Fyrsta breiðskífa Sólstrandagæjanna, samnefnd þeim. Sólstrandagæjarnir eru Unnsteinn Guðjónsson og Jónas Sigurðsson, sem leika á flest hljóðfæri, en þeim til aðstoðar eru Stefán Þórhallsson trommuleikari, Páll Sveinsson tamborínleikari, Sævar Helgason gítarleikari og Stefán Jónsson bassaleikari.
Klæmst á viðteknum venjum TÓNLIST Geisladiskur SÓLSTRANDAGÆJARNIR Fyrsta breiðskífa Sólstrandagæjanna, samnefnd þeim. Sólstrandagæjarnir eru Unnsteinn Guðjónsson og Jónas Sigurðsson, sem leika á flest hljóðfæri, en þeim til aðstoðar eru Stefán Þórhallsson trommuleikari, Páll Sveinsson tamborínleikari, Sævar Helgason gítarleikari og Stefán Jónsson bassaleikari. Lög og textar eru eftir þá, utan eitt eftir George Michael og Andrew Ridgeley og eitt sem er stef úr James Bond kvikmyndum. Aþþol gefur út. 56,41 mín., 1.999 kr. VARLA hafa þeir félagar Unnsteinn og Jónas í Sólstrandagæjunum búist við eins rífandi viðtökum og fyrsta breiðskífa þeirra fékk í sumar, enda skín hvarvetna í gegn á plötunni að þeir taka sjálfa sig ekki ýkja alvarlega sem tónlistarmenn og gera miskunnarlaust grín að öllu og öllum; klæmast á viðteknum venjum og hugmyndum í tónlist og textum með góður árangri. Lagið um misheppnaða manninn glumdi í útvarpi í sumar og víst er það skemmtilegt, en fleira á plötunni er vel heppnað, enda eru þeir félagar ágætir lagasmiðir þótt þeir fari ekki alltaf vel með hugmyndirnar, að minnsta kosti faglega. Ef hugmyndin er góð víla þeir ekki fyrir sér að nota hana aftur, til að mynda þegar Rangur maður verður að Ost og kanil. Hljóðfæraleikur er kæruleysislegur, sem er vel viðeigandi, en víða heyrist að þeir félagar kunna sitthvað fyrir sér og söngur er yfirleitt vel heppnaður, þó ekki sé hann alltaf fagur. Ástæða er að geta söngkonunnar Estherar, sem ekki er nafngreind frekar, en hún lyftir mikið þeim lögum sem hún kemur að með fyrirtaks söng. Í misheppnuðum manni mátti heyra að Sólstrandagæjarnir eru prýðis lagasmiðir, fundvísir á grípandi laglínur, og oft verður spéið til að lyfta laginu. Stundum skriplar á skötu og gamansemin verður barnaleg, en dæmi um vel heppnuð lög eru til að mynda Misheppnaður, Cowboy, Ostur og kanill, Gæi og Arabi. Síðri eru lög eins og Halim Al, með einkar hallærislegum texta og reyndar eru sumir textarnir upp fullir með fordómum. Þessi fyrsta breiðskífa Sólstrandagæjanna er fráleitt síðasta plata þeirra félaga, sem vonandi eru búnir að hlaupa af sér hornin svo næsta plata verði enn betri og markvissari. Árni Matthíasson

Morgunblaðið/Emilía SÓLSTRANDAGÆJARNIR hafa ástæðu til að brosa eftir velgengni sumarsins.