Finnbogi Jón Rögnvaldsson Bróðursonur minn Finnbogi Jón Rögnvaldsson er látinn eftir stutta en harða baráttu.

Þegar dauða ættingja og vina ber að, veldur það sorg og trega, en seinna víkur sársaukinn fyrir ljúfum minningum liðins tíma.

Finnbogi ólst upp á góðu heimili, umvafinn ást og kærleika foreldra og systkina, fyrst á Sauðárkróki og síðan á Seyðisfirði.

Þegar fjölskyldan flutti austur, var síldarævintýrið á fullu, fólk lifði hratt og tóku unglingarnir virkan þátt í þeim hraða, ekki alltaf eftir uppskrift foreldranna. Finnbogi var einn þeirra, hrókur alls fagnaðar og hvers manns hugljúfi, enda vinmargur.

Á Seyðisfirði kynntist hann konuefni sínu Kolbrúnu Sigfúsdóttur og flutti hún með fjölskyldunni til Reykjavíkur. Þar hóf hann nám í húsasmíði hjá Kristni Sveinssyni, byggingameistara. Aldrei hitti ég svo Margréti konu Kristins að hún minntist ekki á frænda minn og færðist þá bros yfir andlit hennar.

Gaman var þegar systkinasynirnir fimm sem allir heita Finnbogi, hittast, enginn vissi hver ætti að svara þegar nafnið var nefnt og svöruðu því allir í einu.

Feðgarnir Finnbogi og Rögnvaldur voru sérstaklega samrýndir. Kom það vel í ljós þegar fjölskyldan stóð sameiginlega að byggingu sumarbústaðar í Skorradal, að hvorugur mátti af öðrum sjá.

Elsku Kolla mín, megi góður Guð veita þér og fjölskyldunni styrk og huggun. Það var ykkar gæfa að eiga Finnboga.

Ég og börn mín, Þorsteinn Már, Margrét, Finnbogi Alfreð og fjölskyldur þeirra sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Björg.