9. maí 1995 | Erlendar fréttir | 2092 orð

SIGUR CHIRACS Í FRAKKLANDI Allt er þegar þrennt er Eftir sigur Jacques Chiracs í

SIGUR CHIRACS Í FRAKKLANDI Allt er þegar þrennt er Eftir sigur Jacques Chiracs í forsetakosningunum á sunnudag hafa hægrimenn tögl og hagldir í frönskum stjórnmálum, segir Steingrímur Sigurgeirsson, blaðamaður Morgunblaðsins í París.

SIGUR CHIRACS Í FRAKKLANDI Allt er þegar þrennt er Eftir sigur Jacques Chiracs í forsetakosningunum á sunnudag hafa hægrimenn tögl og hagldir í frönskum stjórnmálum, segir Steingrímur Sigurgeirsson, blaðamaður Morgunblaðsins í París. Vinstrimenn geta þó huggað sig við það að Lionel Jospin virðist hafa tekist að blása lífi í hreyfingu þeirra á ný þó að bið verði á því að þeir komist til valda.

SLAGINU átta um kvöldið birti franska sjónvarpið fyrstu tölurnar. Þegar andlit Jacques Chiracs og talan 52,2% birtist á skjánum brutust út gífurleg fagnaðarlæti hjá þeim þúsundum stuðningsmanna hans, sem höfðu komið saman annars vegar við ráðhús Parísar, H^otel de Ville, og hins vegar fyrir utan höfuðstöðvar Chiracs við Avenue d'Iéna. Vonbrigðin leyndu sér hins vegar ekki hjá stuðningsmönnum Jospins, sem komið höfðu saman við höfuðstöðvar hans í austurhluta borgarinnar. Margir grétu og innan skamms fóru menn að tygja sig burt.

Veisla stuðningsmanna Chiracs var hins vegar rétt að byrja. Fyrir utan ráðhúsið beið mannfjöldinn eftir ávarpi Chiracs, en hann hafði beðið úrslitanna í hinum glæsilega veislusal H^otel de Ville. Fólkið hrópaði til skiptis "við höfum sigrað" og "Chirac forseti" og aftur og aftur sungu menn franska þjóðsönginn, La Marseillaise. Fjórtán ára bið hægrimanna var á enda.

Klukkan fimm mínútur yfir níu lýsti Chirac yfir sigri og ávarpaði stuðningsmenn sína og frönsku þjóðina. "Ég verð forseti allra Frakka. Ég geri mér grein fyrir þeirri ábyrgð sem ég hef axlað og þeim erfiðu verkefnum, sem bíða," sagði Chirac og lagði áherslu á að hann hygðist stefna að því að yfirstjórn ríkisins einangraðist ekki frá þeirri þjóð, sem hefði kosið hana.

"Mikilvægasta barátta okkar verður baráttan við atvinnuleysið. Hin hefðbundnu meðul hafa brugðist. Það verður að nálgast vandamálið á nýjan hátt, grípa til nýrra aðferða. Áður en við tökum ákvarðanir verðum við ávallt að velta því fyrir okkur hvort að þær bæti atvinnuástandið. Allt verður reynt, einskis verður látið ófreistað," sagði Chirac og bætti við að á sama tíma yrði þetta barátta gegn því að stórir hópar yrðu útilokaðir frá samfélaginu.

Hann sagði markmið sitt vera að Frakkland yrði á ný "land frelsis, land bræðralags, jafnra tækifæra og land samstöðu". Að Frakkland héldi varðstöðu um mannréttindi í heiminum, yrði leiðandi í þróun Evrópusambandsins, þjónn friðar og velmegunar í álfunni. "Lifi lýðveldið, lifi Frakkland," þrumaði Chirac í lok ræðu sinnar og fagnaðarlætin ætluðu aldrei að taka enda.

Flautur þeyttar

Allt kvöldið og alla nóttina voru flautur bifreiða þeyttar um götur Parísar og annarra borga Frakklands og tugir þúsunda hófu að streyma til Place de la Concorde þar sem sigurhátíð stuðningsmanna Chiracs stóð langt fram á nótt. Hundruð þúsunda ungmenna komu saman til að hlýða á rokktónleika og fagna sigri með kampavíni. Að miklu leyti til voru þetta ungmenni í kringum tvítugt, sem voru enn lítil börn er Mitterrand, fráfarandi forseti, náði fyrst kjöri fyrir fjórtán árum. "Árið 1974 sýndi Giscard vinstrimönnum fram á að þeir höfðu ekki einkarétt á því að hafa hjarta. Nú sýnum við vinstrimönnum fram á að þeir hafa ekki einkarétt á ungum kjósendum, Chirac-kynslóðin hefur tekið við af Mitterrand-kynslóðinni," sagði eitt ungmennanna á Place de la Concorde.

