18. nóvember 1995 | Menningarblað/Lesbók | 2372 orð

Húsameistarinn Einar Sveinsson

Fjöldi Reykvíkinga hefur haft ýmis hús Einars Sveinssonar fyrir augunum alla ævi og sá vani hefur ef til vill komið í veg fyrir að tekið væri eftir þeim svo sem vert er. Þetta eru hús eftir listamann; það sjáum við nú ekki sízt á sýningunni á verkum Einars, sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum og Pétur H. Ármannsson arkitekt hefur veg og vanda af.

Húsameistarinn

Einar SveinssonÍ næstum fjóra áratugi, frá 1934 til 1973, var Einar Sveinsson arkitekt í embætti húsameistara Reykjavíkur. Enginn maður hafði til jafns við hann áhrif á útlit borgarinnar, bæði einstakar byggingar og skipulag. Greinin er í tilefni sýningar á Kjarvalsstöðum á verkum Einars.

Fjöldi Reykvíkinga hefur haft ýmis hús Einars Sveinssonar fyrir augunum alla ævi og sá vani hefur ef til vill komið í veg fyrir að tekið væri eftir þeim svo sem vert er. Þetta eru hús eftir listamann; það sjáum við nú ekki sízt á sýning unni á verkum Einars, sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum og Pétur H. Ármannsson arkitekt hefur veg og vanda af. Hann skrifar einnig afar fróðlega ritgerð í sýningarskrána. Bæði Pétur og ráðamenn Kjarvalsstaða eiga heiður skilinn fyrir þessa tímabæru kynningu á listamanni sem farið er að fenna yfir.

Hvernig má það vera að maður sem skipulagði borgina utan Hringbrautar og á auk þess heiðurinn af byggingum eins og Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg, Skúlatúni 2, sem var aðsetur Borgarstjórnar áður en ráðhúsið var byggt, svo og Laugarnesskólanum, Melaskólanum og Borgarsjúkrahúsinu skuli vera svo til óþekktur meðal nútímafólks? Eru einhverjar sérstakar ástæður fyrir því?

Reyndar voru þær til og hafa haft sín áhrif. Ein er sú að Einar Sveinsson naut sem embættismaður borgarinnar þeirra forréttinda að geta sjálfur fengið eftirsóknarverð verkefni og það hefur ugglaust kallað yfir hann öfund og slæmt umtal. Í annan stað má geta þess að á 6. áratugnum, eftir 20 ár í embætti, var Einar kominn með merkverð frávik í stíl frá fúnksjónalismanum, sem hann hafði aðhyllst á fyrstu árum sínum. Hann var þá kominn á skjön við þann módernisma og frystikistustíl í anda Mies van der Rohe, sem ungir vinstrisinnaðir listamenn sáu fyrir sér í sæluríki marxismans. Þröngsýni og ofstæki réðu ferðinni. Einar var úthrópaður sem borgaralegur og úrkynjaður arkitekt. Gagnrýnendur hans komu alls ekki auga á, hvað Einar var búinn að gera góða hluti. Fúnksjónalisminn hafði leitt af sér hinn sálarlausa módernisma sem setti ömurlegt svipmót á borgir og náði hámarki um 1960. Það er engu líkara en Einar Sveinsson hafi séð það fyrir, en engar hlaut hann þakkirnar nema síður væri.

Þ ÝZK V IÐHORF K OMA T IL S ÖGU

Gagnstætt því að fara til Kaupmannahafnar, svo sem verið hafði hin hefðbundna menntaleið Íslendinga, fór Einar fyrstur íslenzkra arkitekta til náms í Þýzkalandi og tók lokapróf frá tækniháskólanum í Darmstadt síðla árs 1932. Þar kynntist Einar fúnksjónalismanum, sem rakinn er til skóla og kenninga Grophiusar og rekinn var í Weimar unz nasistar lokuðu honum. Ásamt með Gunnlaugi Halldórssyni, arkitekt, varð Einar helzti boðberi þessarar nýju stefnu á Íslandi. Einkenni stefnunnar fór að gæta hér á landi um líkt leyti og Einar hóf störf. Hann skilgreini hana svo í blaðagrein 1943:

Hér er ekki um neina stað- eða tímabundna stefnu að ræða, heldur stefnu sem hefur tekið vísindin í þjónustu sína og tekur allar aðstæður til greina. Viðleitni hennar er að leysa verkefnin á rökréttan hátt, í fullu samræmi við tilgang og notagildi þess mannvirkis, sem um er að ræða og láta byggingartæknina og efnið birtast í hinu ytra sem innra formi, á látlausan en þó listrænan hátt."

Fyrsta húsið sem Einar teiknaði í Reykjavík að loknu námi; einbýlishús Sigurðar Jóhannssonar að Freyjugötu 43, er kórrétt eftir formúlu fúnksjónalismans, þar sem teningurinn er einskonar viðmiðun. Þarmeð varð þakið að vera flatt, en Einar var svo langt á undan þeim sem löngu síðar teiknuðu hús, að hann sá að flöt þök hentuðu ekki á Íslandi. Auk þess voru ekki komin til sögu þau byggingarefni, sem gert hafa flöt þök möguleg. Fljótt á litið sýnist þetta fyrsta hús Einars þó vera með flötu þaki. En svo er ekki. Það er með einskonar öfugu valmaþaki, hæst við útveggina, en vatnshalli hafður inn að miðju og niðurfall þar. En einnig sú lausn hefur ekki reynst vel á íslandi og Einar sá það fljótt. Hann leysti málið með valmaþakinu, sem ásamt horngluggum einkenndi mörg íslenzk íbúðarhús fram til 1940. Seint á stríðsárunumvar var enn verið að byggja þannig hús og þau hafa staðizt tímans tönn vel. Þjóðleg rómantík var ekki að skapi Einars. Hann féllst hvorki á skreytingar með tilbúnu stuðlabergi, né heldur burstabæi úr steini eða bárujárni.

Í ritgerð sinni um Einar Sveinsson og verk hans segir Pétur H. Ármannsson m.a. svo:

Menntun Einars skapaði honum sérstöðu meðal íslenskra arkitkta og til hennar má rekja margar þær áherslur sem einkennandi eru fyrir verk hans. Hann var fyrsti arkitektinn sem kom til starfa á Íslandi eftir að hafa lokið prófi í húsagerðarlist úr þýskum tækniháskóla, en fram til þess höfðu norræn áhrif verið ríkjandi í íslenskri húsagerð. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem hlaut háskólamenntun í fagurfræðilegri mótun borga í anda rótgróinnar, evrópskrar skipulagshefðar. Enda þótt Einar yrði einn helsti boðberi og hugmyndafræðingur funksjónalismans í íslenskri húsagerð var formræn hugsun hans alla tíð mótuð af lögmálum klassísksrar byggingarlistar. Þó svo Bauhausstefnan hafi snemma fest rætur í Þýskalandi gætti áhrifa hennar lítt í námsskrá þýskra tækniháskóla um 1930. Þannig voru flest skólaverkefni Einars í klassískum anda og mótuð af þýskri byggingarhefð. Í byggingum hans og skipulagsúrlausnum má því oft greina togstreitu hefðbundinna og framsækinna viðhorfa. Annað megineinkenni Einars sem einnig má rekja til menntunar hans, var kunnátta hans í tæknilegum efnum. Fullyrða má að hann hafi verið einn fjölhæfasti og gagnmennaðasti sérfræðingur á sviði byggingartækni í stétt íslenskra arkitekta. Einar var ágætur stærðfræðingur og átti áhuginn á þeirri grein rætur í námi hans við stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík, sem á þeim tíma var nýstofnuð og einungis fáir sóttu. Hann reiknaði sjálfur út burðarþol og járnastyrkleik í mörgum húsa sinna og vann nákvæmar verklýsingar og kostnaðaráætlanir. Athugaði hann oft burðarútreikninga verkfræðinga í stærri verkefnum og gerði athugasemdir, ef niðurstöðum bar ekki saman. Stærðfræðin nýttist Einari ekki aðeins sem hjálpartæki í hagnýtumn viðfangsefnum heldur hafði hún einnig bein áhrif á listsköpun hans. Sér þekking hans á burðareiginleikum steinsteypu gerði honum kleift að setja fram óhefðbundnar lausnir sem aðeins var á fárra valdi að útfæra. Einar beitti reikningskunnáttu sinni til að sýna fram á hagkvæmni og raunhæfni byggingarhugmynda sem erfitt hefði reyst að réttlæta út frá formrænum forsendum einum. Þekking hans á útfærslum og efnisvali veldur miklu um að byggingar hans hafa staðist álag veðurs og notkunar betur en önnur hús. En þó Einar væri snjall tæknimaður beindist hönnun hans ætíð að því að sameina listræn og tæknileg sjónarmið. Hann var áhugamaður um listir og átti frumkvæði að því að listamenn væru fengnir til þess að vinna verk í byggingar sínar. Ber sérstaklega að geta vináttu hans og Ásmundar Sveinssonar, sem gerði myndir m.a. í Laugarnesskóla, Melaskóla og Heilsuverndarstöðina."

Við þettta má bæta því, sem raunar kemur fram annarsstaðar í ritgerðinni, að Einar fékk einnig Jóhann Briem til þess að mála myndröð, sem gerir hið sérstæða og glæsilega miðrými Laugarnesskóla enn eftirminnilegra. Þarna mættu nútíma arkitektar gjarnan taka Einar meira til fyrirmyndar, því engu er líkara en þeir forðist að gera ráð fyrir myndverkum í nýjum byggingum.H LUTVERK S ÓLARLJÓSSINS

Hugmyndafræði fúnskjónalismans var ákaflega heiðarleg, ef svo má að orði komast. Mergurinn málsins var að "fúnksjónin", það sem gert er í húsinu, ráði útliti þess. Ekki sé eytt fjármunum í óþarfa skraut, en að innanverðu átti rýmið að nýtast sem bezt og byggingar áttu helzt ekki að vera dýpri - eða þykkari - en svo að sólarljósið næði til allra herbergja. Þessa kenningu hafði Einar viðrað í merkilegri grein, sem hann skrifaði í tímaritið Húsakost og híbýlaprýði árið 1939. Þar er ágæt heimild um þær breyttu áherzlur sem Einar og aðrir arkitektar fúnksjónalismans komu fram með. Í greininni segir hann m.a. svo:

Eitt af mikilverðustu atriðum við fyrirkomulag hverrar íbúðar er það, að herbergjaskipun hennar sé rétt gagnvart sól. Frá heilsufræðilegu sjónarmiði þurfa helst öll íbúðarherbergi að njóta sólar minnst 1-2 tíma á dag. Ákjósanlegast er, að sólartími hvers herbergis falli saman við þann tíma, sem herbergið er aðallega notað, og því er eftirfarandi herbergjaskipun æskileg: Svefnherbergi og barnaherbergi hafi glugga móti austri eða suðri, borðstofan gegn suðri og einnig gegn austri, ef því verður við komið. Dagstofan hafi glugga gegn suðri og vestri, til þess að fá eftirmiðdags- og kvöldsólina. Oft er t.d. með útbyggingu, einnig hægt að fá austurglugga á dagstofuna, og það er mjög æskilegt. Í stærri íbúðum er oft um þriðju stofuna að ræða og liggur hún best gegn vestri. Eldhús og baðherbergi gegn norðri eða norðaustri. Inngangur og stigahús eru oftast gegn norðri eða vestri, og er það dálítið háð afstöðu hússins gagnvart götu, en þó ber að gæta þess, að inngangur sé ekki gegn versu rigningaráttinni."

Við þetta er svo því að bæta að nýtt ríkidæmi í kjölfar stríðsgróðans, gerði Einari erfitt um vik að láta sólina njóta sín sem skyldi. Menn vildu byggja stærra en áður; íbúðarhús urðu dýpri af þeim sökum og afleiðingin varð "holið" inni í miðju húsi, sem nýttist illa og var venjulega sólarlaus vistarvera. Bætt fjárráð stuðla ekki alltaf að betri byggingum.B RAUTRYÐJANDI Í G ERÐ F JÖLBÝLISHÚSA

Oft hefur þessi Lesbókarskrifari virt fyrir sér fjölbýlishúsin við Hringbraut og Lönguhlíð, sem Einar teiknaði á árunum 1942- 1945, og spurt sjálfan sig og stundum aðra: hvernig í ósköpunum má það vera að þessar elztu blokkir í Reykjavík eru síungar og meira en það: Þær bera hreinlega af fjölmörgum sambyggingum fyrir íbúðir sem byggðar hafa verið á áratugunum síðan.

Árið 1942 var Einari falið að teikna tvær stórar sambyggingar með 48 íbúðum við Hringbraut 37-47. Húsin voru hluti af nýju skipulagi Einars á Melahverfi, þar sem raðir stakstæðra fjölbýlishúsa áttu að rísa á opnu svælði og koma í stað þéttrar borgarbyggðar og samfelldum húsaröðum meðfram götu eins og víða má enn sjá í eldri hluta borgarinnar. Hugmyndin var sú að skapa aukið svigrúm í hverfi án þess að íbúum fækkaði og spara um leið við holræsa- og gatnagerð. Og umfram allt að allar íbúðirnar nytu sólar jafnt. Búið var að sýna framá það, sem reyndar liggur í augum uppi, að húsþykktinni verður þá að halda í skefjum. Í Hringbrautarhúsunum er breiddin einungis 9,5 m og íbúðirnar eru mjög sólríkar. Gólfplötur voru hafðar þykkari en en venjulega til þess að bæta hljóðeinangrun og meðal nýjunga voru skásett útskot með hornglugga á stofunni í hverri íbúð og bogadregnar svalir með blómakeri.

Næst reis sambygging 72 íbúða við Skúlagötu og síðan Lönguhlíðarhúsið, sem byrjað var á 1946. Þar fór ver en skyldi, því tafir urðu á framkvæmdinni og neitað var um ríkislán á þeirri forsendu að þarna væri verið að sóa peningum í flottheit og íbúðir í verkamannabústöðum væru ódýrari. Þetta varð að pólitísku deilumáli með þeim slæmu afleiðingum fyrir Reykvíkinga, að bæjaryfirvöld hættu að byggja fleiri fjölbýlishús, svo sem ætlunin hafði verið. Í staðinn var ráðist í byggingu 200 íbúða í liltum, tvílyftum fjórbýlishúsum í bústaðahverfi, sem aðstoðarmaður Einars, Sigmundur Halldórsson, hafði teiknað. Þar gafst eigendum kostur á að vinna sjálfir að frágangi íbúðanna og þótti mörgumm kostur, en þessi hús standast engan samanburð við fyrrnefndar blokkir Einars.S KÓLAR O G S TÆRRI B YGGINGAR

Fyrsta byggingin sem Einar Sveinsson teiknaði eftir að hann var ráðinn húsameistari bæjarins, var barnaskólahús í Laugarnesi. Það myndaði síðar austurálmu þess Laugarnesskóla sem við þekkjum og Einar teiknaði í samvinnu við Ágúst Pálsson arkitekt. Það nýmæli sem eftirtekt vakti og enn setur svip á skólann, er samkomusalur í miðju sem áður er á minnst og nær upp í gegnum allar aðalhæðir hússins. Aðkoman að kennslustofunum liggur um stiga og svalir sem opnast inn í þetta miðrými.

Annað stórt verk frá fyrri árum Einars er Melaskólinn, sem tekinn var í notkun 1946. Fullfrágengin var sú bygging talin ein sú veglegasta sem bærinn hafði staðið að og lengi vel gegndi skólinn því hlutverki ráðhúss, að þar fóru opinberar móttökur fram. Vel var vandað til þessara skólabygginga og vegna þess arna voru bæjaryfirvöld gagnrýnd fyrir bruðl og óhóflegan íburð. Nú er það hinsvegar komið í ljós, að þeir fjármunir sem aukalega var greitt fyrir vandaðan frágang, hafa margfaldlega skilað sér í lágum viðhaldskostnaði.

Af öðrum stórbyggingum Einars Sveinssonar má nefna stóru blokkina á horni Laugarnesvegar og Kleppsvegar; hús sem hann teiknaði fyrir Byggingarsamvinnufélag prentara. Fyrir sama aðila teiknaði hann og Sólheimablokkina (nr 23) og Borgarspítalann í samvinnu við Gunnar H. Ólafsson. Uppdrættir af honumm voru lagðir fram 1952 og fyrsti sjúklingurinn lagður inn 1967. En áður en þessu verki lauk, lézt Einar fyrir aldur fram, 67 ára. Það var 12. marz, 1973.

Sú bygging sem að öllum líkindum mun þó halda nafni Einars Sveinssonar lengst á loft er Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg. Það er eftirtektarvert vegna þess að gagnrýnendur Einars fyrr á árum nefndu einmitt Heilsuverndarstöðina sem dæmi um misheppnaðan arkitektúr. Það sýnir vel hvað samtíminn getur verið glámskyggn. Þegar á heildina er litið vinnur Einar þarna á nótum módernismans og brýrnar, bornar uppi af súlum, sem setja sinn svip á ytra útlit og umhverfi, eru í senn rökrétt lausn og módernísk. Hinsvegar leikur Einar sér að því líkt og margir góðir listamenn fyrr og síðar að blanda saman stíltegundum. Í stað módernískrar útfærslu á þaki, kemur hann með klassíska lausn; brotið þak með kvistum, koparklætt. En punkturinn yfir i-ið er turninn sem ekki gegnir öðru hlutverki en því að setja svip á bygginguna. Þar er Einar að vísu kominn alllangt frá markmiðum fúnksjónalismans, en veit hinsvegar af langri reynslu, að augað þarf líka að fá sitt.

Allir unnendur byggingarlistar eru hérmeð hvattir til að sjá sýninguna á verkum Einars á Kjarvalsstöðum. Hún mun standa fram í desember.GÍSLI SIGURÐSSON.EINAR Sveinsson.FREYJUGATA 43, íbúðarhús Sigurðar Jóhannssonar, var með því fyrsta sem Einar teiknaði. Hér er funkisstíllinn alls ráðandi, en þakið varð þó að laga að íslenzkumaðstæðum.SKÚLATÚN 2 - aðsetur borgarstjórnar þar til ráðhúsið var byggt.

Ljósmyndir: Allar litmyndirnar hefur Pétur Sörensson, Ljósmynasafni Reykjavíkur, tekið.

MELASKÓLINN. Auk skólastarfsins fóru þar fram opinberar móttökur á vegum Reykjavíkurborgar.

LAUGALÆKJARSKÓLI. Steinsteyptu krossformin í stóru gluggunum, sem Einar notaði þarna og víðar, eru til styrkingar, en setja auk þess sinn svip á bygginguna.

HEILUVERNDARSTÖÐIN við Barónsstíg að innanverðu. Þar eru ýmis fagurlega unnin smáatriði og Einar notar þar oft sveigðar línur, sem sízt af öllu voru í tízku þegar húsið var byggt.SALURINN í miðhluta Laugarnesskólans var nýstárleg lausn, en þar að auki listræn og glæsileg.TURNINN og brotið þak í anda klassíkur setja m.a. svip á persónulegasta verk Einars, Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg. Ljósm.:Morgunblaðið/Sverrir.BORGARSJÚKRAHÚSIÐ í Fossvogi, sem Einar teiknaði ásamt Gunnari H. Ólafssyni.

SAMBÝLISHÚS við Hringbraut frá árunum 1942-44. Í hönnun fjölbýlishúsa með nútímasniði var Einar brautryðjandi og Hringbrautarhúsin hafa staðizt tímans tönn frábærlega. Ljósm.: Vigfús Sigurgeirsson.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.