Jón Jóns Eiríksson fæddist 24. janúar árið 1934 á Suðurgötu 124, Akranesi. Hann lést 29. maí á sjúkrahúsi Akraness og lætur eftir sig eiginkonu, fimm syni, 21 afabarn, 41 langafabarn og þrjú langalangafabörn.

Jón var sonur hjónanna Guðveigar Jónsdóttur, f. 17. mars 1908, d. 4. júlí 2002, og Eiríks Tómassonar Jónssonar, f. 26. febrúar 1909, d. 18. október 2001. Jón átti tvær systur, Agnesi Eiríksdóttur, f. 1932, d. 2012 og Sigrúnu Eiríksdóttur, f. 1944. Uppeldissystir Jóns er Kolbrún Eiríksdóttir, f. 26. mars 1953.


Eftirlifandi eiginkona Jóns er Rut Hallgrímsdóttir, f. 1936 og áttu þau sex börn saman, fimm eru eftirlifandi.

Eiríkur Jónsson, fæddur 1954, giftur Sigurlín Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn, Ásgeir Þór lést 2021, Rut og Ríkey Jóna. Barnabörn þeirra eru sex.

Ingibergur Helgi, fæddur 1955 giftur Valnýju Benediktsdóttur og eiga þau þrjú börn, Jón Gunnar, Hjálmar Þór og Elis Veigar. Barnabörn þeirra eru fjögur og barnabarnabörnin tvö.

Halldóra Halla, fædd 1956, lést 2022, gift Sigurbaldri Kristinssyni og eiga þau sex börn, Guðnýju, Jón Hartmann, Hrein, Marín Rut, Stellu Eyrúnu og Sindra Má. Barnabörn þeirra eru 18 og barnabarnabarn er eitt.

Guðni Örn, fæddur 1958 og á hann þrjú börn, Guðnýju, Örnu og Jón Ragnar. Barnabarn hans er eitt.

Stefán, fæddur 1960, giftur Hallveigu Skúladóttur og eiga þau tvö börn, Árna Frey og Bjarna Má. Barnabörn þeirra eru sex.

Hallgrímur Agnar, fæddur 1967 giftur Dalrósu Jónsdóttur og eiga þau fjögur börn, Rut, Jón Sævin, Ernu Helgu og Þorstein Agnar. Barnabörn þeirra eru sex.

Jón ólst upp á Akranesi á Suðurgötu 124. Hann fór ungur að vinna í uppskipun, í niðursuðuverksmiðju og nokkur sumur í hvalnum. Hann stundaði einnig sjómennsku og átti trillu. En lengst af vann hann í Sementsverksmiðjunni á Akranesi.

Jón byggði hús að Höfðabraut 2 á Akranesi með föður sínum og þar bjó hann með Rut eiginkonu sinni ásamt börnum þeirra. 1978 flytja Rut og Jón að Gröf í Hvalfjarðarsveit og bjó hann þar til æviloka.

Útför Jóns fer fram frá Akraneskirkju í dag, 7. júní 2023, klukkan 13.

Faðir okkar lést 29. maí síðastliðinn. Það reiknaði enginn með að hann myndi kveðja þessa jarðvist þennan dag, það heilsuhraustur var hann og hans er sárt saknað. Það er ekki hægt að skrifa þessa minningargrein um pabba án þess að hafa mömmu með, sem lifir mann sinn, það samrýnd voru þau, enda búin að búa saman í 70 ár.

Harmur móður okkar er mikill. Á stuttum tíma hefur hún misst einkadóttur sína og barnabarn sitt. Pabbi hittir þau fyrir í Sumarlandinu og við erum vissir um að þau eru farin að gróðursetja með honum.

Verkaskipting pabba og mömmu var mjög skýr. Þegar við vorum að alast upp á Akranesi sá mamma um heimilið og pabbi um að útvega heimilinu lífsviðurværi. Enda var haft eftir pabba: Maður verður að hafa vinnu. Það er fyrir mörgum að sjá. Hann vann mikið alla tíð og var hörkuduglegur, hafði mikið verksvit og var lausnamiðaður og hann deildi þessum kostum sínum til okkar og var gjafmildur með eindæmum.

