BRESKA læknafélagið endurtók enn einu sinni áskorun sína um að banna ætti hnefaleika í Bretlandi eftir að skoskur hnefaleikamaður lést sl. sunnudag í kjölfar áverka sem hann hlaut í keppni fyrir helgi. Bretar vísuðu m.a.
Breska læknafélagið vill banna hnefaleika í Bretlandi og vísa Bretar meðal annars til stöðu mála á Íslandi í því sambandi

Íslendingar tóku af

skarið fyrir nær 40 árum BRESKA læknafélagið endurtók enn einu sinni áskorun sína um að banna ætti hnefaleika í Bretlandi eftir að skoskur hnefaleikamaður lést sl. sunnudag í kjölfar áverka sem hann hlaut í keppni fyrir helgi. Bretar vísuðu m.a. til stöðu hnefaleika á Íslandi og af því tilefni rifjar Steinþór Guðbjartsson upp afskipti Alþingis af málinu og ástæður þess að hnefaleikar voru bannaðir hér á landi samkvæmt lögum nr. 92/1956.HNEFALEIKAR bárust til Íslands frá Danmörku haustið 1916 og hófst þá kennsla í greininni en nemendur voru aðallega piltar í Sjómannaskólanum í Reykjavík. Fyrsta hnefaleikasýningin var haldin á vegum Glímufélagsins Ármanns í Iðnó 1926 og fyrsta mótið í Gamla bíói, þar sem nú er Íslenska óperan, 1928. Mót og sýningar hnefaleikamanna sættu strax mikilli gagnrýni en félögin, einkum Ármann og KR, héldu sínu striki. Fyrsta hnefaleikameistaramót Íslands var sumarið 1936 en næst var þráðurinn tekinn upp 1943 og keppt nánast árlega til 1953. Á fyrsta mótinu kepptu 12 manns í fimm þyngdarflokkum og aðeins fleiri á síðasta mótinu en síðast var keppt í hnefaleikum hér á landi 1954 og var þar um Ármanns- og KR-mót að ræða.

Varanleg örkuml

Þekktir, íslenskir hnefaleikamenn komu við sögu í ólátum á dansleik í Listmannaskálanum þáverandi við hliðina á Alþingishúsinu veturinn áður en lögin um bannið öðluðust gildi. Lögreglumenn reyndu að stilla til friðar en við það hlutu þeir varanleg örkuml. Að sögn Sigurðar Magnússonar, framkvæmdastjóra ÍSÍ, beitti Thorolf Smith fréttamaður sér fyrir því að læknarnir Kjartan J. Jóhannsson og Helgi Jónasson fluttu í kjölfarið frumvarp á Alþingi 1956 um að banna hnefaleika. Frumvarpinu var vel tekið og var komið til 2. umræðu í síðari deild en var ekki útrætt. Því flutti Kjartan samhljóða frumvarp á næsta þingi og þá var Gísli Guðmundsson meðflutningsmaður hans.

Í greinargerð með frumvarpinu sagði að hnefaleikur væri einhver ógeðfelldasti leikur sem hér þekktist. Síðan kom eftirfarandi: "Ef íþrótt er skýrgreind sem holl hreyfing, vel fallin til þess að gera menn hrausta á sál og líkama, þá er öfugmæli að kalla hnefaleika íþrótt.

Sem betur fer, hafa hnefaleikar aldrei verið vinsælir hér. Ekki er kunnugt, að neinn hafi látið lífið hér við opinbera hnefaleikakeppni. Slíkt er þó algengt erlendis. Hitt er þó enn algengara þar, að hnefaleikarar verði það, sem kalla mætti "höggdrukknir", þ.e. fá meiri eða minni heilaskemmdir, sem valda því, að þeir haga sér eins og þeir væru lítils háttar ölvaðir.

Stórslys og dauðsföll hafa hlotizt hér á landi af áverkum af hendi manna, er vanizt höfðu hnefaleikum. Full ástæða er því til að stemma á að ósi í þessu efni og banna alla keppni og kennslu í hnefaleik.

Bann við hnefaleikum er í rauninni ekki nema skyld og sjálfsögð tilraun til slysavarna."

Kjartan fylgdi frumvarpinu úr hlaði 12. nóvember og sagði að enginn hefði andmælt því á síðasta þingi en mótmælabréf borist frá Íþróttasambandi Íslands. "Sem betur fer, hafa hnefaleikar aldrei náð almennum vinsældum hér á landi, en alltaf þótt, það sem þeir eru, leiðinlegt og ógeðslegt at, miklu verra en hesta- eða nautaat."

Kjartan vitnaði í rannsóknir erlendra lækna og sagði að 60% þeirra sem iðkuðu hnefaleika biðu af því varanlegt, óbætanlegt tjón. Raddir sem krefðust þess að afmá þessa smán úr þjóðlífi þeirra í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem hnefaleikar væru vinsælastir, yrðu æ háværari. "Ég er viss um, að flestir Íslendingar hafa skömm á hnefaleikum og öðrum barsmíðum og fagna því að hætt verði að styrkja þá af opinberu fé."

Hann greindi frá útgáfu bókarinnar Svívirðilegur leikur eftir breska lækninn og stjórnmálamanninn dr. Edith Summerskill, studdist við upplýsingar úr bókinni og nefndi dæmi um dauðsföll af völdum hnefaleika, jafnt barna sem fullorðinna. "Það er kominn tími til að gera sér ljóst, að hnefaleikamót atvinnumanna eru opinberar aftökur án þeirrar afsökunar, að verið sé að fullnægja neinu réttlæti, og að horfa á keppnina er jafnóviðfelldið og að horfa á blóðvöll í sláturhúsi. En það er hvorki eins heiðarlegt né eins nauðsynlegt og síst af öllu eins mannúðlegt og slátrun í sláturhúsi."

