Þorbjörg Hulda Guðjónsdóttir Vinkona mín, Hulda Guðjónsdóttir, bóndi á Eiríksbakka, hefur fengið kærkomna hvíld eftir erfið veikindi. Þegar ég kom fyrst að Eiríksbakka, hafði ég á tilfinningunni að þar á bæ hefði tíminn stöðvast á fjórða áratugnum. Lítinn tilgang sá ég í þessum búskaparháttum annan en mikið líkamlegt strit fyrir einsetubóndann. En hlýjan í gamla þægindasnauða bænum, góðar veitingar og hlýlegt viðmót breyttu fljótlega þessu áliti mínu. Hefði einhver sagt við mig þá, að eftir nokkur ár ætti ég eftir að ganga í þessi "frumstæðu" verk, hefði ég hlegið hátt. Þó fór svo að í helgarheimsóknum fór ég að læðast í fjósið og fékk náðarsamlegast að sýna getu mína við handmjaltir. Síðan varð það fastur liður að fara í fjósið með Huldu þegar ég kom í heimsókn. Áttum við þar margar góðar og skemmtilegar stundir, enda stutt í gamanið hjá Huldu. Töluverðar breytingar urðu á Eiríksbakka árið 1984, þegar systursonur Huldu, Guðjón, byggði nýtt íbúðarhús með nútíma þægindum, fyrir hana. Þó oft heyrðist fuss og taut við þessar og aðrar nauðsynlegar breytingar á staðnum og gamla íbúðarhúsið lofað, gerði hún sér þó vel grein fyrir því að þetta gerði henni kleift að þrauka lengur við búskapinn. Líkamsstritið var farið að segja til sín og haustið 1985 þurfti hún, í fyrsta skipti á ævinni, að fara í aðgerð á sjúkrahús. Fyrirsjáanleg var 4-5 mánaða skert starfsorka og því var leitað eftir afleysingabónda. Það verk tók sonur minn Bjarni fúslega að sér, en Hulda handleggsbrotnaði nokkrum vikum fyrir aðgerð og Bjarni ekki laus. Því afréð ég að brúa þetta bil, pakkaði saman tölvu og tilheyrandi pappírs- og bókaflóði og hélt til starfsins. Ekki gleymi ég svipnum á minni þegar hún sá allt þetta "drasl", en ég sagði henni að nú skyldum við segja sveitungunum að verið væri að tölvuvæða búskapinn á Eiríksbakka. Þessu hafði hún lúmskt gaman af. Þessar fáu haustvikur okkar Huldu eru mér ógleymanlegar. Ekki treysti hún borgardömunni fullkomlega fyrir dekurdrottningunum í fjósinu og lét sig hafa það að hjálpa til við mjaltirnar einhent. Þegar hún hinsvegar sá að hægt var að nota mig möglunarlaust til ótrúlegustu verka og hvenær sem var hægt að hringja í "neyðarnúmerið" á Ósabakka, held ég að hún hafi farið nokkuð róleg af bæ. Hún treysti því að ég hefði lært nóg og sæi um að Bjarni og Guðjón gerðu enga vitleysu. Bjarni var hjá Huldu í 4-5 mánuði og fór vel á með þeim þó fussað væri stundum yfir verklagi hans. Breytingar og endurbætur voru henni ekki að skapi og fengum við sem að því stóðum, stundum heldur betur að heyra það. Til hvers að breyta? Hún hafði nægan tíma og þetta var líf einsetubóndans sem vildi eyða sem mestum tíma með skepnum sínum. En ég veit að hún meinti lítið með þessu, enda gerði Guðjón henni kleift að eiga mörg góð ár á Eiríksbakka. Í janúar 1992 fékk Hulda heilablæðingu og tapaði að mestu sjóninni og því augljóst að bóndinn varð að horfast í augu við starfslok. Eitt erfiðasta verkefni sem ég hef tekist á við, var að fara til Huldu á sjúkrahúsið og ræða stöðuna, því hvað var eftir ef hún gæti ekki hugsað um skepnurnar sínar? Þetta skildum við vel sem kynntumst náið náttúrubarninu og dýravininum Huldu. Hennar tónlist kom ekki úr rafmagnstækjum, heldur beint úr náttúrunni. Þar sungu og tjáðu sig hennar bestu vinir. Ég viðurkenni að ég dauðvorkenndi í fyrstu hjúkrunarfólkinu sem átti eftir að annast Huldu í veikindum hennar, en þar kom hún mér og fleirum á óvart, því hún varð hvers manns hugljúfi. ­ Sterkur persónuleiki sem hélt sínu þegar við átti og gaf eftir með bros á vör ­ sigruð. Og nú fór sól að nálgast æginn, og nú var gott að hvíla sig, og vakna upp ungur einhvern daginn með eilífð kringum þig.

(Þorsteinn Erlingsson) Hulda mín, nú höfum við sungið okkar síðasta vers saman, en vonandi bara í bili. Um leið og við Daníel og Bjarni kveðjum okkar kæru vinkonu, sendum við systkinum hennar, Guðjóni og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur. Theodóra Þ. Kristins

dóttir (Dóra)