Nafnið Bermúda var upphaflega tengt dulúð og töfrum. Seinna vakti það hjá mönnum hugmyndir um galdra og yfirnáttúruleg fyrirbæri og má í því samhengi nefna Bermúda- þríhyrninginn. Shakespeare er sagður hafa byggt leikrit sitt Ofviðrið (The Tempest) á frásögn William Stracheys, embættismanns í Virginíu,

Á Bermúdaeyjum er enginn að flýta sér Eftir JÓNU

MARGEIRSDÓTTUR

Nýlega samþykktu íbúar á Bermúdaeyjum að vera áfram innan brezka samveldisins. Í þessari Paradís er stærsta vandamáið núna að halda íbúatölunni í skefjum.

Nafnið Bermúda var upphaflega tengt dulúð og töfrum. Seinna vakti það hjá mönnum hugmyndir um galdra og yfirnáttúruleg fyrirbæri og má í því samhengi nefna Bermúda- þríhyrninginn. Shakespeare er sagður hafa byggt leikrit sitt Ofviðrið (The Tempest) á frásögn William Stracheys, embættismanns í Virginíu, sem var farþegi á seglskipinu Sea Venture er það strandaði í fárviðri við Bermúdaeyjar árið 1609. Skipið, 300 tonn að stærð, var flaggskip sjö seglskipa flota á leið til Jamestown í Virginiu með vistir og aðrar nauðsynjar. Innanborðs voru einnig 150 karlar, konur og börn. Aðmírállinn Sir George Somers, sem í upphafi feril síns vann sér frægð og frama fyrir sjórán á spænskum skipum hlöðnum gulli og gersemum frá nýja heiminum, var að sjálfsögðu við stjórnvöl flaggskipsins. Grípum nú ofan í frásögn Stracheys: ". . . hræðilegur stormur og ógurlegur nálgaðist úr norðaustri ­ fór vaxandi og hvínandi líkt og í æðisköstum, á stundum ofsafengnari en öðrum ­ með tímanum afmáðist ljós himinsins og var eins og myrkur vítis umlykti oss..."

Strachey segir frá því hvernig allir um borð hjálpuðust að við að ausa og hvernig skipið skorðaðist síðan milli kletta og varð ekki haggað. Fólk var ferjað í land á árabátum og voru menn skelfdir mjög við tilhugsunina að þurfa að fara í land á hinum óttalegu Djöflaeyjum (Devils Islands) eins og þær voru kallaðar. Vissulega var búið að kortleggja eyjarnar árið 1511, sem nefndar voru La Bermuda eftir Spánverjanum Juan de Bermúdez, sem hafði komið þar við árið 1503. Skipbrotsmenn Sea Venture áttu ekki von á öðru en hörmungum en brátt kom í ljós að ótti þeirra var ástæðulaus.

Skipbrotsmennirnir fundu sannkallaða paradís. Fagurt, gróðursælt umhverfi og gnægð fæðu. Strachey sagði aðmírálinn Somers hafa fiskað svo vel að hann var aðeins hálfa klukkustund að metta mannskapinn. Gæði aflans sagði Strachey svo ágæt, að annað eins væri varla að finna í öllum heimsins höfum. Flestar tegundirnar voru mönnum framandi og margir fiskanna skrautlegir og skrítnir á svipinn. Tóku menn upp á því að nefna fiskana, hver eftir eigin duttlungum, og festust þau nöfn við sjávarfangið sem veiðist í kringum eyjarnar. Einnig fundu menn ógrynni af eggjum og fugla svo spaka að ekki þurfti annað en herma eftir kvaki þeirra svo þeir settust á axlir, höfuð og úrétta arma manna. Þessa fugla kölluðu menn kaa-há eftir hljóðum þeirra og stundum sæuglu vegna dagblindu þeirra. Þóttu þeir ljúffengir til matar og Strachey segir að ". . . teknar hafi verið 25 tylftir á tveimur klukkustundum."

