SIGURÐUR SVEINSSON

Sigurður Sveinsson var fæddur 15. júní 1909 í Vík í Mýrdal. Sigurður lést á Klausturhólum 15. október síðastliðinn. Hann var sonur hjónanna Eyrúnar Guðmundsdóttur og Sveins Þorlákssonar, símstöðvarstjóra. Árið 1918 fer hann að Ytra-Hrauni í Landbroti og á þar heimili til ársins 1935 hjá Bjarna Bjarnasyni og konu hans, Sigrúnu Þorkelsdóttur. Eftir það er Sigurður í þrjú ár bústjóri í Mjóanesi í Þingvallasveit. Árið 1937 drukknaði Bjarni í Ytra-Hrauni við selveiði í Skaftárósi. Á næsta vori kaupir Sigurður jörðina og flytur þangað ásamt Þórdísi Ágústsdóttur, sambýliskonu sinni. Í Ytra-Hrauni búa þau síðan meðan kraftar leyfðu, síðustu áratugina með sonum sínum. Síðasta árið hafa þau dvalið á hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri. Börn Sigurðar og Þórdísar eru: Arnar Eysteinn, maki Jóhanna Stefánsdóttir, búa í Ytra- Hrauni. Birna, maki Högni Jónsson, búsett í Reykjavík. Gunnlaugur Valþór, bóndi í Ytra-Hrauni. Ágústa, var gift Oddi Eggertssyni, Kirkjubæjarklaustri, sem lést af slysförum á síðasta ári. Útför Sigurðar fer fram frá Prestbakkakirkju á Síðu og hefst athöfnin klukkan 14.