BÍLAR eru Kára Bjarnasyni lítt hugleiknir. Hann hefur aldrei átt bíl og fer flestra sinna ferða fótgangandi, enda ágætis göngutúr frá heimili hans í miðborginni að handritadeildinni í Þjóðarbókhlöðunni. Þar segist hann una sér best og líti á leiguherbergin sín tvö sem svefnstað fremur en heimili. Eldhúsi og baðherbergi deilir hann með fyrirtæki, sem starfrækt er á sömu hæð.
KÁRI BJARNASON HEIMSPEKINGUR OG ÍSLENSKUFRÆÐINGUR, 35 ÁRA Fræðimaðurinn

BÍLAR eru Kára Bjarna syni lítt hugleiknir. Hann hefur aldrei átt bíl og fer flestra sinna ferða fótgangandi, enda ágætis göngutúr frá heimili hans í miðborginni að handritadeildinni í Þjóðarbókhlöðunni. Þar segist hann una sér best og líti á leiguherbergin sín tvö sem svefnstað fremur en heimili. Eldhúsi og baðherbergi deilir hann með fyrirtæki, sem starfrækt er á sömu hæð. Honum finnst fyrirkomulagið ágætt, enda varla heima nema yfir blánóttina.

Þegar inn er komið fer ekki milli mála að bækur eru í miklu uppáhaldi. Þær eru yfir fjögur þúsund talsins og þekja veggi í báðum herbergjum. Til þess að geta tekið vinnuna með sér heim endrum og sinnum fékk Kári sér tölvu, sem hann hefur í svefnherberginu. Útsaumaða stólinn, púðana og alla heimilislegu hlutina segir hann ættaða frá fósturmóður sinni, sem nú er látin, en annað keypt í IKEA.

Fremur ástand en lífsháttur

"Mér finnst ég heldur ungur til að líta á sjálfan mig sem piparsvein. Hjá mér er þetta fremur ástand en lífsháttur. Með öðrum orðum frekar hlutskipti um stundarsakir að minnsta kosti heldur en val. Líf piparsveinsins er líf hinnar eilífu vonar því hann er alltaf að líta í kringum sig. Mér líkar vel að búa einn og þurfa ekki að ráðgast við einn eða neinn um tíma minn og annað."

Þótt Kári hafi verið í sambúð skamma hríð, hefur hann að mestu búið einn frá tvítugsaldri. Honum finnst almannarómur telja að hamingjan felist í ástinni. Slíkt segir hann að megi vel vera rétt, en sú hætta sé þá fyrir hendi að maðurinn hætti að vera það sem hann er og lifi fyrir maka sinn.

Heimspekingurinn Kári hefur velt málum fyrir sér frá öllum hliðum og sér líka ýmsa ókosti við einlífið. "Þeim sem búa einir hættir til að verða einrænir og sjá ekki samhengi hlutanna. Þeim finnst lífið og tilveran snúast um þá sjálfa í einu og öllu og eiga erfitt með að taka tillit til annarra. Ég á marga góða vini, en þó næ ég aldrei að afhjúpa hugsanir mínar algjörlega eins og eiginmaður gagnvart eiginkonu. Trúnaðurinn verður aldrei 100% og því fær maður aldrei nauðsynlegt fjarlægðarskyn á sjálfan sig. Nátengd manneskja eins og eiginkona myndi segja skoðun sína umbúðalaust meðan vinir hika við hversu heilir sem þeir kunna að vera."

Kára finnst öllu skemmtilegra að tala um starfið en heimilishaldið. Starfið er ástríða hans, líf og yndi og til þess segist hann vakna glaður á hverjum morgni. Tólf tíma á dag grúfir hann sig yfir forn handrit og leiðist aldrei. Sem handritafræðingur segist hann alltaf vera í spennandi leynilögregluleik þar sem nýjar uppgötvanir séu daglega innan seilingar. "Núna er til dæmis komið í ljós að sýn okkar á bókmenntir frá 16. og 17. öld er kolröng. Tölvur hafa umbylt allri úrvinnslu gagna. Það er geysilega gefandi að taka þátt í að breyta handritadeildinni úr ósýnilegum fjársjóð í sýnilegan. Áður var undirbúningsvinnan 99% og úrvinnslan 1%, en með tölvunum hafa hlutföllin snúist við og fyrir vikið verður vinnan mun skemmtilegri."

Kári segir að eitt af verkefnum handritadeildarinnar sé að fá fólkið í landinu til að láta í té gamlar dagbækur, sendibréf og hvers kyns aðrar heimildir um horfna tíð. "Flestir gera sér ekki grein fyrir hversu hversdagsleg gögn segja mikla samtíðarsögu . . ."

Hámark 3 mínútur í eldamennsku

Kári er óstöðvandi þegar talið berst að handritum og áhugamálinu; rannsóknum á Maríukvæðum. Fyrir þremur árum fór hann utan til að helga sig rannsóknum á slíkum kvæðum í sjálfu Vatíkaninu. Ekki ofalinn á launum frekar en aðrir opinberir starfsmenn segist Kári hafa kostað ferðina að mestu leyti sjálfur og yfirleitt hafa nóg fyrir sig að leggja, enda ekki þurftafrekur. "Ég borða heitan mat í mötuneytinu í hádeginu á hverjum degi. Ef ég fæ mér snarl heima, kaupi ég tilbúna rétti og skelli þeim í örbylgjuofninn. Eldamennskunni gef ég hámark þrjár mínútur og hversu leiðinlegt sem mér þykir að skúra og þrífa þarf ég náttúrlega að sinna því einstöku sinnum. Ég fer með þvottinn í þvottahús, á ekki þvottavél og hef ekki hug á að kaupa mér slíkt tæki í bráð."

Skemmtanalífið segir Kári innantóma gerviveröld. Hann er löngu hættur að stunda það, fer fremur í bíó eða heimsóknir í frístundum. "Á árunum áður fórum við, vinirnir, oft út að skemmta okkur og eyddum vænum fúlgum af námslánunum í drykkjuskap og þvíumlíkt. Í rauninni leiddist okkur og núorðið nenni ég hvorki að fara út á lífið né bragða áfengi."

Frelsið er mikill kostur

Þótt Kári sé ekki í margmenni í vinnunni segir hann að einmanaleiki hrjái sig ekki að ráði. Hann segist spjalla við sjálfan sig í og úr vinnu og hitti vini sína og vinkonur ef hann vanti félagskap. Hann á inni heimboð í Þýskalandi um jólin, sem hann ætlar að þiggja, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um. Aðspurður hvort þýsk vinkona væri í spilinu segist hann svo sem ekki vera í algjörri þurrkví . . .

"Líkja má piparsveini við sjómann sem aldrei fer í höfn. Ef til vill þurfa menn að kvænast og eignast börn til að vera fullgildir þátttakendur í mannlífinu. Lífið er í rauninni aðeins hálft líf, ef menn axla ekki þá ábyrgð, sem samfélagið gerir kröfur til. Óneitanlega er mikill kostur fólginn í frelsinu og ég er sannfærður um að margur ungkarlinn tekur áhugavert starf fram yfir eiginkonu og fjölskyldu. Hins vegar veit ég ekki hvort ég verð eins sáttur við hlutskipti mitt ef ég verð enn einn á báti eftir tuttugu ár."

Morgunblaðið/Þorkell SVEFNSTAÐUR - Kári Bjarnason á heimili sínu.

"ELDAMENNSKUNNI gef ég hámark þrjár mínútur."

SKRAUTMUNIR - Ljósmynd frá heimsókn Kára í Vatíkanið, gamlir barnaskór og Maríustytta.

Líf piparsveinsins er líf hinnar eilífu vonar því hann er alltaf að líta í kringum sig.