Ný bók eftir séra Gunnar Björnsson Bókaútgáfan Tákn hefur sent frá sér bókina Svarti sauðurinn séra Gunnar og munnsöfnuðurinn, eftir Gunnar Björnsson. Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Í formála bókarinnar kemst séra Gunnar meðal annars svo að orði um...

Ný bók eftir séra Gunnar Björnsson Bókaútgáfan Tákn hefur sent frá sér bókina Svarti sauðurinn séra Gunnar og munnsöfnuðurinn, eftir Gunnar Björnsson. Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Í formála bókarinnar kemst séra Gunnar meðal annars svo að orði um tilefni bókarinnar: "Sú eign mín af þesum heimi, sem mér er minnst sama um, er prestshepma ein fátækleg. Á undanförnum árum hefur hópur fólks hér í bænum ekkert til sparað til að svipta mig hempu þessari. Í barnaskap mínum hefur mér samt verið ómögulegt að hata þetta fólk. Ég segi heldur eins og Una í Unuhúsi, þegar næturgesturinn stal frá henni dúnsænginni hennar: "Það þarf að hjálpa þessu fólki".

Allt frá greinargerð safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar sem birtist í blöðunum í byrjun júlí, niður í fréttablað, sem leifar þessarar sömu stjórnar sendu hverju heimili í söfnuðinum, líka smábörnum, hefur málflutningur þessa blessaðs fólks verið merktur lítt skiljanlegum tilfinningahita, eins og lífið lægi við að losna við prestinn, hvað sem það kostaði. Og nú er búið að skrifa það svo oft í blöðin, að fríkirkjupresturinn sé geðvondur ávísanafalsari, óstundvís bögubósi í kirkjulegum athöfnum, þurftafrekur á fjármuni safnaðarins til einkaneyslu sinnar og með fádæmum illa giftur - það er búið að prenta þetta svo víða, að það hlýtur að vera satt."

Svarti sauðurinn skiptist í fimmtán kafla og hefur að geyma fjölda mynda og nafnaskrá. Séra Gunnar segir frá veru sinni á Bolungarvík, tildrögum þess að hann gerðist prestur Fríkirkjunnar, safnaðarstarfi, deilum og aðförinni sem að honum var gerð. Höfundur rifjar upp kynni sín af fjölda fólks og dregur fram í dagsljósið upplýsingar sem hingað til hafa verið á fárra vitorði. Bókin er skrifuð á hressilegan og hispurslausan hátt, innlegg "svarta sauðsins" í umræðu sem ekki sér fyrir endann á. Í lokakafla bókarinnar segir séra Gunnar: "Ég vona að lausn fáist í þessu máli hið fyrsta. Annars hættir Fríkirkjan að vera evangelísk-lúthersk kirkja og skipar sér á bekk með sértrúarsöfnuðum.""

Svarti sauðurinn er 212 síður, prentuð í Prentsmiðju Árna Valdemarssonar. Ólafur Lárusson hannaði bókarkápu.