Sigurður Sveinsson Sigurður Sveinsson kom ungur að árum að Ytra-Hrauni í Landbroti og þar vann hann sitt ævistarf. Á bernskuárum hans var að hefjast framfarasókn tuttugustu aldarinnar, sem hefur haldið áfram með vaxandi hraða fram að þessu. Í fyrstu byggðist árangurinn á því að nýta sér arf forfeðranna, þrautseigju, harðfylgni og skilning á kostum náttúrunnar. Afkoman valt á því hvernig það tókst. Með hagsýni og afli vinnandi handa var lagður grunnur að betri tíð.

Sigurður var alltaf ólatur að leggja fram krafta sína. Í Ytra- Hrauni hefur búskapurinn fyrst og fremst byggst á sauðkindinni og hvernig tækist að afla henni fóðurs. Á uppvaxtarárum hans var það gert með orfi og hrífu á misjafnlega grasgefnum engjum, svo að heyfengurinn var takmarkaður og bústofninn ekki stór. Af þeim sökum þurfti víðar að leita fanga.

Sigurður lagði því stundum af stað gangandi til sjóróðra á Suðurnesjum í upphafi vetrarvertíðar með föggur sínar á bkainu. Hann var líka ekki alveg ókunnur sjósókn, þrátt fyrir hafnleysi skaftfellsku sandanna, því að Bjarni fóstri hans var lengi formaður á árabáti við uppskipun á vörum úr flutningskipum við Skaftárós og reyndi einnig að róa þar til fiskjar. Sigurður var líka kappsamur veiðimaður í vötnum, ósum og jafnvel sjávarlónum á meðan silungsveiði var stunduð með ádrætti. Veiði var líka stunduð í Mjóanesi, þegar hann flytur þangað og hefur sambúð með Þórdísi Ágústsdóttur frá Ásgarði í Landbroti.

Þegar Bjarni fóstri hans fellur frá með sviplegum hætti flytja þau Þórdís aftur á heimaslóðir og kaupa Ytra-Hraun af Sigrúnu, ekkju hans. Var komu þeirra fagnað af nágrönnum og sveitungum. Fljótlega eftir að Sigurður hóf sjálfur búskap í Hrauni kom ræktunarbyltingin meðan nýja möguleika og aukin verkefni. Grundin við gamla túngarðinn varð að túni. Þegar því var lokið var tekið til við gróðurlítil skerin. Með auknum heyfeng fjölgaði fénu sem aftur kallaði á stærri hús. Við byggingu þeirra sameinaði Sigurður nýja tækni og gamla byggingarlist. Með vélarafli færði hann til og lyfti stærri steinum við veggjahleðslu en forfeðurnir orkuðu með handafli einu og raðaði þeim af þeirri snilld að listaverk var skapað.

Útsjónarsemin kom fram á mörgum fleiri sviðum. Með aðstoð svila síns, Eiríks í Svínadal, byggði hann heimilisrafstöð við aðstæður, sem fáum öðrum hefðu sýnst nothæfar. Útkoman varð samt betri en þorað var að vona og rafstöðin gengur enn eftir fjóra áratugi og átti sinn þátt að bæta fóðuröflunina með súgþurrkun.

Sauðkindin þarf samt meira en fóður og húsaskjól. Hún þarf góða hrðingu nsætum allt árið. Það krefst natni og mikillar vinnu, ekki síst í hinu víðlenda og torfæra beitilandi Ytra-Hrauns, þar sem Skaftáreldahraunið stöðvaðist fyrir rúmum tvö hundruð árum. Vel þurfti að fylgjast með fénu, því að hætturnar voru margar. Tófunni fannst gott að nota hraunið fyrir bústað og draga lömb á greni. Í sandbyljum á melunum, þar sem gróðurinn kom snemma á vorin, fylltist ullin á ánum af sandi. Þurfti þá að bregða við skjótt, hrista hana úr og reisa þær við.

Það kom sér því vel að Sigurður var léttur á fæti, því að oft var farið gangandi, þó að oftar væri gripið til hestsins og honum beitt á urð og grjót, sem ekki er árennilegur reiðvegur. En ótrúlegt er, hvað hestarnir venjast slíku. Sigurður átti því marga góða og trausta hesta og naut þess vel að nota þá. Það voru líka ekki aðeins hrjóstrug heimalöndin, sem þurfti að smala. Á hverju sumri var féð rekið á afrétt og sótt þangað aftur að hausti. Er ólíklegt að aðrir en Sigurður eigi fleiri ferðir á Landbrotsafrétt og urðu þær stundum harðsóttar.

Þó að fjárgæsla og smalamennskur væru sóttar af kappi og ekki hugsað um hverjir kindurnar áttu, þá notaði Sigurður einnig hestana til að reka önnur erindi og bregða sér bæjarleið til að hitta nágrannana. Þeim sið hélt hann fram á síðasta ár og þannig mynd geymist af honum í minni samferðamannanna.

Þó að hér hafi verið nefnd örfá minnisverð atriði í farsælu ævistarfi, þá verður það maðurinn sjálfur, góður granni og náinn samstarfsmaður, sem verður mér efst í huga við fráfall Sigga í Hrauni. Samstarf milli heimilanna í Seglbúðum og Ytra-Hrauni var náið við smalamennsku, veiðiskap og önnur þau störf, sem æskilegt var að leggja saman hönd á plóginn við að leysa. Reynsla kynslóðanna staðfesti þann sannleika, að slíkt samstarf var nauðsynlegt til að standast hina hörðu lífsbaráttu, enda talið sjálfsagt að láta það ganga fyrir eins og frekast var kostur að leggja nágrannanum lið.

Sú var reynsla mín af viðbrögðum Sigga í Hrauni þegar til hans var leitað og á ég erfitt með að hugsa mér, að samvinna nágranna geti verið betri. Svo úrtölulaust var jafnan brugðist við og rösklega gengið til verks og framkoma öll einkenndist af glöðu viðmóti og glettnum svörum, þó að engum dyldist að ákveðinn vilji og skap bjó að baki.

Með innilegu þakklæti sendum við hjónin Þórdísi og fjölskyldu samúðarkveðjur og biðjum þeim blessunar guðs.

Jón Helgason.