"VIÐ erum fædd og alin upp sem Júgóslavar. Nú erum við flokkuð sem Serbar í gamla landinu, en við erum auðvitað fyrst og fremst Íslendingar, " segja hjónin Svetlana Björg og Luka Lúkas Kostic þegar þau rifja upp fortíð sína og tildrög þess að þau ákváðu að sækja um íslenskan ríkisborgararétt, sem þau fengu árið 1993.
Í HEIMSÓKN HJÁ SVETLÖNU BJÖRGU OG LUKA LÚKASI KOSTIC

Allt annað,

ekkert mál

Þegar Svetlana og Luka Kostic komu fyrst til Íslands höfðu þau tæpast heyrt á landið minnst. Því síður datt þeim í hug að þau ættu eftir að setjast hér að. Sveinn Guðjónsson heimsótti þau í fyrstu íbúðina sem þau eignast á Íslandi, en þau fluttu inn í nóvember síðastliðinn.

"VIÐ erum fædd og alin upp sem Júgóslavar. Nú erum við flokkuð sem Serbar í gamla landinu, en við erum auðvitað fyrst og fremst Íslendingar, " segja hjónin Svetlana Björg og Luka Lúkas Kostic þegar þau rifja upp fortíð sína og tildrög þess að þau ákváðu að sækja um íslenskan ríkisborgararétt, sem þau fengu árið 1993. Luka hafði þá gert garðinn frægan sem knattspyrnumaður í liði Skagamanna, en flutti síðan til Grindavíkur þar sem hann þjálfaði í tvö ár. Síðastliðið haust tók hann við þjálfun meistaraflokks KR og festi um leið kaup á fyrstu íbúðinni, sem þau hjónin eignast á Íslandi, við Álagranda í Vesturbænum.

"Við vorum nýbúin að byggja okkur hús í Júgóslavíu, og eigum það enn, en það stendur nú autt og ónotað í Baranja í Króatíu. Ef heppnin er með getum við kannski selt það fyrir 3 til 4 milljónir, en það var miklu meira virði áður en stríðið skall á," segja þau. "Ég skildi líka nýjan bíl eftir og hann er nú í vörslu kunningja okkar," bætti Lúkas við.

"Luka bjó aðeins í einn mánuð í húsinu," segi Svetlana. "Við fluttum inn í febrúar 1991, í mars fór hann til Íslands, og þegar Igor var búinn í skólanum í júní fórum við líka til Íslands. Viku síðar skall stríðið á og við ákváðum að setjast hér að."

"Ég held að við hefðum sótt um íslenskan ríkisborgararétt þótt ekkert stríð hefði orðið í Júgóslavíu," segir Lúkas. "Okkur líður mjög vel hérna og hér vil ég ala upp börnin mín. Ég held að Ísland sé besta land í heiminum til að ala upp börn."

Svetlana tekur undir þessi orð en bætir við að stríðið hafi ýtt á eftir þeirri ákvörðun þeirra að setjast hér að.

Hún sá mig skora mark

Svetlana er fædd í Belgrad, en ólst upp hjá ömmu sinni og afa í héraðinu Baranja í Króatíu. Luka fæddist í Bosníu og ólst líka upp í Baranja. En hvernig kynntust þau?

"Hún sá mig skora fallegt mark og hringdi í mig um kvöldið," segir hann og skellihlær. Svetlana brosir að þessu, en hristir höfuðið: "Nei, þetta var ekki svona."

"Nei, hún var mjög ung þegar ég sá hana fyrst, aðeins fimmtán ára. Það var á einhverju balli. Síðan hittumst við aftur eftir tvö ár, á diskóteki. Hún var þá á föstu með öðrum og ég var líka á föstu. En málin þróuðust þannig að við urðum ástfangin og byrjuðum að vera saman. Og svo giftum við okkur 12. júní 1982."

Luka var þá orðinn atvinnumaður í knattspyrnu, með 1. deildar liðinu Osijek frá samnefndri borg í Króatíu, og með tífalt hærri laun en faðir hans, sem var verkamaður.

"Við höfðum það mjög gott og ég átti orðið sem svarar þremur bílverðum í banka. Svo fór ég í herinn í eitt ár, sem var skylda, og á meðan kom gengisfelling þannig að bankainnstæðan var komin niður í eitt bílverð þegar ég sneri aftur."

En hvernig datt þér í hug að fara til Íslands að spila knattspyrnu?

"Ég var farinn að eldast og vissi að möguleikar mínir minnkuðu sífellt í atvinnumennskunni heima. Ég var að vísu með tilboð frá Þýskalandi, en Svetlana vildi ekki fara þangað. Einnig var ég með gott tilboð frá 1. deildarliðinu Elche á Spáni, en umboðsmaðurinn klúðraði því. Svo fékk ég ágætt tilboð frá Þór á Akureyri og þar sem við vissum nánast ekkert um Ísland fannst okkur dálítið spennandi að fara þangað. Þetta var eiginlega bara af ævintýraþrá.