V ILLISVÍN O G V ARASAMAR F ÍKJUR

Þótt varla væri á þessi gæði bætandi, uppgötvuðu menn villisvín sem nærðust á berjum sedrusviðar og pálma. Talið er að fyrrnefndur Bermúdez hafi verið á leið til Kúbu með farm af svínum er skip hans kom við á eyjunum. Hvort hann strandaði, eða rataði af einhverri slembilukku gegnum hindranir kóralrifa hins torsiglda skerjagarðs, er ekki vitað með vissu, en menn eru sammála um að trúlegt sé að Bermúdez hafi skilið svínin eftir á eyjunum.

Ekki var paradís alveg laus við óþægindi. Menn þurftu að fikra sig áfram í meðhöndlun gróðurs og ávaxta. Ávöxtur fíkjukaktusins er girnilegur á að líta, en purpurarauð fíkjan er þakin örfínum hárum sem festast í tannholdi og vörum þeirra sem leggja hana sér til munns. Þetta veldur miklum sársauka og jafnvel ígerð. Brennimjólk óx víða og var mönnum til ama. Þó gátu menn komið sér upp þaki yfir höfuðið með því að reisa bambuskofa og nota pálmalauf til skjóls. Hægt var að borða það sem oft kallast "hjarta pálmans" og hefur þeim hluta verið líkt við hvítkál. Sem betur fer voru hvorki eiturkvikindi né höggormar í þessum aldingarði.

En flotaforinginn Somers og hans menn ætluðu ekki að vera lengi í paradís. Þetta voru landnámsmenn á leið til Jamestown og fyrirheitna landið var Virginia. Menn tóku að undirbúa brottför sína. Eyjarnar voru kortlagðar eins nákvæmlega og þáverandi aðstæður leyfðu, svo unnt væri að komast út skerjagarðinn. Sedrusviðurinn var hinn ákjósanlegsti til skipasmíða. Menn smíðuðu langskip (long-boat) og gerðu út leiðangur til að leita aðstoðar við að komast vestur, en af honum heyrðist ekkert framar. Tvö önnur skip voru smíðuð, Deliverance (mætti þýða "Björg") og Patience (gæti með örlitlu skáldaleyfi kallast "Þreyja") svo loks komst fólkið til hinnar langþráðu Ameríku. Þegar skipbrotsmenn bar að garði var neyðarástand í Jamestown. Frumbyggjar höfðu leikið nýlenduna grátt. Voru þar aðeins sextíu manns á lífi og ríkti almenn hungursneyð. Sir George Somers og hans menn sneru aftur til Bermúda til að sækja í matinn handa Jamestown-búum.

Eins og gefur að skilja voru skipbrotsmenn síður en svo hrifnir af ástandinu í Jamestown. Þeir sem lifðu ævintýrið af tóku þá ákvörðun að sigla heim til Englands. Þrír uppreisnarseggir heimtuðu að verða eftir á Bermúda. Þegar leiðangur skipbrotsmanna kom heim til Englands varð uppi fótur og fit og vildu menn nú ólmir gera Bermúdaeyjar að löglegri nýlendu Jakobs I. Árið 1616 var hópur 60 landnámsmanna gerður út til að tryggja yfirráð Englakonungs yfir þessari paradís.

H EILLANDI S AMBLAND A F F ÓLKI

Bærinn St. George's var upphaflega höfuðstaður eyjanna, en núverandi höfuðborg er Hamilton. Hún er byggð við einstaklega fagurt og verndað hafnarsvæði, nokkurn veginn miðsvæðis og heitir í höfuðið á landstjóranum, Henry Hamilton, sem færði stjórnsýsluna um set árið 1788.

