ÍSLAND er eitt þriggja Evrópuríkja sem uppfyllir öll efnahagsleg skilyrði fyrir aðild að Evrópska myntsamstarfinu (EMU) sem ríki Evrópubandalagsins stefna að því að koma á fót eftir rúm þrjú ár. Á alþjóðlegri ráðstefnu Íslandsbanka fyrir bankamenn, sem haldin var í gær, sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar,
Ísland stendur vel efnahagslega í samanburði við önnur Evrópuríki

Uppfyllum öll skilyrði

Evrópska myntbandalagsins

ÍSLAND er eitt þriggja Evrópuríkja sem uppfyllir öll efnahagsleg skilyrði fyrir aðild að Evrópska myntsamstarfinu (EMU) sem ríki Evrópubandalagsins stefna að því að koma á fót eftir rúm þrjú ár. Á alþjóðlegri ráðstefnu Íslandsbanka fyrir bankamenn, sem haldin var í gær, sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, að enda þótt Íslendingar væru ekki á leið inn í EMU væri þetta einn mælikvarði á stöðu efnahagsmála hér á landi.

Meðal ríkja Evrópusambandsins eru það aðeins Þýskaland og Lúxemborg sem uppfylla nú skilyrði fyrir inngöngu í myntbandalagið, en gert er ráð fyrir að aðildarríki þess taki upp sameiginlegan gjaldmiðil. Sáttmálinn kveður á um að þau uppfylli ákveðin skilyrði um afkomu hins opinbera, skuldir hins opinbera, verðbólgu og langtímavexti. Á meðfylgjandi töflu má sjá stöðu Evrópusambandsríkjanna og Íslands gagnvart þessum lágmörkum.

Hagstæðari stærðir en hjá OECD-ríkjum

Þórður Friðjónsson sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að efnahagslífið hér á landi væri að þróast í rétta átt. Það mætti m.a. ráða af samanburði við þróun atvinnuleysis, verðbólgu, ríkisfjármála og viðskiptajafnaðar í ríkjum OECD. Allar þessar stærðir væru hagstæðari hér á landi á þessu ári en að meðaltali í OECD.

Þórður benti hins vegar á að nokkur brýn verkefni væru framundan í hagstjórn til að tryggja stöðugleika og áframhaldandi hagvöxt. Eitt helsta viðfangsefnið væri að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum og draga úr skuldasöfnun hins opinbera.

Í öðru lagi væri þörf á frekari umbótum á fjármagnsmarkaði. Mikilvægast væri að auka sjálfstæði Seðlabankans ásamt því að einkavæða ríkisbankana og fjárfestingarlánasjóðina. Í þriðja lagi sagðist Þórður hafa efasemdir um núverandi skipulag kjaramála, enda þótt það hefði á ýmsan hátt dugað vel undanfarin ár. Vinnumarkaðurinn einkenndist af miðstýringu sem flest ríki hefðu horfið frá. Þetta fyrirkomulag hefði ákveðna kosti, sérstaklega á tímum samdráttar í efnahagslífinu, en það skorti sveigjanleika til lengri tíma litið. Í fjórða lagi kvaðst Þórður telja þörf á ýmsum skipulagsbreytingum í atvinnulífinu, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði.