Á FUNDI sem haldinn var á skrifstofu Náttúruverndarráðs 19. september síðastliðinn mætti ég, undirritaður, að beiðni Sævars Geirssonar. Hann er í Hornstrandanefnd Náttúruverndarráðs. Einnig er hann í stjórn Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps. Tilefni fundarins var að ræða staðsetningu slysavarnaskýlis í Höfn í Hornvík.

Til varnar æskubyggð

Opið bréf til Náttúruverndarráðs

Ætlar Náttúruverndaráð að samþykkja plastgámavæðingu um land allt, spyr Hallvarður Guðlaugsson , sem hér fjallar um staðsetningu slysavarnaskýlis í Hornvík. Á FUNDI sem haldinn var á skrifstofu Náttúruverndarráðs 19. september síðastliðinn mætti ég, undirritaður, að beiðni Sævars Geirssonar. Hann er í Hornstrandanefnd Náttúruverndarráðs. Einnig er hann í stjórn Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps. Tilefni fundarins var að ræða staðsetningu slysavarnaskýlis í Höfn í Hornvík.

Í október síðastliðnum hringir til mín Jósef Vernharðsson í Hnífsdal og segir mér að nú standi til að setja upp slysavarnaskýli í Höfn í Hornvík og yrðum við að staðsetja það. Ég sagði honum að ég vildi setja skýlið niður utarlega á Hafnarnesi. Ég hringdi í Arnór Stígsson frá Horni og ræddi við hann um staðsetninguna. Okkur kom saman um að heppilegasti staðurinn fyrir skýlið væri fyrir utan svonefndar Lambhústóftir, utarlega á Hafnarnesi. Þá hringdi ég í Jósef Vernharðsson og varð það að munnlegu samkomulagi okkar á milli að skýlið yrði sett niður á þessum stað.

Ástæður þess að ég vildi hafa skýlið svona utarlega á nesinu eru þær að fyrir utan Hamarinn eru í röð þrjár sögulega merkar tóftir sem orðnar eru 100 ára gamlar og teljast því fornleifar samkvæmt þjóðminjalögum, 3. kafla, 16. grein. Því má ekkert við þeim hrófla eða setja hús eða mannvirki nálægt þeim.

Um mánaðamótin ágúst/september var farið með skýlið norður í Höfn og það sett niður. Myndir birtust af því í sjónvarpi og blöðum. Sá ég þá að ekki hafði verið staðið við gefin loforð um staðsetningu. Lét ég kyrrt liggja um sinn.

Norður á Hornstrandir fór ég 11. september. Á flugvellinum á Ísafirði hitti ég Arnór Stígsson og staðfesti hann það sem ég taldi mig hafa séð á myndunum. Þegar ég kom norður í Höfn sá ég að skýlið hafði verið sett niður milli salthústóftarinnar og hjallstóftar, þó nær hjallstóftinni.

Á fundinum hjá Náttúruverndarráði lagði ég fram riss af Hafnarnesinu frá og með Hafnarhamri og út á nestá. Þar rissaði ég á blað tóftir þær sem um ræðir, salthús byggt 1895, hjall frá sama tíma og upphlaðinn grunn undir verslunarhús byggt 1895. Lambhústóftir eru 150 m utar á nesinu. Samið var um að þar yrði skýlið sett niður. Sagði ég mína kröfu vera að staðið yrði við gerða samninga um staðsetningu.

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að stjórn Slysavarnafélagsins sjái um að staðið verði við gerða samninga. Það er aðeins þetta og ekkert annað sem ég bið um. Hornstrandir eru fátækar af sögulegum minjum. Ég er alinn upp á þessum norðurhjara við ríka sagnageymd og hef því sterkar taugar til varðveislu allra minja á þessum stað, svo sem tóftabrota, örnefna og annars sem til minja getur talist. Ásgeirsverslun á Ísafirði byggði árið 1895 verslunarhús og fiskmóttökuhús í Höfn í Hornvík. Betúel Betúelsson fluttist þá í Höfn og varð verslunarstjóri og tók á móti fiski og hákarli. Þetta var stór stund í lífi afa míns og ömmu. Þessi tóftarbrot vil ég varðveita, eins og þjóðminjalög gera ráð fyrir.

Grafreitur er í Höfn frá miðöldum og var jarðsett þar fram á 18. öld. Bænahústóftin og upphlaðin leiði eru greinileg enn í dag.

Örnefni eru menningarverðmæti á Hornströndum eins og annars staðar. Þar er þörf á að taka til hendi svo um munar. Víkur og vogar hafa verið færð, fjöll flutt sitt á hvað eftir geðþótta ókunnugra manna, og mál að linni.Sá er vinur er til vamms segir.

Er Náttúruverndarráð að hefja gámavæðingu Hornstranda? Á kyrrlátum haustdegi í september, lenti ég ásamt Kjartani frænda mínum og Maríu konu hans undir Hamrinum í Höfn og mikil var undrun mín. Skammt frá salthústóftinni var rauður plastgámur kominn á staura. Tveir selkópar syntu með landi, þurrkuðu sig hálfir upp úr sjó og horfðu í forundran á fyrirbæri þetta. Ég gekk upp að gáminum og opnaði hann. Þar er ekki hátt til lofts né vítt til veggja. Bekkur með vegg flaut allur út í vatni og Kjartan spurði hvort læki gámurinn. Ég kvað svo ekki vera, þetta væri döggvun innan á.

Skjöldur mikill blasir við sjónum innan dyra. Þar stendur: Reist til virðingar Gunnari Friðrikssyni, fyrrverandi forseta Slysavarnafélagi Íslands. Hvílík reisn! Hvílík niðurlæging hugsunarinnar. Reistur plastgámur til heiðurs Gunnari Friðrikssyni, einum mætasta syni Hornstrendinga og þjóðarinnar allrar.

Nú spyr ég Náttúruverndarráð hver sé stefna þess. Ætlar það að samþykkja plastgámavæðingu hringinn í kringum landið, hálendi þess og þjóðgarða, eða eru það bara Hornstrandir sem eiga að njóta þessarar hámenningar?

Því beini ég orðum mínum til Náttúruverndarráðs að Hornstrandir eru í þeirra vörslu, allar framkvæmdir þar háðar leyfi þess og forsjá, og er það hið besta mál en það verður að standa trúan vörð um þetta viðkvæma landsvæði. Ég var að bíða eftir viðbrögðum Náttúruverndarráðs við staðsetningu plastgáms á Hornströndum en þau hafa engin orðið.

Ég hvet Náttúruverndarráð til að taka höndum saman við ýmis félagasamtök og fjölmarga velunnara Hornstranda og hefja fjáröflun fyrir veglegum slysavarnaskála í Höfn til verðugs heiðurs Gunnari Friðrikssyni frá Látrum í Aðalvík, fyrrverandi forseta Slysavarnarfélags Íslands.

Að lokum mótmæli ég allri gámavæðingu á Hornströndum. Þegar búið er að setja upp einn, koma aðrir á eftir. Og hvernig er hægt að banna einum þegar öðrum hefur verið leyft?

Höfundur er húsasmíðameistari.

Hallvarður Guðlaugsson.