Eyjarnar teljast 138, en eyjaskeggjar segja þær 365, eina fyrir hvern dag ársins. Þá telja þeir vissulega hvert sker sem stendur upp úr hafinu þegar fjarar. Meginþorri íbúanna á heima á sjö eyjum sem brýr tengja. Nefndar frá austri til vesturs heita þessar stærstu eyjar: St. George's, St. David's, the Main Island, Somerset, Watford, Boaz- og Ireland Island, Íbúar eyjaklasans eru heillandi samansafn af afkomendum upprunalegra landnámsmanna frá Englandi, Afríkumanna og amerískra frumbyggja. Einnig bættust við Írar, Skotar og Portúgalar. Afríkumaður og indíáni voru fluttir fyrstir þræla til Bermuda 1616 og var þeim ætlað að kafa eftir perlum, en perluævintýrið varð að engu. Seinna var fjöldi þræla fluttur inn frá Vestur-Indíum og Norður-Ameríku og ekki leið á löngu þar til þrælar á eyjunum voru of margir. Sykurreyr var lítið sem ekkert ræktaður og engar sögur fara af baðmullarrækt.

Ekki er ætlunin að gera lítið úr þátttöku Bermúda í þeirri smán sem þrælkun Afríkumanna og frumbyggja Ameríku hafði í för með sér . Þótti sumum illa að þeim búið, en vitnað hefur verið í orð annarra sem þótti dekrað við þrælana á Bermúda miðað við það sem gerðist á eyjunum í Vestur-Indíum. Þó fannst Englendingum sem sóttu eyjarnar heim á dögum þrælahalds hörmulegt að oft fengu þrælarnir á Bermúda ekkert annað kjöt að éta en hvalkjöt sem þeir veiddu sjálfir. Bera mörg örnefni á eyjunum, og minjar í söfnum, þess vitni að hvalveiðar voru mikið stundaðar. Um langt skeið var ambergris, eða ambur eins og Íslendingar nefna þetta úrgangsefni búrhvala, verðmæt útflutningsvara vegna þess að efnið var lengi vel ómissandi þáttur í framleiðslu ilmefna. Einnig þótti mönnum ekkert athugavert við að kveikja bál á klettum til þess að lokka skip sem áttu leið framhjá eyjunum inn í skerjagarðinn og stunda rán, er þau strönduðu, sem aukabúgrein.

Bermúdamenn hafa frá upphafi verið miklir sægarpar. Þegar þrælahald var afnumið í breska heimsveldinu árið 1834, kom í ljós að eyjaskeggjar voru lítt hneigðir til bústarfa. Yfirvöld tóku þá ákvörðun að Portúgölum frá Asoreyjum og Madeira yrði boðið að koma til landbúnaðar- og ræktunarstarfa. Portúgalar gátu sér gott orð fyrir alúð og dugnað við jarðrækt og ástandið heima fyrir var óstöðugt. Fyrstu Portúgalarnir stigu á land á Bermúda árið 1849. Alla tíð síðan hafa flestir þeir garðyrkjumenn sem hlúð hafa að gróðri og stundað jarðrækt verið af portúgölskum uppruna. Vinnusemi, hógværð og þjónustulipurð þessa fólks hefur gert því kleift að festa sig í sessi í öllum atvinnugreinum. Þar á meðal eru stórkaupmenn, þingmenn, læknar, lögfræðingar o.s.frv. Portúgalar hafa varðveitt tungumál sitt og menningu, þótt þeir hafi látið það eiga sig hingað til að láta mikið á því bera.

B LÓM Í B UCKINGHAMHÖLL

Afleiðing vaxandi jarðræktar varð sú að útflutningur á afurðum sem ekki var hægt að rækta á veturna í nyrðri fylkjum Norður- Ameríku varð töluverð búbót. Aðallega voru þetta kartöflur, tómatar og hinn rómaði Bermúdalaukur. Seinna fóru menn að flytja út liljur, aðallega um páska. Þessi páskalilja er hvít (Lilium longiflorum) með stórum blómum og höfgandi ilmi. Bermúdamenn senda ævinlega talsvert magn af þessu blómi til konungsfjölskyldunnar í Buckinghamhöll fyrir páska. Það má taka fram að það væri til að æra óstöðugan að lýsa öllum þeim blómstrandi jurtum sem prýða eyjarnar, en ég hef orðið þess vitni að fólk rekur í rogastans þegar það sér pottablómin sín í risavöxnum útgáfum sem þarf að klippa reglulega til að halda í skefjum.

