SVAR við grein Halldórs Blöndal, samgönguráðherra. Fimmtudaginn 12. október var grein í Morgunblaðinu um vegagerð yfir Gilsfjörð. Þar segir í undirfyrirsögn: "Vegaáætlun gerir ráð fyrir því, að nýr vegur yfir Gilsfjörð verði tekinn í notkun haustið 1997. Halldór, þú segir, að þú sjáir ekkert því til fyrirstöðu að fresta útboði. Það er best að ég svari þér hreint út.
Vegurinn yfir Gilsfjörð

Ef þið viljið leggja landið í eyði, segir Sveinn Guðmundsson, þá eigið þið að segja það hreint út og hætta að nota feluorð.

SVAR við grein Halldórs Blöndal, samgönguráðherra.

Fimmtudaginn 12. október var grein í Morgunblaðinu um vegagerð yfir Gilsfjörð. Þar segir í undirfyrirsögn: "Vegaáætlun gerir ráð fyrir því, að nýr vegur yfir Gilsfjörð verði tekinn í notkun haustið 1997. Halldór, þú segir, að þú sjáir ekkert því til fyrirstöðu að fresta útboði. Það er best að ég svari þér hreint út.

Við höfum þá reynslu hér, að erfitt er að treysta ríkisvaldinu. Fagurgalinn er jafnan nógur fyrir kosningar, en svo koma svikin. Fyrir nokkrum árum var okkur lofað að á Reykhólum skyldi vera læknir yfir vetrarmánuðina, en læknisþjónustan var færð til Búðardals. Taka skal það fram að læknarnir þar hafa gert fyllilega skyldu sína og við höfum ágætan hjúkrunarfræðing. Auðvitað var það svikið að hafa lækni á Reykhólum yfir þessa þrjá vetrarmánuði.

Síðastliðinn vetur var hér snjóþungur og þrátt fyrir dugnað snjómoksturmanna þá var afar oft ófært fyrir Gilsfjörð.

Þó veturinn síðasti væri hér erfiður, hefðum við komist leiðar okkar ef vegurinn yfir Gilsfjörð hefði verið kominn. Hjúkrunarkonan okkar er alltaf á vakt, en þegar snjóflóðið kom á Grund þá tók það hjúkrunarkonuna ásamt björgunarsveitarmönnum um 20 klukkustundir að komast tæpa 40 km út að Reykhólum. Varðar þig ekkert um svona frásagnir?

Vegna samgangnanna hér er um helmingur sveitabýla farinn í eyði á rúmlega 40 árum. Finnst þér það rétt stefna að fólk flytji úr landi? Ég hvet þig að þú leggir lóð þitt á vogaskálar og haldir landinu í byggð. Ef þú og Pétur Blöndal frændi þinn viljið leggja landið í eyði þá komið þið hreint fram og segið það bara án þess að nota til þess feluorð.

Það er nóg af löndum sem eru yfirfull af fólki sem mundu gleypa við því að senda fólk frá sér og koma hingað sem landnemar.

Halldór Blöndal. Þeir sem vilja láta aðra spara verða að byrja á því sjálfir.

Höfundur er bóndi í Miðhúsum.

Sveinn Guðmundsson