ÞEIR, sem muna Austurstræti meðan það var enn göngugata og hluti af "rúntinum", sem svo var nefndur meðan Reykvíkingar komu þangað til þess að sýna sig og sjá aðra og í makaleit, undrast eyðileggingu og niðurlægingu, sem borgaryfirvöld hafa staðið fyrir í söguríku stræti.

Hvað varð um bernskuglöðu hlátr-

ana, sem ómuðu í Austurstræti?

Töfrar rúntsins eru horfnir, segir Pétur Pétursson , og troðið í tyggigúmmísvað. ÞEIR, sem muna Austurstræti meðan það var enn göngugata og hluti af "rúntinum", sem svo var nefndur meðan Reykvíkingar komu þangað til þess að sýna sig og sjá aðra og í makaleit, undrast eyðileggingu og niðurlægingu, sem borgaryfirvöld hafa staðið fyrir í söguríku stræti. Seinasta afrek þeirra, sem ráða húseignum með aldagömul tengsl við menningarsögu borgarinnar, er að afmá hið fagra og fræga heiti Hressingarskálans og leggja það að velli með amerískum yfirgangi MacDonalds, bandarískum auðhringi er hakkar matvælamauk og sker staðlaða hveitisnúða um heimsbyggð alla.

Það var einmitt í snyrtilegri veitingastofu Hressingarskálans, sem Tómas Guðmundsson kvað ljóð sitt um sólskinið á gangstéttum Austurstrætis. Það ljómaði í ljóði skáldsins. Nú er öldin önnur. Tugþúsundir tyggigúmmíbletta hafa lagst með klepri sínu og klístri á hverja gangstéttarhellu. Togleðrið í tyggigúmmíinu sem vegfarendur jórtra og kasta svo í kæruleysi varð öðru skáldi að yrkisefni í Vesturheimi. Einar Benediktsson gekk um götur New Yorkborgar, Fifth Avenue, Fimmtutröð. Hann kvað:

Hér læra svírar og bök sig að beygja

og burgeisar viljann að sveigja, -

svo glaðzt er við glataðan sauð.

En enginn tælist af orðum um jöfnuð,

auður og fátækt á hvort sinn söfnuð.Æpandi þröngvanna gróðagrip

á gjaldsins alvald dáðist ég að þar.

Á Blámanna-urmulsins yzta jaðar

hver einasti munnur var lekandi hrip.

Og jórturleðrið er jaxlað hraðar

í Jórvík nýju en annarstaðar.

Steinn Steinarr sagði frá því er hann átti sér helst athvarf í Hafnarstræti að lygarnar þeystu gleiðar og glaðar, hann hefði lengi dreymt um að eignast nýja skó, sem hæfðu Austurstræti, þeirri virðulegu götu. Það tókst og hann sat tíðum með vini sínum Vilhjálmi frá Skáholti, sem kvað ljóð um litlu fögru ljúfu vinkonuna, sem "hefir gleymt að elska Frón". Steinn hefði naumast haft þennan áhuga fyrir Austurstræti eins og það er nú. Hver nýtur göngu um þá götu eins og nú er komið sögu? Vegfarendur eiga þar hvergi griðland: Símalandi bifreiðir hafa lagt strætið undir sig. Umhverfisvernd er þar engin. Þrátt fyrir gaspur stjórnvalda um óson- lag og verndun þess og sífellt tal um umhverfisvernd er engin tilraun gerð til þess að hafa hemil á útblæstri bifreiða. Öflugir langferðabílar, háfjallajeppar, leigubílar og einkabifreiðar mala eitur og eimyrju með útblæstri sínum í akstri og lausagangi. Allt án afskipta lögreglu og bílbeltastaglara Umferðarráðs. Ef heilbrigðisyfirvöld hefðu döngun í sér og framtak til þess að hvetja ökumenn - já, raunar skylda þá til þess að forðast lausagang bíla á bifreiðastæðum væri andrúmsloftið ekki jafn mengað og raun ber vitni.

Orðhagur maður, Þórhallur Vilmundarson, nefndi Ingólfstorg - Brandgaflatorg. Hann staðhæfði að sjö brandgaflar sneru að torginu. Ein höfuðprýði Hafnarstrætis, Fálkahúsið, sem setti sérstæðan og sögulegan svip á umhverfið er nú hulið sjónum vegfarenda, rétt eins og því hafi verið skákað í skammakrók. Hlöllabar skyggir á stílhreint Fálkahúsið, sem gnæfði í hógværri tign sinni, sem tengiliður við fyrri tíð. Hlölli, sonarsonur Steindórs bílakóngs, er vel að því kominn að njóta aðstöðu á bílastæði afa síns. En sé það á kostnað fegurðar og sögufrægðar gildir það sem Steindór sagði við ökumann, sem lagði á stæði hans án leyfis: Heyrðu góði. Ef þú átt planið þá farðu bara með það.

Embættismenn og borgarfulltrúar Reykjavíkur hafa sett fram óskir um að Reykjavík verði valin menningarborg. Hvar hafa þeir gert ráð fyrir snyrtiaðstöðu í grennd við Ingólfstorg? Stundum er þúsundum stefnt á torgið til mannfunda og skemmtana. Er ekki nauðsynlegt að einhvers staðar sé athvarf til þess að sinna hreinlæti og snyrtingu? Mér vitanlega er enginn staður né athvarf til þess. Eins og nú er háttað virðist Ingólfstorg heldst vera athvarf hjólbrettaíþrótta. Auðvitað þurfa ungmenni vettvang fyrir æskuþrótt sinn og leiki. Þeirra er framtíðin. En ekki er hringsól þeirra og hopp mikill menningarauki á þessum stað.

Græna tréð hans Birgis Ísleifs er löngu visnað og horfið úr göngugötunni. Kaupmenn fengu sínu framgengt um opnun götunnar fyrir bílaumferð og áfengisútsölu að auki. Þar er jafnan þröng bifreiða, sem teppir umferð gangandi vegfarenda - og eykur enn á mengun og örtröð. "Rúnturinn" hefir misst allan þokka. Töfrar hans eru horfnir og troðnir í tyggigúmmísvað. Þúsundir ungmenna reika í ölvímu um Austurstræti borgarskáldsins. Stytta Tómasar, gjörð af Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara, gnæfði hátt á stalli í göngugötunni. Skáldið sem kvað: "Hvað varð um yður, Austurstrætisdætur?" Höfuð skáldsins hné að velli fyrir hendi ölvaðra gesta af einni ölknæpunni. Styttan hefir ekki sést síðan.

Bjarni Jónsson, rektor Latínuskólans, sá sem tók við af Sveinbirni Egilssyni, sem nemendur afhrópuðu sökum þess að hann vildi ekki leyfa víndrykkju þeirra, ritaði Jóni Sigurðssyni forseta um ástandið í miðbæ Reykjavíkur um miðja síðustu öld. Hann sagði engar framfarir hafa orðið nema hvað sett hefir verið upp billiardstofa. Iðjulaus ungmenni reika um gangstéttir bæjarins. Þar fara margir væntanlegir tugthúskandidatar. Vonandi verður ekki svo á okkar tímum. Vandamálin hafa löngum fylgt Reykjavík. Tími kominn til andófs. Þar þurfa fullorðnir að sýna fordæmi.

Höfundur er þulur.

Pétur Pétursson AUSTURSTRÆTI á meðan stytta borgarskáldsins var þar enn.