Staða eyjanna (600 sjómílur austur af Cape Hatteras, Norður Karólínu ­ í miðjum Golfstraumnum) og milt vetrarloftslag, 20- 25C, orsakaði að veturseta á eyjunum komst í tísku hjá auðmönnum frá norðausturríkjum Bandaríkjanna á seinni hluta nítjándu aldar. Rithöfundurinn Mark Twain, Samuel Langhorne Clemens (1835- 1920) eins og hann hét réttu nafni, var meðal þeirra fyrstu sem tóku ástfóstri við Bermúda og íbúana þar. Sjóferðin tók að minnsta kosti þrjá sólarhringa og eins og áður segir er oft úfinn sjór á þessum slóðum og hætta á fellibyljum á haustin. Haft er eftir skáldinu: "Bermúda er paradís, en maður verður að ferðast gegnum helvíti til að komast þangað." Í byrjun aldarinnar barðist Mark Twain gegn því að bifreiðar yrðu innfluttar ­ gekk um með undirskriftalista og fannst eimreiðin sem gekk endilangan eyjaklasann, frá St.George's til Somerset, reiðhestar, hestvagnar og reiðhjól ásamt ferjum og einkabátum sinna samgöngum fullkomlega.

Fyrsta bifreiðin á Bermúda var rúta, flutt inn skömmu fyrir seinni heimsstyrjöld. Eftir stríð fjölgaði einkabifreiðum stöðugt og eimreiðin var lögð niður. Flatarmál Bermúdaeyja er ekki nema 40 fermílur, þ.e.a.s 20 mílur á lengd og tvær mílur þar sem breiðast er. Nauðsynlegt var að takmarka fjölda bifreiða og er enn í dag óheimilt að skrá fleiri en eina bifreið á aðsetur. Ekki er leyfilegt að reka bílaleigur, en ferðamenn sem treysta sér á skellinöðru út í vinstri umferð hafa ekkert að óttast. Löglegur hámarkshraði er 20 mílur á klukkustund og þó að menn séu ekki teknir fyrir of hraðan akstur ef þeir halda sér undir 30 m, eru eyjaskeggjar einstaklega kurteisir í umferðinni og fylgjast grannt með gestum sínum sem fikra sig eftir krókóttum stígum á þessum farartækjum. Almenningsvagnar, rósrauðir á lit, eru líka áberandi.

Ferðamenn, eða gestir eins og Bermúdabúar kalla fólk sem sækir þá heim, eru gjarnan undrandi á því, þegar þeir loks sjá eyjarnar úr lofti, að öll húsaþök eru hvítmáluð. Þökin, sem eru hönnuð úr kalksteinshellum sem síðan eru kalkaðar, gegna öðru og meira hlutverki en að vera þak yfir höfuðið. Ferskt vatn er ekki að finna á því dýpi að það svari kostnaði að bora eftir því. Húsin eru því hönnuð þannig að regnvatni er safnað af þökunum í þrær undir grunni þeirra. Menn fara því með vatnið sem verðmæta náttúruafurð og þykir nánast glæpur að sóa vatni. Verði íbúi uppiskroppa með vatn þarf hann að kaupa það af öðrum sem eiga það aflögu. Einnig hefur verið komið upp veri sem eimar vatn úr sjó. Vatnið er í sjálfu sér ekki mjög dýrt, en flutningur þess í sérhönnuðum tankbílum kostar sitt. Til er vatnsveita sem sér mönnum fyrir vatni sem má nota í sundlaugar, þvotta og salerni, en er ekki drykkjarhæft. Slíkt vatn má finna á um það bil 60 feta dýpi og eru mörg dæmi um að menn bori eftir vatni á eigin landi til þvílíkra nota. Einnig má taka fram að við hvert hús er rotþró sem tekur við úrgangi íbúanna.