Kosningakannanir benda þó til að meirihluti yngstu kjósendanna, á aldrinum 18­24 ára, hafi kosið Jospin.

Bastillutorgið, þar sem vinstrimenn fögnuðu sigri eftir sigur Mitterrands árið 1981, og til stóð að halda hugsanlega sigurhátíð Jospins, var hins vegar autt að frátöldum ferðamönnum.

Hlaut 52,7% atkvæða

Eftir að hafa heimsótt höfuðstöðvar sínar við Iéna brunaði Citro¨en-bifreið Chiracs um götur miðborgarinnar og hinn nýkjörni forseti veifaði ásamt eiginkonu sinni Bernadette út um opinn gluggann í aftursætinu til vegfarenda sem fæstir áttu von á að komast í slíkt návígi við forsetann. Að þessu búnu hélt hann til ráðhússins á ný til að undirbúa sig undir fyrsta vinnudaginn og hvíla sig eftir langa og erfiða baráttu.

Þegar upp var staðið hlaut Chirac tæp 52,7% atkvæða en Jospin rúmlega 47,3%. Til samanburðar má geta þess að Mitterrand var kjörinn með 51,76% atkvæða árið 1981 og endurkjörinn með 54,01% atkvæða árið 1988. Valéry Giscard d'Estaing hlaut 50,81% atkvæða árið 1974, Charles de Gaulle 55,20% árið 1965 og Georges Pompidou 58,21% árið 1969.

Því má þó ekki gleyma að þegar Pompidou var kjörinn greiddu 31,15% þjóðarinnar ekki atkvæði, þar sem leiðtogar kommúnista hvöttu kjósendur sína til að sitja heima á kjördag. Nú á sunnudag greiddu 19,63% Frakka ekki atkvæði, sem er nokkuð hærri tala en í undanförnum kosningum. Árið 1988 greiddu 15,93% ekki atkvæði, 14,15% árið 1981, 12,67% árið 1974 og 15,68% árið 1965. Nokkuð fleiri greiddu þó atkvæði í síðari umferð kosninganna en í þeirri fyrri en þá sátu rúmlega 21% kjósenda heima. Af þeim sem greiddu atkvæði skiluðu um 6% auðu, sem er töluvert hærri tala en í fyrri forsetakosningum. Vekur athygli að algengast var að kjósendur skiluðu auðu eða kusu ekki í þeim kjördæmum þar sem þjóðernissinninn Le Pen eða Edouard Balladur forsætisráðherra náðu bestum árangri í fyrri umferðinni.

Svo virðist sem kjósendur Le Pens hafi skipst á milli þeirra Chiracs og Balladurs og í mörgum kjördæmum, þar sem Le Pen vann sigur í fyrri umferðinni, jók Jospin fylgi sitt mjög.

Óljóst hvenær Chirac tekur við

Þó að Chirac hafi ekki unnið yfirburðasigur í kosningunum voru úrslitin ótvíræð. Að auki er það nokkur styrkur fyrir Chirac að hafa náð kjöri án þess að það hafi verið kjósendum Le Pens að þakka. Tvennt kemur þar aðallega til. Annars vegar sækir Le Pen fylgi sitt í ríkum mæli til óánægðra og atvinnulausra verkamanna, löngum eins dyggasta stuðningshóps franskra kommúnista, og hins vegar hafa franskir gaullistar (síðar nýgaullistar með stofnun flokksins RPR árið 1976) verið helstu andstæðingar hægri öfgaafla í Frakklandi. Má rekja það aftur til baráttunnar gegn Vichy-stjórninni í síðari heimsstyrjöldinni og stríðsins í Alsír.