Eftir að hafa áréttað varanleg áhrif hnefaleika á iðkendur sagði Kjartan: "Við, sem höfum fengizt við lækningar síðasta aldarfjórðunginn, getum borið um það, að meðan svo að segja engir fengust hér á landi til þess að æfa hnefaleika, var miklu minna um barsmíðar og slys af þeim sökum heldur en núna á síðustu árum. Og við vitum líka, að mikill meiri hluti þeirra slysa, sem nú verða af barsmíðum, er af völdum manna úr hópi þeirra tiltölulega fáu, sem eitthvað hafa numið hnefaleik. Við getum því bent á sterkar líkur fyrir því, að þessum slysum mundi fækka, ef kennsla í hnefaleik færi ekki fram hér á landi."

Verkefni Alþingis

Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, tók í sama streng og flutningsmaður og sagði að keppa bæri að því að frumvarpið yrði að veruleika en gat þess að mótmæli ÍSÍ hefðu átt nokkurn þátt í því að frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Hann sagðist hafa rætt við forseta ÍSÍ sem hefði sagt sér að sambandið hefði ekki tilhneigingu til að halda verndarhendi yfir íþróttinni en talið orsök mótmælanna vera þá að varhugavert fordæmi væri að löggjafarsamkoman tæki að sér að kveða á um hvað á íþróttagrein menn stunduðu og hvaða ekki. Gylfi sagði að íþróttasamtökin hefðu ekki verið tilbúin til að taka ákvörðun um að keppni í hnefaleikum eða sýning á leikjum færi ekki fram en vildi að þingnefndin sem fengi málið til meðferðar ræddi við ÍSÍ um framhaldið. "Ef íþróttasamtökin eru hins vegar ekki reiðubúin til þess að taka sjálf ákvörðun um það, að hnefaleikar skuli ekki sýndir opinberlega og torveldað að stunda þá, þá er það verkefni Alþingis að taka ákvörðun um, hvort svo langt skuli gengið að banna þá beinlínis."

Frumvarpinu var vísað samhljóða til annarrar umræðu og þá sagðist Kjartan hafa rætt við menntamálaráðherra og þeir væru sammála um að þó ÍSÍ bannaði hnefaleika væri það ekki fullnægjandi. "Réttara sé að banna hnefaleika með lögum."

Frumvarpið var samþykkt með 20 samhljóða atkvæðum, enginn tók til máls við þriðju umræðu og það var afgreitt til efri deildar þar sem Alfreð Gíslason var framsögumaður. Hann áréttaði skaðsemi hnefaleika, sagði leikinn engan jarðveg eiga hér á landi og vonaði að frumvarpið yrði að lögum. "Ég tel að það sé sómi fyrir okkur Íslendinga að verða fyrstir til þess. Margir læknar og heilbrigðisfrömuðir erlendis munu taka eftir þessu og munu nota það í baráttu sinni í sínum löndum fyrir að ná sama árangri."

Frumvarpinu var vísað til annarrar umræðu með 10 samhljóða atkvæðum og þegar að henni kom greindi Alfreð frá bréfi sem hafði borist frá framkvæmdastjórn ÍSÍ eftir að málið hlaut afgreiðslu í nefnd. Hann svaraði framkomnum ásökunum í bréfinu og gat þess jafnframt að Alþingi hefði borist einróma áskorun frá fundi Læknafélags Reykjavíkur um að banna hnefaleika og samskonar áskorun hefði borist frá 63 kennurum á Akureyri. Í atkvæðagreiðslu var frumvarpið samþykkt samhljóða, enginn tók til máls við þriðju umferð og 27. desember 1956 öðluðust lög um að banna hnefaleika gildi. Síðan hefur keppni, sýning og kennsla í hnefaleik verið bönnuð. Ennfremur sala og notkun hnefaleikaglófa og annarra tækja sem ætluð eru til þjálfunar hnefaleikara.

Ósk um ólympíska hnefaleika

Undanfarin ár hafa áhugamenn um ólympíska hnefaleika æft íþróttina og að þeirra ósk fluttu Kristinn H. Gunnarsson og Ingi Björn Albertsson tillögu til þingsályktunar 1993 þess efnis að skipuð yrði nefnd til að kanna hvort rétt væri að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi en samkvæmt tiltækum upplýsingum eru ólympískir hnefaleikar ekki bannaðir erlendis. Tillagan var ekki útrædd og var endurflutt á síðasta þingi en í greinargerð með tillögunni kemur fram að rétt sé að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og hnefaleikum atvinnumanna. M.a. séu reglur og öryggiskröfur afar ólíkar og á það bent að skylt sé að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur standi í þrjár lotur í stað allt að 12 lotum hjá atvinnumönnum. ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttakennarafélag Íslands mæltu með því að þingsályktunartillagan yrði samþykkt en Læknafélag Íslands, landssamtökin Heimili og skóli og starfsmenn íþrótta- og æskulýðsdeildar menntamálaráðuneytisins voru á móti. 21. febrúar sl. lagði menntamálanefnd til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og þar liggur það.Reuter NÆR 500 hnefaleikarar hafa látist síðan 1984 í kjölfar meiðsla sem þeir hafa hlotið í keppni. Tveir hnefaleikarar létust um síðustu helgi og á myndinni er annar þeirra, Skotinn James Murrey, í keppninni sem varð honum að falli. Hnefaleikamót eru opinberar aftökurAðrar reglur í ólympískum hnefaleikum