SAMKOMULAG hefur tekist milli íslensku álviðræðunefndarinnar og samninganefndar Alusuisse-Lonza (A-L) um öll meginatriði væntanlegs samnings um stækkun álversins í Straumsvík um 62 þúsund tonna afkastagetu á ári, þ.á m. um orkuverð og skatta, að sögn Finns Ingólfssonar iðnaðarráðherra. Stjórn Alusuisse-Lonza fjallar um málið 6. nóvember
Iðnaðarráðherra kynnti samningsdrög um stækkun álversins í ríkisstjórn í gær Samkomulag hefur

náðst um meginatriði

Forstjóri ÍSAL segir ummælin ótímabær og völd að verðfalli á álmarkaði

SAMKOMULAG hefur tekist milli íslensku álviðræðunefndarinnar og samninganefndar Alusuisse-Lonza (A-L) um öll meginatriði væntanlegs samnings um stækkun álversins í Straumsvík um 62 þúsund tonna afkastagetu á ári, þ.á m. um orkuverð og skatta, að sögn Finns Ingólfssonar iðnaðarráðherra.

Stjórn Alusuisse-Lonza fjallar um málið 6. nóvember

Stjórn A-L á eftir að taka afstöðu til samningsdraganna. Hans Peter Held, blaðafulltrúi fyrirtækisins, staðfesti í gær að stækkun álversins á Íslandi yrði tekin fyrir á næsta stjórnarfundi þess 6. nóvember.

Christian Roth, forstjóri ÍSAL, sagði í samtali við Morgunblaðið að yfirlýsing ráðherra um samkomulagið í gær hefði verið ótímabær, því ekkert hefði í raun breyst. Þótt samkomulag hefði náðst um mikilvæg atriði væru smærri atriði enn ófrágengin og engin ákvörðun verið tekin af hálfu svissneska álfyrirtækisins. Réttara hefði verið að bíða fram í nóvember þegar ákvörðunar væri að vænta. Þá sagði Roth engan vafa leika á að yfirlýsingin hefði haft þau áhrif að verð hefði fallið á álmarkaði í gær. Roth sagði að álmarkaðurinn væri mjög viðkvæmur og þess vegna gæti yfirlýsing af þessu tagi haft tafarlaus áhrif á markaðnum.

Álverð lækkaði skyndilega um 60 dollara tonnið í London í gær, fór niður í 1.640 dollara, og hefur ekki verið eins lágt í eitt ár. Skv. fréttaskeyti Reuter-fréttastofunnar vakti álverðslækkunin síðdegis í gær mikla athygli. Ekki er minnst á hugsanlega fjárfestingu í stækkun álvers á Íslandi í fréttaskeytinu en fram kemur að skv. upplýsingum Alþjóðaálstofnunarinnar hafi heimsframleiðsla áls aukist minna í september en áður. Margir hafi haft áhuga á að kaupa, en staðan breyst óvænt síðdegis þegar mikil sala leiddi til þess að verðið hrapaði á skömmum tíma.

Iðnaðarráðherra kynnti samningsniðurstöðuna á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun og fékk heimild til að undirbúa staðfestingarlagafrumvarp um efni málsins sem leggja á fram á Alþingi eftir að stjórn Alusuisse-Lonza hefur fjallað um málið, að hans sögn.

Raforkuframkvæmdir fyrir tvo milljarða

Verði af stækkun álversins í Straumsvík er reiknað með að hún verði komin í rekstur á síðari hluta árs 1997. Kostnaður við framkvæmdirnar er talinn nema 13-14 milljörðum kr. Samningsdrögin voru einnig kynnt stjórn Landsvirkjunar í gærmorgun. Verði af stækkun þarf Landsvirkjun að ráðast í framkvæmdir sem taldar eru kosta um tvo milljarða króna til að geta séð fyrir viðbótarraforkuþörf álversins, skv. upplýsingum Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar. Er nauðsynlegt að auka árlega afkastagetu kerfisins um allt að 550 gígavattstundir á ári. Þar er um að ræða stækkun Blöndulóns í 400 gígalítra, lok byggingar fimmta áfanga Kvíslaveitu, og skipta þarf um vatnshjól í Búrfellsstöð þannig að afl hennar aukist um 35 megavött.

Sendinefnd Columbia Aluminium til Íslands

Skv. upplýsingum Þorsteins kemur nefnd á vegum bandaríska álfyrirtækisins Columbia Aluminium Corp. til Íslands um þessa helgi í vettvangskönnun en fyrirtækið hefur sýnt áhuga á staðsetningu álvers hér á landi. Hefur það keypt álverksmiðju í Þýskalandi sem það leitar nú að staðsetningu fyrir. Koma fjögur lönd til greina og er Ísland þeirra á meðal.