Ekki er enn fyllilega ljóst hvenær Chirac tekur formlega við völdum. Samkvæmt frönskum lögum er ekki hægt að skipa nýjan forseta í embætti fyrr en Stjórnlagaráðið, Conseil constitutionnel, hefur lagt formlega blessun sína yfir úrslit kosninganna. Hefur ráðið allt að tíu daga til að fara yfir úrslitin. Kjörtímabili Mitterrands lýkur á miðnætti þann 20. maí, en hann hefur gefið í skyn að hann hafi hug á að láta af embætti fyrr. Það er því ekki óhugsandi að umskiptin eigi sér stað fyrr og jafnvel ekki víst að Stjórnlagaráðið taki sér tíu daga frest til að fara yfir úrslitin. Árið 1981 liðu fimm dagar og 1988 einungis þrír frá kosningum, þar til að hægt var að skipa nýjan forseta.

Það gæti því gerst að Chirac verði skipaður í embætti í byrjun næstu viku, en fyrr getur hann ekki skipað nýjan forsætisráðherra og ríkisstjórn.

Yfirburðastaða hægrimanna

Með sigri Chiracs hafa hægrimenn náð yfirburðastöðu í frönskum stjórnmálum og hafa nú fastari tök á franska stjórnkerfinu en jafnvel de Gaulle hafði nokkurn tímann. Auk forsetaembættisins hafa þeir um 80% meirihluta þingsæta á þingi, öll ríkisstjórn landsins er skipuð hægrimönnum, þeir ráða yfir öldungadeildinni, hægrimenn eru borgarstjórar stærstu borga Frakklands, þar á meðal í höfuðborginni París og þeir ráða ríkjum í 21 héraði Frakklands af 22. Chirac boðaði nýja tíma og breytingar í kosningabaráttunni og hann ætti að hafa völd til að knýja þær í gegn.

Erfiðasta verkefnið verður að bæta hlut þeirra milljóna Frakka, sem eru atvinnulausir og jafnvel heimilislausir. Hinn mikli félagslegi vandi Frakklands blasir við íbúum stórborga landsins á hverjum degi og er hvað mest áberandi í höfuðborginni París. Heimilislausa má sjá á nær hverju götuhorni, betlandi eða rótandi í ruslafötum. Er svo komið að margir íbúar höfuðborgarinnar veigra sér við að ferðast með neðanjarðarlestunum vegna þeirra fjölmörgu útigangsmanna sem þar hafast við.

Frakkar krefjast skjótra lausna við atvinnuleysisvandanum, jafnvel þó að hann kunni að reynast óleysanlegur á einungis nokkrum árum. Leiðarahöfundar helstu dagblaða Frakklands gerðu þetta að umtalsefni í gær. "Ef maðurinn sem segist vilja vera "forseti allra Frakka" viðheldur óbreyttu ástandi verður honum ekki þakkað fyrir.

Engin biðlund

Eftir að skýrt var frá kosningasigri hans reið gleðibylgja yfir París og aðrar helstu borgir landsins. Frakkland lýtur hins vegar sömu lögmálum og önnur ríki. Eftir því sem væntingarnar eru meiri verða vonbrigðin þungbærari," sagði ritstjóri Le Figaro í forystugrein.

Sérge July, aðalritstjóri Libération, segir að ef Jospin hefði náð kjöri hefðu verkalýðsfélög og önnur samtök líklega sýnt honum nokkra biðlund. Sú sé hins vegar ekki raunin með Chirac. Hann verði strax að grípa til aðgerða. "Fyrstu hundrað dagar hins nýja forseta verða ekki bara erfiðir, þeir munu einnig ráða úrslitum," segir July.

Chirac verður að eyða mikilli orku í innri málefni Frakklands en hans bíða einnig stór verkefni á alþjóðavettvangi. Ríkjaráðstefna ESB hefst á næsta ári og þar verða Frakkar sem forystuþjóð að marka skýra stefnu.

Erfið verkefni framundan

Verkefnin framundan eru vissulega erfið en Chirac er jafnframt með reyndustu stjórnmálamönnum Frakklands. Hann hefur tvívegis gegnt embætti forsætisráðherra (í fyrsta skipti í forsetatíð Giscards árið 1974) og rétt eins og Mitterrand náði hann ekki kjöri sem forseti fyrr en í þriðja skiptið, sem hann bauð sig fram. Ásamt Mitterrand er hann einn þeirra manna, sem mestan svip hefur sett á stjórnmálabaráttu í Frakklandi undanfarinn tvo og hálfan áratug. Rétt eins og Mitterrand hafði hann þrek til að gefast ekki upp heldur þrauka þar til að allir helstu andstæðingar hans voru horfnir af sjónarsviðinu.