Stríðið dapurlegt

Ég kom fyrst til Íslands 1989 og var hjá Þór fyrstu tvö árin, en síðan á Skaganum. Við fórum alltaf heim á milli og byggðum húsið, en svo skall stríðið á og við fórum ekki aftur næstu þrjú árin. Í september 1994 fórum við svo aftur og mér fannst ekkert hafa breyst í rauninni. Svæðið sem við bjuggum á slapp nánast alveg við stríðsátökin. Það var fyrst og fremst Bosnía sem fór illa út úr þessu. Pabbi dó mánuði áður en stríðið hófst, en mamma býr enn á sama stað og áður og það amar ekkert að henni. Fólkið hennar Svetlönu býr í Belgrad, sem slapp alveg við stríðsátökin.

Stríðið hefur því lítil áhrif haft á okkar vini og vandamenn, en ég þekki samt marga sem hafa farið illa út úr stríðsátökunum, fólk sem hefur misst ættingja og vini, og þetta fólk er biturt. Við hjónin höfum bara horft á stríðið úr fjarlægð og vissulega var dapurlegt að fylgjast með þessum sorglegu atburðum. En við berum ekki kala til neins, nema þeirra sem bera ábyrgð á stríðinu. Við vonum bara að friður geti haldist og fólkið í gömlu Júgóslavíu geti fyrirgefið hvert öðru. En það getur tekið mörg ár þar til sárin gróa að fullu."

Þau Lúkas og Svetlana stóðu fyrir söfnun á Akranesi árið 1991 til stuðnings stríðshrjáðu fólki í gömlu Júgóslavíu og söfnuðu fimm tonnum af fötum sem send voru út. Og þau hafa bæði unnið í sjálfboðavinnu fyrir Rauða krossinn. "Við höfum líka sent reglulega föt og peninga til fólks sem við þekkjum og hefur skrifað okkur og sagst ekki eiga fyrir mat. Stríðið hefur því vissulega haft áhrif á okkur og valdið okkur áhyggjum og kvíða. En vonandi er þessu nú lokið."

Það er annað með hann Lúkas hafði menntað sig í matvælaiðnaði í Júgóslavíu, en kvaðst aldrei hafa haft áhuga á að vinna við það. Þegar hann kom til Íslands fór hann að vinna við trésmíðar, ásamt knattspyrnunni, enda þykir hann handlaginn. "Núna vinn ég eingöngu við það sem ég lifi fyrir, það er knattspyrnan, og er alsæll."

Svetlana hafði menntað sig í stjórnsýslulögum gömlu Júgóslavíu, en eftir að gamla stjórnkerfi kommúnista hrundi varð sú menntun gagnslaus. Hún vann í tvö ár í bakaríi á Akranesi og sem baðvörður í sundlauginni í Grindavík. Nú er hún að hefja störf við líkamsræktarsöðina sem KR-ingarnir Þorsteinn Guðjónsson og Þormóður Egilsson veita forstöðu í Frostaskjólinu. Eldri sonurinn Igor Bjarni, sem er 12 ára, er í Grandaskóla og byrjaður að æfa knattspyrnu með 4. flokki í KR. Yngri sonurinn Aleksandar Alexander, 3 ára, er í leikskóla. Hann er sá eini í fjölskyldunni sem er fæddur Íslendingur.

Svetlana kveðst vera ánægð yfir að vera flutt til Reykjavíkur þótt þeim hafi allstaðar liðið vel þar sem þau hafa búið hér á landi. En það að búa í bænum auki möguleika hennar á að mennta sig meira, sem hugur hennar stendur til. "Ég er að byrja á íslenskunámskeiði og svo langar mig til að læra myndlist," segir hún, en á veggjum hanga myndir eftir hana, sem ég hélt fyrst að væru eftir lærðan málara.

"Já hún er góð að mála," segir Lúkas. "Og hún er góð í flestu öðru. Þegar við vorum í Júgóslavíu saumaði hún fötin á okkur, klippti okkur og svo eldar hún líka góðan mat."

"Já, mér finnst mjög gaman að elda mat," segir hún og lítur glettnislega á mann sinn: "En það er annað með hann."

"Það leiðinlegasta sem ég geri er að elda mat, nema að ég er ágætur í að laga Cheerios og elda pylsur," segir Lúkas og bætir við afsakandi: "En ég vaska oft upp. Bara ef ég þarf ekki að elda mat. Allt annað, ekkert mál."

Morgunblaðið/Árni Sæberg FJÖLSKYLDAN - Í útidyrunum við nýja heimilið að Álagranda. Fremst er Aleksandar Alexander 3 ára, Igor Bjarni 12 ára, Svetlana Björg og Luka Lúkas.BARNIÐ - Alexander litli bregður á leik eins og barna er siður.KNATTSPYRNA - Igor Bjarni heldur upp á AC Milan og Manchester United. Hér bendir hann á uppáhaldsleikmann sinn í liði AC Milan, Savicevic.FORTÍÐIN - Hjónin glugga í gamlar myndir og rifja upp bernskuminningar frá Júgóslavíu.GESTABÓKIN - Lúkas og Svetlana hafa aldrei átt gestabók enda ekki til siðs í Júgóslavíu. Morgunblaðið færði þeim þessa að gjöf í trausti þess að hún fyllist fljótlega af nöfnum vina og kunningja.

Við höfðum það mjög gott og ég átti orðið sem svarar þremur bílverðum í banka