Þorsteinn Brynjólfsson Þegar ég sest niður til að skrifa síðbúna kveðju um afa er svo margt sem kemur upp í hugann. Allar stundirnar sem ég átti heima hjá afa og ömmu þegar ég var yngri.

Mikið af mínum bernskuminningum eru tengdar afa og ömmu á Holtsgötu, en þar varði ég miklu af mínum tíma sem barn. Seinna fluttu þau svo á Hagamel 48. En afi bjó þar lengst af einn því amma lést eftir stutta búsetu þar. Hún lést 17. janúar 1989.

Það var alltaf gott að koma til afa. Þar upplifði ég góðar stundir og æskuminningar, innan um alla hlutina sem ég man svo vel eftir úr æsku minni.

Ég minnist þess hve afi hafði mikla þolinmæði við að kenna mér hina ýmsu hluti og miðla af sínum fróðleik og þekkingu. Þegar ég var lítil hlýddi hann mér yfir skólaljóðin og kenndi mér stærðfræði af einstakri þolinmæði. Seinna þegar ég sem unglingur rembdist við að læra dönsku gat ég alltaf leitað til afa eftir hjálp.

Afi hafði gaman af að hjálpa mér við lærdóminn og var honum mikið í mun að ungdómurinn menntaði sig. Hafi ég yfir Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar verður mér hugsað til afa, þó sérstaklega þessi tvö erindi:

Hugsa um það helst og fremst,

sem heiðurinn má næra.

Aldrei sá til æru kemst,

sem ekkert gott vill læra.Oft er sá í orðum nýtur,

sem iðkar menntun kæra.

En þursinn heimskur þegja hlýtur,

sem þrjóskast við að læra.

Með þessum fátæklegu línum kveð ég afa minn og þakka fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.

Eva Lind.