Flytjendur: Karlakór Reykjavíkur, Kór Langholtskirkju, Diddú, Anna Guðný og fl. Þriðjudagur 17. otkóber. BAROKKORGEL í Langholtskirkju, hvað skyldi það nú vera? Víst hljómar orðið vel, þótt óíslenskt sé, og víst geta raddir þessara orgela hljómað fagurlega og saman geta þær einnig hljómað fagurlega en þó því aðeins að þeim sé af þekkingu og næmum smekk saman raðað í hljóðfærinu,
Sungið og spilað til orgelkaupa

TÓNLIST

Langholtskirkja

TÓNLEIKAR

Flytjendur: Karlakór Reykjavíkur, Kór Langholtskirkju, Diddú, Anna Guðný og fl. Þriðjudagur 17. otkóber.

BAROKKORGEL í Langholtskirkju, hvað skyldi það nú vera? Víst hljómar orðið vel, þótt óíslenskt sé, og víst geta raddir þessara orgela hljómað fagurlega og saman geta þær einnig hljómað fagurlega en þó því aðeins að þeim sé af þekkingu og næmum smekk saman raðað í hljóðfærinu, sem ákvarðast af hljómburði og stærð kirkjunnar, sem hýsa skal hljóðfærið.

Eins og nafnið bendir til eiga barokkhljóðfæri nútímans að vera eftirlíking af hljóðfærunum sem smíðuð voru á tímum barokksins, þ.e. á tímum Bachs og fyrir hans tíð. Orgel þessi voru smíðuð með þá músík í huga sem skrifuð var á þessum tíma og lýkur með orgelbókmenntum Bachs. Rómantísk tónlist, í þeirri mynd sem við skilgreinum hana, þekktist ekki þá og orgelin því ekki hönnuð fyrir þann stíl. Með rómantíkinni byggðu menn önnur orgel sem skilað gátu rómantísku orgelbókmenntunum og komu þá til ýmis hjálpargögn sem fyrri tímar þekktu vel og voru rómantíkinni nauðsyn.

Orgel og kirkja þurfa að fallast í faðma. Undirritaður minnist þess að á tónleikaferð um Þýskaland lék hann á eitt slíkt barokk-orgel í sérlega fallegri gamalli kirkju og svo vel harmoneruðu saman byggingarstíll þessarar gömlu kirkju og orgelsins að undirritaður fékk á tilfinninguna að kirkjan hefði verið byggð utan um orgelið. Spilaborð barokk-orgelsins var minna en það sem ég átti að venjast (þ.e. hafði færri nótur) og skapaði mér erfiðleika í þeirri efnisskrá sem ég flutti, auk þess að á efnisskránni voru, í bland, rómantísk og nútíma verkefni sem flytja hefði átt á öðru vísi hljóðfæri. Í annað sinn lék undirritaður á orgel, sem undir venjulegum kringumstæðum hefði ekki verið talið gott hljóðfæri, en var sett upp í nýlega steinkirkju, stóra, tóma og ferkantaða og hljómaði líkt og verið væri að róta í glerbrotum í glerkistu.

Eigi að síður urðu þetta mér (og fleirum) eftirminnilegir tónleikar vegna umhverfis og hljóms. Svona eru orgel og því er áríðandi að velja þannig að í ljúfa löð falli. Undirritaður á svolítið erfitt með að sjá og heyra fyrir sér barokk-orgel í byggingarstíl Langholtskirkju og einnig svolítið erfitt að sjá fyrir sér tónlistina og altarisþjónustuna við sama vegginn - austurhliðina. Einnig finnst honum svolítil synd að eiga ekki von á að heyra rómantíska tónlist í sinni réttu mynd, í miklum og líklega ágætum orgelhljómi kirkjunnar, en þá væri einnig 32 radda orgel of lítið. En svona skulum við allir verða ánægðir í lokin; en væri þó ekki líkt Íslendingum; en að minnsta kosti höfðu allir þeir ágætu listamenn, sem fram komu á tónleikunum til styrktar orgelkaupunum, fallega trú á fyrirtækinu, svo ágætlega sungu þeir og léku.

Stærstan hluta efnisskrárinnar báru þær stöllur Sigrún Hjálmtýsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir og báðar töfruðu þær áheyrendur, Sigrún með sína óvenju hrífandi söngrödd og Anna Guðný sem sýndi enn einu sinni hversu frábær kammermúsiker hún er.

Með ósk um að sem flestir sameini sig um orgelkaupin.

Ragnar Björnsson