NORÐMENN hafa sett það skilyrði fyrir samningum við Íslendinga um fiskveiðar í Barentshafi, að Íslendingar skuldbindi sig til að falla frá boðaðri málshöfðun fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag til að skera úr um rétt Norðmanna á svæðinu kringum Svalbarða.
Skilyrði fyrir samningum um Barentshaf Íslendingar

falli frá máls-

höfðun í Haag

NORÐMENN hafa sett það skilyrði fyrir samningum við Íslendinga um fiskveiðar í Barentshafi, að Íslendingar skuldbindi sig til að falla frá boðaðri málshöfðun fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag til að skera úr um rétt Norðmanna á svæðinu kringum Svalbarða.

Þetta sagði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í umræðum á Alþingi á fimmtudag. Þar nefndi hann þrjú skilyrði sem Norðmenn hefðu sett fyrir samningum um veiðar í Barentshafi.

Í fyrsta lagi yrðu Íslendingar að una fyrirmælum samningsaðila um að taka veiðiheimildir sínar að hluta eða að öllu leyti í Smugunni. Jón sagði svarið við þessu einfaldlega að það væri ekki á valdi Norðmanna og Rússa að úthluta veiðiheimildum í Smugunni sem væri alþjóðlegt hafsvæði.

Í öðru lagi væri það skilyrði að Íslendingar falli frá rétti sínum sem þeir gerðu tilkall til sem ein aðildarþjóða Svalbarðasáttmálans.

Í þriðja lagi hefði sú krafa verið sett fram að Íslendingar skuldbindi sig, ef þeir ná ekki rétti sínum á grundvelli Svalbarðasamningsins, að falla frá málshöfðun að því er varðar að láta á það reyna fyrir Haag-dómstólnum hver raunveruleg réttarstaða sjálftökusvæðisins norska, fiskverndarsvæðisins umhverfis Svalbarða, væri.

Viðvörun

Jón Baldvin sagðist vara mjög sterklega við því að fallast á þessi skilyrði ef hinn kosturinn væri að fá til skamms tíma og með óvissum hætti veiðiheimildir sem kynnu að verða langt undir því sem veiðireynsla og fleiri rök stæðu til.

Hann beindi því til Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, að hafa frumkvæði að því að kalla saman sérstaka ráðstefnu aðildarríkja Svalbarðasamningsins sem fjallaði um þjóðréttarlega stöðu fiskverndarsvæðisins. Þá bæri Íslendingum að áskilja sér allan rétt til að láta reyna á réttindi samkvæmt Svalbarðasamningnum fyrir dómstólum ef samningaleiðin reynist ekki skila viðunandi réttindum.

Jón Baldvin sagði að þessi stefna hefði verið mótuð í síðustu ríkisstjórn þótt ekki hefði verið tímabært þá að láta á hana reyna því alvörusamningaviðræður um heildarhagsmuni þessara þjóða í Norður-Atlantshafi hafi ekki verið það langt komnar.