Bermúdamenn eru sagðir frumherjar í ferðaþjónusu vestanhafs. Jafnvel fyrir aldamót áttuðu þeir sig á því að þeir voru of fámennir og frumstæðir þegar iðnaður til útflutnings var annars vegar og tóku þeir þá ákvörðun að bjóða fólki, sem vildi borga þeim fyrir, að sækja þá heim. Sá fjöldi starfa sem skapaðist í kringum þessa iðju varð til þess að flytja þurfti inn fagmenn í hótelrekstri, matreiðslu og ýmsum öðrum störfum tengdum ferðaþjónustu. Leituðu þeir til Evrópu vegna þess að hinum tignu gestum þeirra var ekki bjóðandi nema það besta. Í dag er þar rekinn virtur hótelskóli sem eflaust er staðsettur í fallegasta umhverfi sem um getur í skólahaldi. The Bermuda Hotel College er til húsa á landareign Stonington Beach hótelsins og eru heimamenn þjálfaðir í öllu sem viðkemur hótelrektsri á sjálfu hótelinu. Nú þarf ekki lengur að flytja inn fagmenn erlendis frá, heldur sækjast aðrar þjóðir eftir þeirri þekkingu sem Bermúdamenn hafa fram að færa.

E NGAR B ERBRJÓSTA K ONUR

Strax þegar augljóst var að Bermúda var áfangastaður hinna vandlátu tóku ráðamenn þá stefnu að sníða sér stakk eftir vexti. Ákveðið var að takmarka fjölda gesta með því að leyfa ekki óbeislaða byggingu gistihúsa, bjóða aðeins upp á það besta og fá gott verð fyrir vöruna. Ýmsar reglur þóttu íhaldssamar ­ eins og til dæmis sú að ef fólk lét sjá sig á götum úti í ósæmilega stuttum buxum (Bermúda-buxur voru löglegar), menn berir að ofan eða konur með krullupinna í hárinu, fékk sá sem átti í hlut áminningu frá lögreglunni sem rétti viðkomandi grænan miða. Krafist var að menn mættu til kvöldverðar í skyrtu með hálstau og vitaskuld í jakka. Ýmsar þessar reglur eru ekki teknar eins alvarlega í dag og ég býst við að flestir veitingastaðir séu hættir að vera með hálstau á lager fyrir þá sem ekki kunna sig. Eitt er þó víst, að það varðar við lög að kona láti sjá sig berbrjósta á baðströnd. Annað sem er algjörlega bannað enn þann dag í dag er auglýsingaskrum í umhverfinu ­ engin skilti, neonljós eða þessháttar.

