6. janúar 1996 | Menningarblað/Lesbók | 1453 orð

FJÖLSKYLDAN Á LITLUSTRÖND

Eftir ÞRÁIN ÞÓRISSON Á Litluströnd var ekki spurt um hvað drengurinn hefði verið að vinna að undanförnu, heldur hvað hann hefði

ÞAÐ hefur talast svo til að ég rifjaði hér upp með viðstöddum hverjum hér er verið að reisa bautasteina þar sem nokkuð langt er umliðið síðan sumir þeirra hurfu af þessum vettvangi. Mér er þetta ljúft þar sem hér á hlut að máli heimilisfólkið á Litluströnd sem svo var nátengt mínu bernskuheimili að það taldist naumast að fara af bæ þó þangað væri skroppið.

FJÖLSKYLDAN

Á LITLUSTRÖND

Eftir ÞRÁIN ÞÓRISSON

Á Litluströnd var ekki spurt um hvað drengurinn hefði verið að vinna að undanförnu, heldur hvað hann hefði verið að lesa.

ÞAÐ hefur talast svo til að ég rifjaði hér upp með viðstöddum hverjum hér er verið að reisa bautasteina þar sem nokkuð langt er umliðið síðan sumir þeirra hurfu af þessum vettvangi. Mér er þetta ljúft þar sem hér á hlut að máli heimilisfólkið á Litluströnd sem svo var nátengt mínu bernskuheimili að það taldist naumast að fara af bæ þó þangað væri skroppið. Samgangur milli Baldursheims og Litlustrandar var á þeim árum svo mikill og náinn að jafnvel má til eindæma telja. Sjálfsagt hefur undirrót þess, skyldleikinn, verið höfuðástæðan, en amma mín, Sólveig og Jakobína voru alsystur, Pétursdætur frá Reykjahlíð og ræktu "systralag" sitt af mikilli kostgæfni til hins síðasta. Móðir mín, Þuríður Sigurðardóttir og frænkur hennar á Litluströnd, Guðrún og Védís Jónsdætur, voru líka sem systur, og móður mína heyrði ég segja að það hefði henni verið ómetanlegt þar sem hún hefði enga systur átt á heimaslóð. Ég held nú samt að það hafi ekki bara verið skyldleikinn einn sem batt mann svo fastan við Litluströnd.

Það kemur stundum býsna snemma fram hjá barninu að það hefur tilhneigingu til að vera eitthvað annað en barn, vill jafnvel gera sig gildandi í samræðum fullorðinna. Að sjálfsögðu er slíku ekki tekið þegjandi á heimavígstöðvum. En á Litluströnd var furðufljótt farið að líta stráklinginn sem næstum mann, sem ræða mætti við um ýmis dægurmál, jafnvel eldri dægurmál sem drengnum þóttu forvitnileg. Þó var ekki spurt hvað drengurinn hefði verið að vinna undanfarið, heldur hvað hann hefði verið að lesa, eða hvort hann hefði kannski ekkert verið að lesa. Hefði hann verið svo heppinn að hann hefði verið eitthvað að lesa var lestrarefnið rætt og hann fékk að vita skoðun þeirra "systra" á því efni án þess hann fengi þá tilfinningu að sú skyldi einnig hans skoðun vera. Húsbóndinn, Jón Sigurðsson, var ekki síður uppörvandi og hvetjandi og varð einlægur vinur þó aldursmunur væri mikill. Sem sagt; kynslóðabil a.m.k. mjög óglöggt, ef það var þá nokkuð. Ekki meira um það að sinni, en víkjum nánar að persónum þeim er hér um ræðir.

Fyrst skal nefna hjónin Jón Stefánsson (Þorgils gjallanda) og Jakobínu Pétursdóttur, en þau voru hálfsystkinabörn fyrir Guði og raunar einnig fyrir mönnum eftir að séra Jón Þorsteinsson í Reykjahlíð fermdi Guðrúnu móður Jóns Stefánssonar, sem til þess tíma hafði verið talin Ólafsdóttir, en hann nefndi hana við ferminguna Jónsdóttur. Jakobína var dóttir Péturs Jónssonar bónda í Reykjahlíð er tók við búsforráðum þar eftir föður sinn sr. Jón Þorsteinsson. Jón Stefánsson var fæddur að Skútustöðum 2. júní 1851 og lést á Litluströnd 23. júní 1915. Faðir hans var Stefán Helgason Ásmundssonar, er Skútustaðaætt hefur verið rakin frá, en móðir Guðrún Ólafsdóttir (Jónsdóttir) sem áður er nefnt. Hún hafði áður verið gift, en sá maður (Jón Jónsson á Arnarvatni) hafði látist er einkabarn þeirra, Sigríður, var hálfs mánaðar gömul. Áður hafði hún eignast dóttur, Maríu, með Gísla Gíslasyni (Skarða-Gísla). Jón missti móður sína aðeins 9 ára og að eigin sögn beið þess aldrei bætur, en vildi þó fátt um ræða. Af fjórum alsystkinum var Jón það eina er upp komst. 17 ára gamall missti hann föður sinn er þá bjó á Arnarvatni og eftir það er hann í vinnumennsku á ýmsum bæjum í Mývatnssveit, lengst hjá Hjálmari Helgasyni föðurbróður sínum er þá bjó í Vogum, en kona hans var Sigríður Pétursdóttir frá Reykjahlíð er seinna varð mágkona Jóns Stefánssonar. Nám Jóns var nær eingöngu sjálfsnám og verður hann því að teljast sjálfmenntaður maður, en um leið sannmenntaður maður. Það sýna verk hans. Hann var svo vel að sér í fornritum okkar að ýmsir fræðimenn seinni tíma hafa kallað hann fornfræðing. Hans er og verður væntanlega enn um langa framtíð minnst sem rithöfundarins Þorgils gjallanda. Út í þau mál verður ekki farið hér. Til þess er hvorki tími né þekking. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á að þó að rithöfundurinn Þorgils gjallandi sé talinn til hinna fáu raunsæisskálda okkar á 19. öld, og þar með þeim fremstu, þá hlýtur hann að hafa verið mjög rómantískur að eðlisfari og nægir í því sambandi að minna á rithöfundarnafn hans. Það kemur úr Egils sögu Skalla- Grímssonar. Þorgils gjallandi var stafnbúi Þórólfs Kveldúlfssonar og það meira að segja í hinni sögufrægu Hafursfjarðarorustu þegar Haraldur hárfagri var talinn hafa sameinað allan Noreg í eitt konungsríki. Rómantískari persónu er vart að finna í samanlögðum Íslendinga- og Noregskonungasögum en glæsimennið Þórólf Kveldúlfsson og skáldið Jón Stefánsson kýs sér stöðu stafnbúa hans.

Kona Jóns Stefánssonar var sem áður er getið Guðný Jakobína Pétursdóttir, fædd í Reykjahlíð 29. ágúst 1850, dáin 19. ágúst 1939 á Litluströnd. Hún var talin gáfuð glæsikona, en ekki var talið að þykkjur þeirra hjóna færu ætíð saman. En þau höfðu þroska til að rökræða álitamál sín af fullri reisn og festu án þess til vinslita kæmi. Einkum munu trúmálin hafa orðið þeim ásteytingarsteinn. Þau gengu í hjónaband 6. júlí 1877 og bjuggu á ýmsum bæjum í Mývatnssveit, ávallt leiguliðar. Árið 1889 fengu þau ábúð á Litluströnd og dvöldu þar til síns endadægurs. Jakobína var sú eina af hinum mörgu ömmusystrum mínum sem ég þekkti að nokkru ráði, að sjálfsögðu vegna búsetu. Á síðari árum voru þær systur amma mín og hún mjög duglegar að heimsækja hvor aðra og ræddu þá margt um liðna tíð. Í huga mínum sitja þær tvær á tali, en við bræðurnir í nokkurri fjarlægð og nutum frásagnanna, en báðar bjuggu þær yfir skemmtilegri frásagnargáfu, þó nokkuð hvor með sínum hætti. Meðan báðar voru vel rólfærar fóru þær gangandi milli bæjanna, enda vegalengd fremur stutt, og gangvegur góður. Fylgdu þær þá gjarnan hvor annarri á leið, og ef umræðuefnið var sérstaklega áríðandi var talið að þær hefðu gengið allt að tíu sinnum aftur og fram milli Bóndaskarðs og Krosshóls í gagnkvæmri fylgd hvor annarrar. En Bóndaskarð og Krosshóll eru kennileiti milli bæjanna.

Þau Jón og Jakobína eignuðust tvær dætur: Guðrún var fædd 16. apríl 1880 á Hofsstöðum, dáin 31. júlí 1943 á Litluströnd. Hún var gáfuð kona og gjörvuleg en fremur heilsutæp mestan hluta ævinnar. Hún gerði ekki víðreist en var þess traustari heimilisstoð foreldranna. Hún giftist ekki en eignaðist einn son, Þorgils Steinþórsson, er ólst upp á Litluströnd og varð einn af traustustu vinum Baldursheims.

Hin dóttir Jóns og Jakobínu, Védís, var fædd 12. janúar 1885, á Arnarvatni, dáin 7. júní 1963 í Reykjavík. Hún giftist Jóni Sigurðssyni á Geirastöðum 30. júlí 1922. Þau eignuðust eina dóttur, Jónu Jakobínu, er hér má sjá meðal vor í dag. Gagnstætt systur sinni gerði Védís mjög víðreist á ungdómsárum, einkum til náms. Sótti m.a. skólanám bæði til Danmerkur og Noregs, sem fátítt var um íslenskar sveitastúlkur á þeirri tíð. Fékkst hún oft við barnakennslu í Mývatnssveit frá því árið 1907, er lög um barnafræðslu voru sett á Íslandi, og allt til ársins 1921, en með nokkrum hvíldum þó. Enginn skyldi þó ætla að misskipt ævistarf að ýmsu leyti hafi fjarlægt þær systur hvora frá annarri. Þvert á móti. Þær áttu alla tíð sama heimili meðan báðar lifðu og svo samrýndar voru þær að þegar þær tjáðu skoðanir á einhverju er mikilvægt mátti telja og báðar voru nærstaddar fór það fram með þessum hætti: "Við systur álítum; okkur systrum finnst." Það var þó oftast Védís sem talaði og leit til Guðrúnar, og nikkandi samþykki hennar var lokastimpill þeirrar gjörðar.

Sem áður segir giftist Védís Jóni Sigurðssyni frá Geirastöðum. Hann var fæddur 9. júní 1893, dáinn 25. febrúar 1982. Þau bjuggu á Litluströnd frá 1922-1944 er þau fluttu til Reykjavíkur og áttu þar lögheimili til æviloka. Jón var þrifnaðarbóndi og drenglundaður vinur.

Svo sem kunnugt er hvíla þrjú þau fyrst töldu í Skútustaðakirkjugarði en tvö hin síðarnefndu hér í Reykjahlíðarkirkjugarði. Að lokum ætla ég að lesa stutt kvæði eftir Jón Þorsteinsson skáld á Arnarvatni, en þeir nafnar voru systkinasynir. Kvæðið heitir: Miðsumarkvöld 1915.

Eftirfarandi erindi var flutt í Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit, er afkomendur Jóns Stefánssonar, "Þorgils gjallanda", reistu honum og eiginkonu hans, Jakobínu Pétursdóttur, bautastein í Skútustaðakirkjugarði. Þar hafði sveitaskáldið hvílt í ómerktri gröf frá árinu 1915. Ennfremur var gengið frá legsteinum á leiði dætra þeirra, Guðrúnar, einnig í Skútustaðakirkjugarði og Védísar, sem með eiginmanni sínum, Jóni Sigurðssyni, hvílir í Reykjahlíðarkirkjugarði.

Höfundurinn er fyrrverandi skólastjóri frá Baldursheimi. Erindið var flutt í Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit, þegar afkomendur Jóns Stefánssonar (Þorgils gjallanda) reistu honum og eiginkonu hans, Jakobínu Pétursdóttur, bautastein í Skútustaðakirkjugarði.JÓN Stefánsson, bóndi á Litluströnd frá 1889 til æviloka og landskunnur sem raunsæisrithöfundurinn Þorgils gjallandi.

JAKOBÍNA Pétursdóttir frá Reykjahlíð, eiginkona Jóns Stefánssonar á Litluströnd.

GUÐRÚN Jónsdóttir.

VÉDÍS Jónsdótir og Jón Sigurðsson.

BARNABÖRN Guðrúnar og og Védísar Jónsdætra, talin f.v.: Völundur Þorgilsson, Steingerður Védís Stefánsdóttir, Sólveig Valgerður Stefánsdóttir, Jón Stefánsson, Ólafur Þröskur Stefánsson, Jakob Stefánsson og Guðrún Þorgilsdóttir.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.