám (Háskólanám) og vinna sem tók sinn tíma. En við héldum alltaf sambandi og hittumst reglulega og það var gaman að hitta Steina og hlusta á tónlist með honum. Minnist ég þá helst að hann kynnti mér hljómsveitir sem áttu eftir að verða uppáhaldshljómssveitir mínar, svo sem Metallica, Guns in Roses, Led Zeppelin, Deep Purple og margar fleiri. Því má segja að Steini hafi haft nokkur áhrif á tónlistarsmekk minn og gert mig að rokkara. Tel ég að það hafa verið góð skipti. Þá koma upp í hug minn allir þeir tónleikar sem við sóttum og ber þar hæst þegar Metallica kom hérna sumarið 2004 eða þegar við fórum á Skagarokk 1992 og sáum Black Sabbath. Einnig er mér minnisstætt Risarokkið sem var haldið í Kaplakrika þar við sáum Quireboys og Poison. En það voru margir aðrir tónleikar sem við sáum en engir voru þeir íslenskir einungis erlendar rokk hljómsveitir þegar þær heiðruðu landann með komu sinni.
Steini var mér ávallt hjálplegur, þegar sú staða koma upp að bílar sem ég átti tóku uppá því að bila þá var alltaf hægt að hringja í Steina og hann kom og reddaði því. En ég stend alltaf í þakkarskuld við Steina fyrir alla hjálpina sem hann veitti mér þegar ég keypti mína fyrstu íbúð þar sem Steini nánast lagði allt parketið fyrir mig með smá aðstoð frá mér.
Eftir aldamótin hittumst við sjaldnar enda ég kominn með mína fjölskyldu og Steini sína. En við héldum alltaf sambandi og hittumst reglulega þó að það hafi ekki verið eins oft og vera vildi. En við höfðum alltaf ýmis plön sem því miður urðu ekki að veruleika: Draumur okkar þegar við vorum ungir og ólofaðir var alltaf að keyra þvert yfir Bandaríkin og þar sérlega að fara um Suðurríkin því miður varð ekki af þessari ferð okkar og eða þá sem hefði verið raunhæfari að fara til Evrópu og skoða hina ýmsu sögustaði úr seinni heimstyrjöldinni og söfn tileinkuð því stríði. En við ræddum það nokkuð síðustu árin sem hann lifði að fara í slíka ferð. En af því varð ekki - því miður.
En nú kveð ég þig í hinsta sinn minn kæri vinur og er ég mjög þakklátur fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman og þá sérstaklega í æsku. Það sem ég segi frá hérna er aðeins brot af öllu því sem við gerðum og tókum fyrir okkur en nú lifir bara minningin ein.
Hvíl í friði Steini minn, ég mun ávallt sakna þín.

Þinn vinur Árni Ingólfsson