ATVINNUÁSTANDIÐ hjá smiðum á Akureyri hefur verið gott í sumar. Það hefur orðið veruleg breyting frá síðustu tveimur sumrum og í raun er ástandið í dag allt annað og betra en verið hefur í nokkur ár," segir Guðmundur Ómar Guðmundsson, formaður Félags byggingamanna Eyjafirði.
Veruleg breyting hjá byggingamönnum í Eyjafirði Atvinnuástandið

með besta móti

ATVINNUÁSTANDIÐ hjá smiðum á Akureyri hefur verið gott í sumar. Það hefur orðið veruleg breyting frá síðustu tveimur sumrum og í raun er ástandið í dag allt annað og betra en verið hefur í nokkur ár," segir Guðmundur Ómar Guðmundsson, formaður Félags byggingamanna Eyjafirði.

Guðmundur Ómar segist gera ráð fyrir einhverju atvinnuleysi í greininni eftir áramót en það verði þó ekki jafn mikið og verið hefur hin síðari ár. Atvinnuleysi meðal félagsmanna fór upp í 25% í fyrravetur.

"Það eru ýmis stór verk í gangi í bænum og einnig eru væntanleg verkefni og þá virðist vera meira að gera í þjónustu fyrir einstaklinga. Þannig að ég er nokkuð bjartsýnn," segir Guðmundur Ómar.

Á atvinnuleysisskrá félagsins eru helst eldri menn, sem eru að fara út af vinnumarkaðinum en hafa rétt til þess að vera á skrá til 70 ára aldurs. "Þannig að ég met það þannig að ekki sé um raunverulegt atvinnuleysi að ræða í greininni."Mörg stór verk í gangiÁ meðal stærstu verkefna sem unnið er við um þessar mundir á Akureyri, eru nýbyggingar við Fjórðungssjúkrahúsið, Menntaskólann og Glerárskóla. Svæðisskrifstofa fatlaðra hefur verið að byggja og breyta, framkvæmdir í Lindinni eru í fullum gangi, bygging skólpdælustöðvar er að hefjast og þá hefur verið byggt fyrir húsnæðisnefnd bæjarins.

Þá eru framkvæmdir að fara í fullan gang á nýju svæði undir íbúðarhúsnæði sunnan Hjarðalundar. Eimskipafélagið er að fara í breytingar á Oddeyrarskála og loks er næsti áfangi viðbyggingar flugstöðvarinnar í útboði.

Guðmundur Ómar segir, að svo virðist sem smiðir í Reykjavík séu að ganga inn í það tímabil sem smiðir á Akureyri hafi verið í en séu nú vonandi að komast út úr. "Það hefur gengið illa selja húsnæði í Reykjavík og það er fyrst í fyrra og í ár sem þar verður vart við atvinnuleysi í byggingaiðnaðinum. Ástandið í þessum iðnaði speglar ástandið í þjóðfélaginu. Þegar er uppsveifla er atvinnuástandið gott en niðursveifla kemur skýrt fram í samdrætti í byggingaiðnaðinum," segir Guðmundur Ómar.

Morgunblaðið/Kristján ATVINNUÁSTAND er með besta móti hjá félögum í Félagi byggingamanna í Eyjafirði, enda mörg stór verk í gangi. Þessir smiðir voru við vinnu sína í viðbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.