Og hvað getur svona lítill eyjaklasi, sem telur 50 til 60 þúsund íbúa, tekið á móti mörgum ferðamönnum á ári? Þegar best lét um það bil 500.000. Athafnaskáldin létu ekki að sér hæða og um miðbik aldarinnar, þegar samkeppni í ferðaþjónustu fór vaxandi, tóku menn það til bragðs að bjóða alþjóðafyrirtækjum aðsetur á Bermúda svo þau gætu nýtt sér skattaívilnun heimafyrir. Í öllu írafárinu í sambandi við vinsældir eyjanna sem áfangastaðar efnaðra ferðamanna og allri þeirri velmegun sem því fylgdi gleymdist að hugsa um aukaatriði eins og tekjuskatt og gjöld af ýmsu tagi. Yfirbygging hins opinbera var í lágmarki og tollur var settur 20% á allan innflutning sem ekki var tollfrjáls á annað borð. Ferðamenn borguðu, og borga enn, brottfararskatt. Velferð sem slík var í höndum íbúanna sjálfra, sjúkratrygging í umsjá atvinnurekenda og prestaköllin níu sáu um þá sem ekki gátu séð um sig sjálfir. Nú tóku menn Hong Kong sér til fyrirmyndar og kynntu Bermúda sem aðlaðandi aðsetur fyrirtækja. Vel menntað starfsfólk var til staðar, samgöngur til fyrirmyndar og nálægð við Bandaríkin var tvímælalaus kostur. Það var óþarfi að taka fram að loftslagið var óaðfinnanlegt og umhverfið yndislegt. Einu forsendurnar fyrir því að fyrirtæki fengi að starfa þar var að það borgaði ákveðið gjald við stofnun útibúsins, síðan ár hvert, fengi lögfræðing sér til fulltingis og réði aðeins heimamenn. Undanþága í þeim efnum var fengin ef framboð á atvinnu varð meira en framboð á starfsfólki, eða ef ekki var fáanlegur heimamaður með ákveðna sérþekkingu fyrir hendi. Eins varð fyrirtækið að skipta við innlendan banka. Í dagblaðinu Royal Gazette, 16 febrúar síðastliðinn er úttekt á fjárlagafrumvarpi sem segir að stórbankarnir tveir (sá þriðji kemst ekki með tærnar þar sem þeir hafa hælana), The Bank of Bermuda og The Bank of Butterfield skuli greiða eina milljón dollara fyrir bankaleyfi í ár. Bermúda er að því leyti frábrugðin öðrum skattaparadísum að erlendir bankar fá ekki að starfa þar. Fyrirtæki skulu greiða launaskatt og sjúkrahússkatt ­ samtals 11,5% , en sé heimilt að taka 4% af þeirri upphæð af launþega ef þeim þóknast. Í framhjáhlaupi má geta þess að meðaltekjur heimilis á Bermúda eru fimmtíu þúsund dollarar (gengi Bermúda dollars er hið sama og US$.)eða sem svarar 3,250 milljónum ísl króna; það gerir 271 þús. á mánuði.

Á FRAM Í B RETAVELDI

Stærsta vandamál Bermúda er að halda íbúafjöldanum í skefjum og er það gert með ströngum reglum um atvinnuleyfi, dvalarleyfi og ríkisfang. Bermúda er enn í breska samveldinu, en sjálfstæði hefur verið til umræðu árum saman. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um málið í ágúst síðastliðnum. Meirihluti kjósenda greiddu því atkvæði að Bermúda yrði áfram í breska samveldinu. Eignaskattur var innleiddur fyrir um það bil aldarfjórðungi og þá aðallega miðaður við steinsteypu. Þ.e.a.s. þeir sem áttu stór hús, steyptu sér palla, sundlaugar, heimreiðar og því um líkt borguðu meira en þeir sem áttu stórar ræktaðar lóðir. Samt er land á Bermúda líklega hið verðmætasta á jarðkringlunni vegna smæðar eyjanna. Langflestir íbúanna kaupa landið sem þeir byggja og reynt hefur verið halda lóðum í dreifbýli ekki minni en fjórðungi ekru, eða 0,1 hektara.

Bermúda mjakast í átt að velferðarstefnu og yfirbygging hins opinbera stækkar. Ágreiningur hefur verið um hvort slíkt smáríki geti haldið uppi utanríkisstarfsemi, sendiráðum o.s.frv. Þeir sem eru fylgjandi sjálfstæði benda á að samstarf í þeim efnum sé þegar fyrir hendi meðal smáríkja í Karíbahafinu. Hinir halda réttilega fram að Bermúda sé ekki í Karíbahafinu, að eyjaskeggjar hafi hingað til grætt á því að halda sínum bresku hefðum og vilja halda áfram að vera þegnar hennar hátignar Elísabetar II. Bretaveldi er heldur ekkert að skipta sér af því hvernig þeir stjórna sínum málum. Landstjórinn er aðeins til skrauts á tyllidögum og tilbúinn að taka á móti þjóðhöfðingjum þegar svo ber undir. Krúnan sér um varnarmál eyjanna og utanríkismál.