Það var dásamlegt að sjá hvað pabbi og mamma gátu gert mikið úr nánast engu. Þau höfðu ekki mikið á milli handanna. Við minnumst þess ekki að mat hafi nokkurn tímann verið hent á okkar uppvaxtarárum. Mamma gerði veislumat úr afgöngum.

Það var dásamlegt að sjá þau kyssast á eldhúsgólfinu um 1970. Tilefnið var að þetta var í fyrsta skiptið sem endar náðu saman yfir mánuðinn, þyrftu ekki að fá skrifað fyrir mat, mamma var farin að vinna úti. Það var siður hjá pabba að kyssa mömmu eftir hverja máltíð og þakka henni fyrir matinn.

Pabbi og mamma gerðu allt í sínu valdi til að við öðluðumst gott líf systkinin og meira en það þegar horft er til baka.

Pabbi greiddi götu margra án þess að segja viðkomandi frá því, gerði það í kyrrþey, og hann gortaði sig aldrei af því. Hann var líka bóngóður maður og hjálpaði okkur systkinunum mikið með vinnu sinni, dugnaði og studdi okkur andlega. Pabbi hafði einn slæman galla; hann hafði yfirdrifna ábyrgðartilfinningu. Hann mátti ekki sjá að einhverjum liði illa eða gerði mistök. Hann hefði viljað vera til staðar og koma í veg fyrir að viðkomandi liði illa eða gerði mistök. Ábyrgð sem enginn bað hann að hafa. Þetta háði honum og leið honum oft illa út af þessu.

Hann var málefnalegur og mikill fræðari, hann kynnti sér marga hluti og var víðlesinn. Hann hafði einn sjaldgæfan kost; hann leit á allar manneskjur sem jafningja, enda gat hann talað við alla og talaði tungumál allra. Eitt sumarið í sementsverksmiðjunni var hann handlangari hjá Dana. Það var dásamlegt að fylgjast með þeim. Allt sumarið talaði pabbi við hann á íslensku með smá handapati og Daninn við hann á dönsku. Samvinna þeirra gekk vel með eindæmum.

Það var sagt að pabbi væri mikill gramsari. Hann henti engu og gaf hlutum nýtt líf. Byggingarnar sem pabbi og mamma byggðu í Gröf eru að stórum hluta efni úr öðrum húsum sem voru rifin og efni sem átti að henda. Pabbi fékk að taka það sem var nýtanlegt úr húsunum og tók hann okkur systkinin með í þessa vinnu og var það lærdómsríkt. Þarna var karlinn hálfri öld á undan sinni samtíð.

Pabbi var í Skógræktarfélagi Skilmannahrepps í 60 ár, enda heiðursfélagi ásamt félögum sínum, Oddi, Guðjóni og Bjarna. Margir aðrir unnu líka í skógræktinni. Í lok vinnudags var alltaf kaffi og með því, sem makar sáu um. Gróðurrækt var hans yndi og lífsfylling.

Pabbi og mamma byggðu sér fallegt heimili, griðastað, í Gröf og fluttu þangað 1978. Heimili sem tók öllum með opnum örmum. Þaðan fór maður ríkari en þegar þangað var komið.

Landið sem húsið þeirra stendur á var örfoka melur. Það höfðu ekki margir trú á því að þarna væri hægt að rækta nokkurn hlut. Pabbi og mamma hafa afsannað þá kenningu. Þegar pabbi var að hlífa fyrstu gróðursetningunni batt hann saman bretti sem skjólbelti. Í dag eru skjólbeltin orðin nokkuð mörg. Við húsið þeirra er margverðlaunaður garður; garður þar sem móðir okkar sá um að gróðursetja fjölærar jurtir og ræktaði sumarblóm. Pabbi sá um trén.

Að rækta garðinn með þessum hætti lýsir hvernig samvinna þeirra var alla ævi, þau vógu hvort annað upp og höfðu skýra verkaskiptingu og útkoman var margverðlaunaður skrúðgarður.

Það er hægt að enda þessa stuttu minningargrein um pabba á að allt sem hann hefur komið nálægt um ævina mun vaxa og dafna um ókomna tíð, hvort heldur það eru afkomendur eða skógræktin.

Eiríkur, Ingibergur Helgi, Guðni Örn, Stefán og Hallgrímur Agnar.