Ásdís Guðmundsdóttir Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.) Í dag kveð ég hana ömmu mína.

Söknuðurinn er sár, þó vitað væri að hverju stefndi. Ég bjó fyrstu æviárin mín hjá ömmu og afa eins og fleiri barnabörn þeirra. Amma var ekta amma, amma sem var heimavinnandi, bakaði, prjónaði og saumaði, amma sem var alltaf til staðar.

Man ég góðu stundirnar sem við áttum saman á morgnana þegar allir, nema við tvær, voru farnir í vinnu eða í skóla. Eins þegar ég sat á skenknum hjá eldavélinni og fylgdist með henni elda. Það var oft glatt á hjalla í Héðó enda fjölskyldan stór. Mun ég sakna þess að hitta ekki ömmu í eldhúsinu sínu. Hún amma var sterk kona. Þó að lífið hafi ekki alltaf verið auðvelt, þá lét hún ekki bugast, heldur var hress og kát.

Elsku amma, þakka þér fyrir allar stundirnar sem þú gafst mér. Minningin um þig mun lifa með mér alla tíð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sig.) Kristín Lára.