eftir Björn Th. Björnsson. Mál og menning, Reykjavík, 1995. 272 bls. ÞAÐ ER löngu ljóst að Björn Th. Björnsson er manna fundvísastur á áhugaverð söguefni sem leynast í gömlum heimildum. Bækur hans Haustskip (1975) og Falsarinn (1993) eru óræk vitni þess. Nú hefur Björn sett saman enn eina bókina af þessu tagi, Hraunfólkið.

HRAUN

Í FÓLKI

BÓKMENNTIR

Skáldsaga

HRAUNFÓLKIÐ - SAGA ÚR BLÁSKÓGUM

eftir Björn Th. Björnsson. Mál og menning, Reykjavík, 1995. 272 bls.

ÞAÐ ER löngu ljóst að Björn Th. Björnsson er manna fundvísastur á áhugaverð söguefni sem leynast í gömlum heimildum. Bækur hans Haustskip (1975) og Falsarinn (1993) eru óræk vitni þess. Nú hefur Björn sett saman enn eina bókina af þessu tagi, Hraunfólkið. Þar eru rakin afdrif fólks sem byggði helgasta stað þjóðarinnar, Þingvelli, áður en hann varð skáldum að tákni um Íslands fornaldarfrægð, manndáð, frelsi og von.

Segja má að sagan af hraunfólkinu hverfist um svonefnd Guðrúnarmál sem kölluð eru hin vondu þegar þau eru kynnt til sögunnar seint í fyrsta hluta hennar. Guðrún er vinnukona hjá Krstjáni bónda Magnússyni í Skógarkoti. Skammt þar frá situr Páll Þorláksson prestur í Þingvallasókn ­ bróðir Jóns þjóðskálds á Bægisá ­ og rekur sín mál og safnaðarins með sóma. Á því verður hins vegar nokkur breyting þegar bóndinn úr Skógarkoti kemur með barn sitt nýfætt til messu að láta ausa vatni, barn sem hann hafði átt með Guðrúnu þessari en ekki konu sinni eins og lög gera ráð fyrir. Ekki þykir Kristjáni nauðsyn til bera að leyna neinu um kringumstæður, segir aðeins, til að afsaka háttarlag sitt fyrir Þingvallapresti, að "úr einhverju verð[i] maðurinn að hafa hitann" (94). Konu bónda þykir heldur ekki tiltökumál þótt karl hlýi sér í öðru bóli en hennar og svo virðist sem yfirvaldinu þyki það heldur ekki alvarlegur tilverknaður því engar ordrur berast þaðan um hórsökina. Upphefst nú löng glíma Þingvallaklerka við hinn slynga og staðfasta kotbónda; er það margbrotin og kostuleg saga sem gerist á tæpum þrjátíu árum en á því tímaskeiði koma átta börn undir í Skógarkoti á meðan fjórir prestar þjóna á hinum helga stað.

Að vísu mætti einnig lesa bókina sem sögu Þingvallastaðar á fyrri hluta síðustu aldar. Sem slík afhelgar hún staðinn, afhjúpar þá ímynd sem hann hefur haft í huga þjóðarinnar. Sagan dregur upp eilítið aðra samfélagsmynd en við eigum að venjast frá þessum tíma og mætti segja að hér sé ímynd okkar af klerkastéttinni fyrr á tíð einnig umturnað. Magnleysi Þinvallaklerkanna fjögurra gagnvart böldnum sóknarbörnum sínum er algjört, ekki aðeins gagnvart Kristjáni í Skógarkoti heldur söfnuðinum öllum sem hefur sína hentisemi í flestum málum, meira að segja kirkjusókninni. Er sem valdahlutföllunum hafi verið raskað eitthvað því hér er það presturinn sem þarf að beygja sig undir vilja sauðsvarts almúgans og ekki fer því fjarri að undirgefni valdsins verði algjört í lok sögu þegar mál Kristjáns og þeirra Þingvallaklerka eru til lykta leidd. Það var um síðustu aldamót sem allar bækur lýstu prestum sem útförnum illmennum. Í Hraunfólkinu er sögð önnur saga; prestarnir á Þingvallabæ mega ekki vamm sitt vita, þeir eru meinlausir og jafnvel svo auðtrúa að láta þjófa og illþýði éta upp úr pottum sínum og þykjast góðir af.

Sagan er einföld í byggingu og hefur þann kost fram yfir Falsarann sem ekki bjó yfir nægilega góðri frásagnareiningu. Hér er framvindan ljós enda útúrdúrar færri og textinn mun knappari og þéttari en í fyrrnefndri bók. Reyndar eru örlög þeirra fjölskyldna sem byggja Þingvallabæ og Skógarkot svo samofin að þau binda söguna föstum böndum, gera hana að órofinni heild. Fyrir vikið heldur hún athygli lesandans á enda.

Stíll sögunnar er orðmargur og á stundum skrúðmikill. Hann verður þó aldrei upphafinn. Orðfærið dregur dám af málfari sögutíma, er tíðum dönskuskotið og eilítið fornlegt. Stundum örlar einnig á formfestu kansellístílsins í skjölum og málfari heldri manna. Kímni höfundar eykur og gildi sögunnar. Hraunfólkið er ekki ádeilusaga en í henni er írónískur undirtónn sem afhjúpar persónur hennar; sá tónn hljómar til dæmis undir allri sögu Páls. Persónusköpun er litrík en eftirminnilegastur er brotamaðurinn Kristján sem er svo heiðarlegur í glæp sínum að yfirvaldið getur ekki tekið á honum. Stílfimi Björns kemur og best í ljós þegar hann setur sig í spor ólíkra persóna; þannig endurspeglast persónueinkenni oft skýrt í orðfæri fólksins, svo sem í hispurslausu tali Kristjáns við formfasta og lærða klerkana.

Kannski mætti lesa úr verkinu ákveðinn boðskap, svo sem úr þeim viðsnúningi valds sem hér hefur verið nefndur. Umfram allt skyldi það þó lesið sem örlagasaga, saga af fólki í hrauni, eða hrauni í fólki, hraunfólki. Bókin er skemmtileg aflestrar enda nýtur höfundur þess greinilega að segja sögu. Hlýtur það að teljast besti kostur hennar.

Við gætum kallað Hraunfólkið hvort sem er heimildaskáldsögu eða sögulega skáldsögu. Walter Scott, sem stundum er talinn hafa byrjað sögulegu skáldsöguna með bók sinni Waverley (1814), sagði að slíkar sögur ættu ekki að fjalla um frægar persónur frá fyrri tíð. Segja má að Björn hafi farið að dæmi Scotts; bókin segir frá örlögum fólks sem að öðrum kosti hefði ekki ratað á blöð sögunnar. Heimildir sem Björn styðst við eru bæði prentaðar og óprentaðar, frá sögutíma sem úr síðari tíma bókum. Annan dyntinn tekur höfundur stuttar klausur beint upp úr heimildum í söguna; rétt eins og til að láta lesandann vita að hann er að fylgjast með fólki sem eitt sinn var, með tíma sem var. Stundum veltir hann líka vöngum yfir því hvort saga sín sé rétt sögð. Hvað er satt og hvað skáldað í þessari sögu skiptir annars harla litlu máli; hún birtist heil í sínum búningi, sönn eða diktuð.

Þröstur Helgason

Björn Th. Björnsson