Það má þó búast við að hann muni setja annan svip á forsetaembættið en Mitterrand. Chirac hefur lýst því yfir að hann vilji draga úr áhrifum forsetans þannig að hann líkist minna konungi en meira forseta í þingræðisríki. Er það mat margra að hann muni vel sætta sig við að sinna í auknum mæli hinum formlegu skyldum forseta en eftirláta væntanlegum forsætisráðherra sínum (sem nær allir ganga út frá að verði Alain Juppé utanríkisráðherra) verulegt svigrúm og völd. Gegn þessu mælir þó saga og hefðir RPR, en andstæðingar flokksins hafa stundum kennt hann við "bonapartisma", tilhneigingu til að leggja allt sitt traust á einn mann.

Mitterrand hefur haft á sér þá ímynd að vera hinn yfirvegaði bragðarefur, sem tókst að sundra andstæðingum sínum, fyrst kommúnistum og síðan hægrimönnum, en á sama tíma var hann í augum margra hafinn yfir dægurþras stjórnmálanna. Hann var og er virtur og dáður af þjóð sinni og hefur skipað sér sess í sögunni, sem forsetinn er stýrði Frakklandi í gegnum lok kalda stríðsins og mótaði ásamt Helmut Kohl Þýskalandskanslara þróun ESB.

Chirac þykir aftur á móti ólíkt hinum rólega Mitterrand vera óþreyjufullur og yfirfullur af krafti og orku. Hans verkefni verður að móta stöðu Frakklands í þeirri nýju heimsmynd, sem nú er að mótast, og sætta þær andstæður, sem takast á í landinu sjálfu.

Jospin sameinar vinstrimenn

Margir velta því fyrir sér hvað verði um hreyfingu vinstrimanna eftir að Mitterrand hverfur af sviðinu. Þrátt fyrir að hann hafi sögulega séð sameinað sósíalista í einn flokk árið 1971 ríkir nú sundrung í röðum þeirra. Flokkurinn var niðurlægður í þingkosningum fyrir tveimur árum og ræður nú ekki lengur yfir neinu valdaembætti.

Margt bendir þó til að Jospin hafi öllum á óvart tekist að gera sósíalista (eða vinstrimenn eins og hann nefnir þá ávallt) að afli í frönskum stjórnmálum á ný. Þó að hann hafi tapað kosningunum stendur hann uppi sem sigurvegari í átökunum á vinstrivængnum. Upphaflega var litið á framboð hans sem neyðarúrræði og blóðfórn (eftir að Jacques Belors hætti við framboð) en svo virðist sem honum hafi tekist að blása nýju lífi, jafnt hugmyndafræðilega sem atkvæðalega, í hreyfingu franskra vinstrimanna.

Flestir líta á hann sem sjálfkjörinn leiðtoga stjórnarandstöðunnar og boðbera nýrra tíma. Í stuðningsliði hans í kosningabaráttunni voru ný andlit áberandi og með fólki á borð við Martine Aubry og Dominique Strauss-Kahn, mun hann væntanlega halda áfram að færa flokkinn inn á miðjuna, frá sósíalisma yfir til hógværrar jafnaðarstefnu. Jafnvel Juppé lýsti því yfir kosninganóttina að þó að hann hefði ekki verið fyllilega sammála öllu í stefnu Jospins væri þar samt margt að finna, sem bæri að íhuga alvarlega.

Á heildina litið marka kosningarnar einnig vatnaskil í frönskum stjórnmálum. Áherslur jafnt Chiracs sem Jospins í kosningabaráttunni mörkuðu afturhvarf frá hinu hefðbundna og að sama skapi má búast við að ný andlit eigi eftir að verða ríkjandi í jafnt stjórn sem stjórnarandstöðu á næstu árum. Í stað þeirra hverfa hægt og sígandi af stjórnmálasviðinu menn á borð við Giscard, Michel Rocard, Raymond Barre, François Mitterrand og Jacques Delors.

LIONEL Jospin, sem laut í lægra haldi fyrir Chirac í forsetakosningum, hittir stuðningsmenn sína á sunnudagskvöld.

Reuter

MIKIL fagnaðarlæti gripu um sig meðal stuðningsmanna Chiracs er ljóst var að hann væri næsti forseti Frakklands. Á myndinni sést öryggisvörður hans t.h. reyna að koma Chirac, fyrir miðju, í gegnum mannfjöldann í höfuðstöðvum stuðningsmannanna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.