VILHJÁLMUR Egilsson, formaður Verzlunarráðs, telur að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem viðurkenndur er réttur sjálfstæðs atvinnurekanda til að gjaldfæra iðgjald sitt í lífeyrissjóð, sé tímamótadómur.
Formaður Verzlunarráðs um dóm um

lífeyrisgreiðslur einyrkja Tekur óvenju skýrt

undir jafnræðisregluna

VILHJÁLMUR Egilsson, formaður Verzlunarráðs, telur að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem viðurkenndur er réttur sjálfstæðs atvinnurekanda til að gjaldfæra iðgjald sitt í lífeyrissjóð, sé tímamótadómur.

"Það er ekki algengt að það sé svona skýrt tekið undir jafnræðisregluna eins og þarna er gert og maður veltir því fyrir sér hvort það eigi að draga einhverjar ályktanir af því varðandi mismunun í skattamálum á öðrum sviðum," segir hann.

Verzlunarráð hefur lengi barist fyrir að gerðar yrðu breytingar á skattalögum og framkvæmd skattyfirvalda á þeim hvað þetta varðar, þar sem eignarformum atvinnurekstrar væri mismunað, en slíkt bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Var talið geta valdið ríkissjóði 300-350 millj. tekjutapi

Að sögn Vilhjálms hefur þetta mál einnig verið til umfjöllunar bæði á Alþingi og í fjármálaráðuneytinu á undanförnum árum. Fyrir nokkrum árum stóð til að breyta lögunum á þann veg að iðgjaldshluti einyrkja í lífeyrissjóði yrði frádráttarbær en það náðist ekki í gegn vegna þess tekjutaps sem talið var að af því hlytist fyrir ríkissjóð, en áætlað var að kostnaðurinn gæti numið 300-350 millj. kr., að sögn Vilhjálms.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margir einyrkjar hafa þurft að greiða skatta af atvinnurekstrarframlagi sínu í lífeyrissjóði en Vilhjálmur sagði að sú hætta hefði alltaf verið fyrir hendi að einyrkjar, sem væru í þessari stöðu, söfnuðu ekki í lífeyrissjóði og treystu þess í stað á almannatryggingakerfið.

"Ég fagna þessum dómi. Ef dómstólar fara almennt að meta jafnræðisregluna svona skýrt, vakna spurningar um mismunun við skattlagningu milli atvinnugreina," sagði hann.