Þjóðleikhúsið frumsýnir Kardemommubæinn, hið sívinsæla barna- og fjölskylduleikrit Thorbjörns Egner, í fimmta sinn í dag. Orri Páll Ormarsson leit inn á æfingu og upplifði umburðarlyndi í sinni einföldustu mynd.
HIN HEILAGA

MINNING

Þjóðleikhúsið frumsýnir Kardemommubæinn, hið sívinsæla barna- og fjölskylduleikrit Thorbjörns Egner, í fimmta sinn í dag. Orri Páll Ormarsson leit inn á æfingu og upplifði umburðarlyndi í sinni einföldustu mynd.

MEÐ einlægri vinsemd má breyta öllu til betri vegar og meira að segja ræningjar geta orðið heiðarlegt fólk. Enginn er bara hetja og enginn er bara óþokki, og allir verða að fá að vera svolítið öðruvísi en aðrir . . . Umburðarlyndi í sinni einföldustu mynd."

Þessi orð er að finna í formála rithöfundarins ástsæla Thorbjörns Egner að leikritinu Kardemommubænum sem verður frumsýnt í fimmta sinn á Stóra sviði Þjóðleikhússins í dag kl.13.

Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri segir að boðskapur verksins felist í hnotskurn í orðum Egners. Kardemommubærinn sé öðru fremur kærleiksrík sköpun. "Þessi heimur, Kardemmommubærinn, er svo fullur af kærleika að það flóir yfir alla barma. Ræningjarnir ræna ekki af illsku heldur af nauðsyn og þótt Soffía sé skapvond er ekki í henni slæmur þráður. Í Kardemommubæ hafa allir kærleikann að leiðarljósi."

Leikstjórinn segir ennfremur að Kardemommubærinn sé dæmi um nánast fullkomið verk fyrir börn. "Það er allt í þessu uppbyggilega verki sem er að mínu mati mjög hollt veganesti fyrir börn. Færi betur ef allt barnaefni hefði jafnkærleiksríkan boðskap."

Vinsæll höfundur

Norðmanninn Thorbjörn Egner þarf vart að kynna en fáir rithöfundar hafa unnið hug og hjörtu íslenskra ungmenna með jafn afgerandi hætti. Hann sneri sér snemma að listum og eftir Egner liggja fjölmargar barnabækur sem hann myndskreytti sjálfur. Þeirra þekktastar eru Dýrin í Hálsaskógi, Karíus og Baktus og Síglaðir söngvarar, auk Kardemommubæjarins. Gerði hann leikrit upp úr öllum þessum sögum, samdi tónlistina, teiknaði leikmyndir og búninga og sviðsetti oft sjálfur. Verk Egners hafa verið þýdd á 24 tungumál, þar á meðal rússnesku, kínversku og arabísku. Hann lést árið 1990.

Kolbrún Halldórsdóttir sá Kardemommubæinn í Þjóðleikhúsinu ung að árum - eins og fjölmargir landsmenn. "Verkið fór beint inn í hugarfylgsnin og það má eiginlega segja að maður hafi þetta í genunum," segir hún. "Sem leikstjóri sæki ég minn innblástur beint í þessa minningu enda trúi ég því að upplifunin í leikhúsinu sé ein sterkasta upplifun bernskuáranna. Mig fýsir alltaf að endurvekja þessa tilfinningu hjá fullorðnu fólki en galdur leikhússins nýtur sín aldrei betur en þegar hann nær inn í barnssál hinnar fullorðnu manneskju."

Samkvæmt hefð

Kardemommubærinn hefur jafnan verið settur upp í Þjóðleikhúsinu samkvæmt hugmyndum höfundarins og eru leikmynd og búningar unnin með hliðsjón af fyrirmynd Egners. Kveðst Kolbrún alltaf hafa verið staðráðin í að fara hina hefðbundnu leið. Nýju fólki fylgi hins vegar nýjar hugmyndir og útfærslur.

Áratugur er síðan Kardemommubærinn var síðast á fjölunum hér á landi og Kolbrún segir að óhjákvæmilegt hafi verið að skoða hvað hafi gerst í mannlífinu og tækni leikhússins síðan. "Við tækifæri sem þetta er nauðsynlegt að spyrja sig hvernig leikhúsið geti komist fetinu lengra en síðast með uppsetningu sem þessa."

Að sögn Kolbrúnar felst áherslubreytingin að þessu sinni einkum í áferð leikmyndarinnar sem er eftir Finn Arnar Arnarsson. "Hún er teiknuð með mun sterkari hætti en áður, auk þess sem við brugðum á það ráð að styrkja hið suðræna andrúmsloft bæjarins - sem Egner sótti til Marokkó - meðal annars með því að bæta við blómahafið."

Björn Bergsteinn Guðmundsson gerir lýsingu í Kardemommubænum að þessu sinni, búningar eru eftir Guðrúnu Auðunsdóttur, tónlistar- og hljómsveitarstjóri er Jóhann G. Jóhannsson og hljóðstjórn er í höndum Sveins Kjartanssonar. Dansstjórn er í höndum Agnesar Kristjónsdóttur og Katrín Þorvaldsdóttir sér um dýragervi.

Kynntur í útvarpinu

Það voru systurnar Hulda og Helga Valtýsdætur sem fyrst kynntu Egner og verk hans fyrir Íslendingum í barnatíma Ríkisútvarpsins á sjötta áratugnum. Öll eru verk hans þýdd af Huldu en Kristján frá Djúpalæk annaðist bundna málið. Algengt er að þýðingar á erlendum leikhúsverkum séu teknar til endurskoðunar enda segir Kolbrún að þær séu almennt taldar eldast illa. Öðru máli gegni hins vegar um Kardemommubæinn.

"Það þekkir hvert mannsbarn á Íslandi þetta leikrit. Fyrsta uppfærsla Klemenzar Jónssonar og hans leikhóps var gefin út á plötu sem börn hafa hlustað á í þrjátíu ár. Þýðingarnar á söngtextunum falla að vísu ekki alltaf rétt inn í laglínuna en þjóðin þekkir lögin með þessum áherslum. Þetta er því í okkar huga "rétta leiðin" til að syngja þau. Við þýðingunum verður því ekki hróflað."

Máli sínu til stuðnings bendir Kolbrún á, að þótt Kardemommubærinn sé barnaleikrit sé leikhópurinn ekki síður að setja verkið upp fyrir fullorðna. "Við hefðum kannski ekki valdið börnunum svo miklum vonbrigðum ef við hefðum gert einhverjar róttækar breytingar á leikritinu. Við hefðum hins vegar hróflað við hinni heilögu minningu foreldranna."

Morgunblaðið/Ásdís TOBÍAS gamli hylltur á 75. afmælisdaginn.

RÆNINGJANA þrjá (Hjálmar Hjálmarsson, Pálma Gestsson og Örn Árnason) vantar tilfinnanlega ráðskonu og í skjóli nætur ræna þeir Soffíu frænku.

KAMILLA litla (Guðbjörg Helga Jóhannsdóttir) fær að fara á Kardemommuhátíðina í fylgd Soffíu frænku (Ólafíu Hrannar Jónsdóttur) og Tobíasar gamla (Árna Tryggvasonar).