Vinsælt dægurlag sem öldungurinn og trúbadorinn Hubert Smith, sem er eins og flestir eyjarskeggjar hvítur, svartur og portúgalskur í bland, með kannski örlítið af amerískum frumbyggja aftur í ættir, byrjar á þessum orðum: "Bermuda is another world, seven hundred miles at sea . . ." Þýðingin kann að vera klaufaleg en hljómar eitthvað á þessa leið: "Bermúda er annar heimur, sjö hundruð mílur úti á sjó . . ." Þá er miðað við fjarlægðina frá New York ­ tveggja tíma flug og vissulega finnur stórborgarbúinn annan heim. Þó að Bermúdabúar séu duglegir og vinnusamir er enginn að flýta sér. Allir hafa tíma til að brosa og bjóða gestum góðan dag. Annar öldungur, sem er kallaður ambassador Barnes, stillir sér upp við hringtorg á bæjarmörkum Hamilton klukkan sjö á morgnana alla virka daga til að koma vinnandi fólki í gott skap. Þessi hvítskeggur, þeldökkur, en eins og Hubert talsvert blandaður, heilsar glaður og veifar fólki sem ekur makindalega til vinnu. Menn taka daginn snemma og eru kannski búnir að fara níu holur áður en þeir mæta í vinnu. Miðað við landrými eru fleiri golfvellir á Bermúda en þekkist annars staðar í heiminum.

Eyjarnar hafa nú eignast viðurnefnið Isles of rest, eða "hvíldareyjar." Ferðalangar sem sækjast eftir fjöri eða fjárhættuspili eiga ekkert erindi þangað. Þar er hægt að skemmta sér í rólegheitum og njóta heilbrigðrar útiveru bæði á sjó og landi. Gárungar, sem vilja umfram allt stuð og æsing, hafa sagt að Bermúda sé áfangastaður fyrir "the newly wed and the nearly dead" ­ nýgift fólk og næstum dauð gamalmenni. Kannski voru það eyjaskeggjar sjálfir sem komu þessum orðrómi á kreik til þess að vernda hið einstaka andrúmsloft sem þeim sjáfum er svo kærkomið: glaðværð, rólegheit og reisn.

Höfundur bjó á Bermúdaeyjum í tvo áratugi, en er nú fluttur til Íslands.Blár himinn, blátt haf og hvít hús innan um pálmana. Þannig eru Bermúdaeyjar og í þeirri paradís bjó greinarhöfundurinn í tvo áratugi.GERT út á sjóinn og sólskinið - en í hófi. Þegar ljóst var að Bermúdaeyjar höfðu skilyrði til að verða dvalarstaður hinna vandlátu, gerðu ráðamenn sér ljóst að eyjarnar eru "takmörkuð gæði" eins og nú er sagt, og því hefur ekki verið leyfð óbeisluð bygging hótela. Stefnt var að því að bjóða aðeins það bezta og fá gott verð fyrir.Á BERMUDAEYJUM eru fleiri golfvellir á ferkm. en víðast hvar annarsstaðar, enda eru þeir eitt af því sem dregur að efnaða ferðamenn. Gamlar brezkar hefðir eru lífseigar á golfvöllum og þar mega menn ekki láta sólina skína á bert hold nema í hófi. Þó er leyfilegt að leika á síðum stuttbuxum, svonefndum Bermúdabuxum.

PÉTURSKIRKJAN í bænum St. Georges er sérkennilegt og fagurt guðshús.

BERMÚDAEYJAR eru vinsæll viðkomustaður ótal lúxusskipa sem sigla við austurströnd Bandaríkjanna og um Karíbahafið. 50-60 þúsund íbúar Bermúdaeyja hafa stundum tekið á móti tífaldri íbúatölunni, eða um hálfri milljón.